04.05.1936
Efri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2221)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Þorsteinn Briem:

Ég verð að telja, að dagskrártill. hv. 1. þm. Eyf. um frávísun komi nokkuð seint fram, þar sem málið hefir þegar gengið í gegnum 5 umr. án þess að því hafi verið breytt nokkuð að ráði.

Hv. þm. sagði, að nægileg ákvæði væru þegar um þetta efni í lögum. En þótt ég sé ekki kunnugur lögunum frá 1914, held ég, að ýms ákvæði til bóta séu í þessu frv. Þannig verð ég að telja það ákvæði til bóta, að hreppsnefndir og bæjarstjórnir sjái um, að jafnan séu nægar birgðir af baðlyfjum fyrir hendi. Þá er það ekki heldur til spillis, að í 4. gr. er svo ákveðið, að leita skuli samvinnu forstöðumanns rannsóknarstofunnar um það, hvaða tegund baðlyfs skuli notuð. Ég á ekki við, að hann skuli ákveða baðlyfið, heldur það, að leitað skuli ráða hans. — Þá tel ég, að það ákvæði sé til bóta, að til skuli vera nægilega margar sundþrær í hverjum hreppi. Því að það er margreynt, að þegar menn eru að kúldast við að baða sauðfé úr kollum eða kerum, verður meðferð fjárins miklu verri og miklu minni trygging fyrir því, að böðunin komi að tilætluðum notum. Hér er alls ekki átt við það, að sundþró skuli vera á hverjum bæ, heldur það eitt, að þær séu nægilega margar í hverjum hreppi. Og þótt það hafi komið fram á einum stað eða svo, að baðstjórar geri ekki gagn, þá held ég, að það sé síður en svo almenn regla. Ég held, að langt sé frá því, að hér sé um tóm útgjöld að ræða, sem ekkert kemur á móti, því að yfirleitt mun baðstjórinn veita aðstoð við verkið sjálft, en fæstir sveitabæir geta verið án aðfenginnar hjálpar við böðunina hvort sem er. Og ég vil líka ætla, að kaup baðstjóra fari ekki svo langt fram úr kaupi forðagæzlumanna, að það verði mjög tilfinnanlegt. Þá á landbrh. að setja reglur um böðunina samkv. frv., og verður einnig að telja það til bóta.

Reynslan af þrifaböðunum undanfarið hefir verið sú, að þar, sem þær hafa verið framkvæmdar reglulega, hefir tekizt að halda kláðanum í skefjum, og er slíkt mikils virði. En lögin um útrýmingarböðun koma auðvitað eins til greina fyrir því, þótt þetta frv. verði samþ., en tryggingin fyrir því, að slík böðun komi að gagni, ætti að vera meiri eftir en áður, því að meiri von er um, að útrýmingarböðun megi takast fullkomlega, ef til eru þessi lög um þrifabaðanirnar.

Þrátt fyrir röksemdir þær, sem hv. 1. þm. Eyf. færði fyrir dagskrá sinni, mun ég greiða atkv. gegn henni.