03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2227)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Flm. (Ólafur Thors):

Ég þarf ekki að láta þessu máli fylgja langa framsögu, vegna þess að efni frv. er öllum hv. þdm. kunnugt, þar eð mál þetta lá fyrir síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga. Var það allýtarlega rætt þá, og hirði ég því ekki að endurtaka nú við 1. umr. þau rök, sem við, sem að málinu stóðum fluttum þá því til framdráttar. Ég skal aðeins minna á, að í grg., sem frv. fylgdi í fyrra, var lögð höfuðáherzla á, að hér væri um allverulegan kostnað að ræða, sem lagður væri á sjávarútveginn, kostnað, sem þætti ástæða til að létta af útveginum. Í fyrsta lagi af því, að sjávarútvegurinn er ekki fær um að standa undir neinum ónauðsynlegum útgjöldum. Og í öðru lagi vegna þess, að óhætt er að fullyrða, að sjávarútvegurinn mundi einskis fara á mis, þó að breytt væri um tilhögun í þessum efnum eins og fram á er farið í frv., þannig, að á meðan Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda starfar, þá sé því falið hlutverk fiskimálan. samkv. l. nr. 121 frá 12. des. 1935.

Ég vil ekki eiga þátt í því að vekja óþarfa misklíð um þetta mál. Enda þótt e. t. v. megi gera ráð fyrir, að málið nái ekki svo að ganga út úr þinginu, að ekki komi til allverulegra átaka um það, þá ætla ég, að forðast megi það við þessa umr.

Til viðbótar þeim rökum, sem færð voru fram málinu til stuðnings í fyrra, vil ég aðeins vekja athygli á því, sem reyndar er öllum hv. þdm. kunnugt, að það ríkir ekki fullur friður um fisksölumálin, og hefir jafnvel komið til allverulegra átaka og misklíðar um þau á milli Sölusamb. ísl. fiskframleiðenda og fiskimálan. Og ég hygg, að menn verði að vera sammála um, að slíkt beri að forðast. Ég og við, sem að þessu frv. stöndum, teljum, að þessi misklíð sé ein ný sönnun fyrir því, að rétt sé að hníga að því ráði, sem hér í frv. er bent á, nefnilega að skipa einn aðilja, sem fari með þessi mál. Og ég vil sérstaklega bera fram þá ósk, að nú, eftir að þessu máli er vísað til sjútvn., sem ég leyfi mér að leggja til, að gert verði, þá geri n. tilraun til að afla sér upplýsinga um það, hver sé vilji sjálfra fiskframleiðendanna í þessu efni. Því að eftir honum verður að sjálfsögðu mikið að fara. Ég hygg, að það orki ekki tvímælis, að allur þorri fiskframleiðenda óski eftir þeim breyt. á l., sem hér er farið fram á, fyrst og fremst til þess að forðast óþarfan kostnað og í öðru lagi af því að stjórn og framkvæmdarstj. S. Í. F. njóta trausts alls þorra fiskframleiðenda til þess að inna af hendi það hlutverk, sem hér er um að ræða.

Sé ég svo ekki ástæðu að svo komnu að fara frekar út í þetta málefni. En ég endurtek þá ósk mína til sjútvn., að hún reyni að rannsaka, hver vilji útvegsmanna er í þessu efni, og sú rannsókn ætti ekki að vera vandkvæðum bundin.

Eins og ég hefi tekið fram, legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.