04.05.1936
Efri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2222)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Bernharð Stefánsson:

Það gleður mig að heyra, að þetta frv. er ekki fram komið til þess að hindra útrýmingarbaðanir. Satt að segja álít ég tíma til þess kominn að losna við fjárkláðann og láta ekki kák eitt duga. Ég skal ekki rengja þá góðu menn, sem halda því fram, að þetta frv. eigi ekki að hindra útrýmingarbaðanirnar, en reyndar verður ekki betur séð en að það hljóti að vera einasti tilgangurinn.

Hv. 1. þm. N.-M. sagði, að ákvæði vantaði í lög þau, sem nú gilda um sauðfjárbaðanir, en hann nefndi ekki, hvaða ákvæði það væru. Samkv. núgildandi lögum er hreppsnefndum og sýslunefndum falið að hafa eftirlit með böðununum, og hygg ég, að ákvæði frv. geri eftirlitið lítið tryggara. Hv. 1. þm. N.-M sagði, að þrifabaðanirnar væru víða alls ekki framkvæmdar. Þetta má vera, en ef svo er, þá er þetta fullkomið lögbrot, — og hvaða trygging er í þessu frv. fyrir því, að þau haldi ekki áfram?

Ég get nú sagt hv. þm., hvernig ég reiknaði það út, að kaup baðstjóra í meðalhreppi myndi nema um 300 kr. Ég gerði ráð fyrir, að hann hefði 8 kr. kaup á dag og stjórnaði böðun á 40 bæjum, en það má telja bæjafjölda í meðalhreppi. Kostnaður við starf hans yrði þá 320 kr. Það má kannske segja, að þetta sé hátt reiknað, og ef til vill gæti þetta orðið eitthvað lægra. Hv. 1. þm. N.-M. sagði líka, að mörgum sveitabæjum kæmi vel að fá hjálp baðstjórans, og sýnir það, að til er ætlazt, að hann vinni að sjálfri böðuninni. Verkið er því hið versta, eins og ég get borið um af eigin reynd, því að ég hefi sjálfur verið baðstjóri. Og fyrir hið versta starf í 40 daga virðist sú upphæð, sem ég nefndi, ekki vera ofgoldin, þótt ef til vill verði hægt að fá menn fyrir eitthvað minna.

Hv. 10. landsk. sagði, að dagskrártill. mín kæmi seint fram. Það er nú venja, að slíkar till. geti komið fram hvenær sem er, en hitt er rétt, að oft gengur svo með þingstörfin hér, að menn taka málin ekki svo snemma sem skyldi til umhugsunar. Ég fór ekki að athuga þetta mál fyrr en við 2. umr.

Hv. 10. landsk. taldi það einn af kostum frv., að leita skyldi samvinnu við forstöðumann rannsóknarstofunnar um val baðlyfja. En ég veit ekki betur en að það ákvæði sé í eldri lögum, að stjórnarráðið skuli löggilda þau baðlyf, sem nota á, og verður þá að telja víst, að stjórnarráðið leiti álits sérfræðinga í því efni.

Ákvæðin um sundþrærnar kunna að vera nýmæli, en þar sem ég þekki til geta allir baðað sauðfé sitt í sundþróm nú, enda er satt að segja svo hverfandi lítill kostnaður við að gera sundþrær, að það er fæstum ofvaxið. Út af því, sem hv. 10. landsk. sagði um laun forðagæzlumanna og baðstjóra, vil ég taka það fram, að ég tel starf forðagæzlumanna alls ekki sambærilegt við starf hinna, og því ekki ástæðu til þess að greiða þeim jafnhátt kaup.

Það má vera, að meinlaust sé að samþ. frv. þetta, en þó tel ég ákvæði 6. gr. alls ekki vera meinlaus. Málið er mér ekki mikið kappsmál, en ég tel þá lausn heppilegasta á því að þessu sinni, að dagskrá mín verði samþ.