20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2200)

60. mál, sauðfjárbaðanir

Magnús Torfason:

Stéttarbróðir minn vill líta svo á, að með því að hæstv. landbrh. hefir lagt fyrir sýslurnar að stinga upp á mönnum til eftirlits með útrýmingarböðun í hverri sýslu, þá sé þar með sagt, að útrýmingarböðun eigi að fara fram á þessu ári. Ég skil þetta ekki svo, heldur þannig, að samkv. lögunum sé sjálfsagt, að þessir menn séu til, hvort sem það á að fara fram útrýmingarböðun nú á þessu ári eða ekki. — Það er aðeins uppfylling á bókstaf laganna, og sjálfsagt að hafa á því allan vara.

Hinsvegar segi ég, að eftir því, sem útlit er nú í landinu, þá skil ég það ekki, að hæstv. landbrh. muni skipa fyrir, að slík böðun fari fram á þessu ári. Það er vitað, að ormaveikin hefir undirlagt mörg héruð og að margir bæir hafa af þeirri ástæðu goldið mikið afhroð, og meðan svo er tel ég hættulegt, að skipa útrýmingarböðun og hafa tvö böð. Ég er ekki í vafa um, að það mundi fjölga þeim kindum, sem dræpust úr veikinni, og fé mundi alls ekki þola slíkt viðbótarhnjask.

Þá sagði sami hv. þm., að þrifaböð væru óþörf, þegar kláðanum hefði verið útrýmt. Fyrst og fremst er það engan veginn víst, að kláðanum verði útrýmt við eina útrýmingarböðun, enda höfum við reynslu fyrir því, að slíkt hefir brugðizt. En þótt nú svo færi, að síðasti kláðamaurinn yrði drepinn í fyrstu atlögu, þá hafa þrifabaðanirnar fullan rétt á sér samt, því að þær eru hreinn búhnykkur, sem ég get borið um af eigin reynd, því að ég hefi haft fleira sauðfé undir höndum en hv. þm. Ak.

Ég skil ekki í því, hvers vegna hv. þm. berst svo á móti því að breyta ákvæðum núgildandi laga til batnaðar. Það hefir þó a. m. k. sýnt sig um núgildandi löggjöf, að þrifaböðununum hefir verið lítt framfylgt. Maður úr Vatnsdal, sem var nýlega á ferð hér syðra, sagði t. d., að þar væri kláði á hverjum bæ. Þetta sýnir, hvílík nauðsyn er á því að framfylgja lögunum og bæta þau. Því er knýjandi þörf á því, að í hverjum hreppi sé baðstjóri, sem hafi eftirlit með framkvæmdum og sæki þá til sektar, sem ekki baða. Veit ég þó, að starf þess manns kemur að litlu haldi, ef lögreglustjóri styður hann ekki í því, en ég verð þó að gera ráð fyrir, að svo verði víðast hvar.

Um sundþrærnar er það að segja, að allir, sem þekkja þær, telja þær til stórra bóta og þær margborga sig til lengdar. Í frv. er svo ákveðið, að fjölga skuli sundþróm, svo að þær verði nægilega margar að dómi haðstjóra, en hinsvegar hvergi tekið fram, að þær skuli vera á hverjum bæ. Þar, sem erfitt er að koma slíku við, svo sem á fjallakotum, verður að telja víst og sjálfsagt, að baðstjóri taki hæfilegt tillit til ástæðna, en beiti ekki valdi sínu óþyrmilega.

Því fleiri sem baðanirnar verða, því meiri von er um árangur. Mér er það fullkunnugt, að í mörgum sýslum er hin mesta þörf á því að herða á þrifaböðununum.