20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2199)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Þorbergur Þorleifsson:

Hv. þm. Borgf. hefir gert þeirri brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Ak., þau skil, að óþarft er að taka til máls til að sýna fram á, að þessi brtt. er fram borin til þess að reyna að eyðileggja málið. Hv. þm. A.-Húnv. hefir játað það, að þessi brtt. er fram borin til þess að koma málinu í það horf, að það verði fellt hér í hv. d., og þess vegna getur enginn, sem þessu máli fylgir, greitt henni atkv. verði hún samþ., er málinu teflt í hættu, því ýmsir hafa léð því fylgi sitt vegna þess sparnaðar fyrir ríkissjóð, sem í því felst, á þann hátt, að verði frv. samþ. og afgr. sem l. frá Alþ., þá eru ekki líkindi til, að fleiri útrýmingarbaðanir þurfi að fara fram en sú, er fé er veitt til í fjárl. fyrir árið 1936. Annars er ekkert öryggi fyrir því, að það geti ekki farið svo, að hver svonefnd útrýmingarböðun reki aðra, sem mundi hafa í för með sér stórkostlegan kostnað fyrir ríkissjóð og kostnað og tjón fyrir fjáreigendur. — Ég er óhræddur við að koma með þetta frv. út í sveitir landsins. Sveitabændur eru yfirleitt ekki svo smásálarlegir, að þeir sjái eftir þessari greiðslu til þeirra manna, sem eiga að sjá um, að þessum lögum sé framfylgt. Eins og tekið hefir verið fram, er það eftirlitsleysið með framkvæmd þrifabaðanna, sem hefir valdið því, að fjárkláðinn hefir magnazt og er orðinn sá vágestur í sveitum landsins, sem raun ber vitni um.

En það, sem kom mér til að standa upp, var eitt atriði í ræðu hv. þm. Ak. — Þeim hefir ekki komið vel saman, þessum tveimur hv. flm.brtt. Hv. þm. A.-Húnv. hefir lýst því yfir, að það væri ekkert nýtt til bóta í frv. Hv. þm. Ak. viðurkenndi þó, að nokkur ný atriði væru í frv. (GÍ: Ekki til bóta). Atriði, sem ég skal nú sýna fram á, að eru til bóta. — Fyrsta atriðið er, að valið skuli sérstakt baðlyf í samráði við rannsóknarstofu háskólans. Þetta er nauðsynlegt til þess að tryggja það, að notað sé gott baðlyf; baðlyf, sem sé nógu sterkt og komi að fullu gagni. Þetta er ekki tryggt, ef menn velja sér baðlyf sjálfir. Þess vegna er þetta atriði, sem er nýtt, til bóta. — Annað atriðið, um baðstjóra, er líka nauðsynlegt. Reynslan hefir sýnt, að ekki hefir verið nægilega fylgt eftir þessari löggjöf, sem verið hefir, og þess vegna hefir svo farið, að á sumum stöðum hefir böðun ekki verið framkvæmd árum saman. Þetta er ólíðandi og hlýtur að leiða til þess, að allskonar óþrif magnist, t. d. kláði; en ef sérstakur baðstjóri er, þá sér hann um, að lögunum sé framfylgt. Þetta atriði er því líka bæði nýtt og til bóta.

Þá er þriðja atriðið. Hv. þm. Ak. vildi ekki láta lögleiða það, að baðað skuli í sundþróm. Frá mannúðarlegu sjónarmiði er það sjálfsagt, að ekki sé baðað öðruvísi en í sundþróm, því það fer miklu betur með féð, og auk þess er þá miklu meiri trygging fyrir því, að hægt sé að drepa allskonar óþrif, bæði kláða og lús. Þeir, sem ekki hafa sundþrær, hafa oft borið í féð, en það kemur ekki að eins góðum notum. Þetta 3. atriði er því einnig bæði nýtt og til bóta.

Þeir hv. þm., sem hafa barizt á móti því, að þetta frv. yrði samþ., telja sig aðalmálsvara þess, að fjárkláðanum verði útrýmt; en það virðist svo sem þeim sé það ekki eins mikið áhugamál eins og þeir láta. Einn hv. þm. úr þessum hóp sagði við 2. umr., að kláðinn væri kominn á svæði, sem hingað til hafa verið talin kláðalaus, — að hann væri kominn alla leið í syðsta hrepp Suður-Múlasýslu og í nágrenni við Austur-Skaftafellssýslu. Ég sagðist aldrei hafa heyrt þessa getið og innti þennan hv. þm. nánar eftir því í privat samtali, hvernig þessu væri varið, og svarið var: „Hann (fjárkláðinn) kom þangað með tveimur hrútum, sem ég útvegaði norðan úr Strandasýslu, að Berufirði og í Álftafjörð“. Þar sem þessi hv. þm. hefir á þennan hátt beinlínis orðið til þess að stuðla að útbreiðslu fjárkláðans, má það undarlegt heita, að hann skuli telja sig málsvara þess að útrýma fjárkláðanum.

Það hefir verið talað um, að með útrýmingarböðun væri auðvelt að útrýma kláðanum. En sannleikurinn er sá, að það eru litlar líkur til þess. Í flestum árum gengur nokkuð af fé úti á afréttum, og getur það eins verið með kláða eins og það fé, sem hýst er. Það er þess vegna ekki líklegt, að náist í allt fé, sem er með kláða, þótt útrýmingarböðun fari fram. En ef útrýmingarböðun á að fara fram ár eftir ár, þá er það bæði dýrt og hefir spillandi áhrif á heilsu fénaðarins. Tvö böð, hvort eftir annað, hafa mjög vond áhrif á heilsu fénaðarins og hafa auk þess mikinn aukinn fóðurkostnað í för með sér.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Það er margrætt, og ég vænti þess fastlega, að það verði nú afgr. til hv. Ed.