29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Þetta mál er nú orðið nokkuð gamalt hér í d., og ég hefi látið í ljós áður, að mér þykir því hafa verið sýnd heldur lítil rækt. Nál. kom fram 16. marz, en nú er komið fram í apríllok, svo málið hefir þannig legið fyrir á sjöundu viku án þess að koma á dagskrá. Þetta út af fyrir sig sýnir, að málið nýtur ekki velvildar af hendi þeirra, sem ráða vinnubrögðum hér á þingi. En það má segja, að ef frv. á að bíða bana við atkvgr., þá hefði það mátt verða tafarlaust. Það stendur nú þannig á, að flm. málsins og við, sem erum því fylgjandi, vorum ráðnir í að taka þetta mál upp á annan hátt eða flytja annað í þess stað, ef frv. það, sem hér liggur fyrir, næði ekki fram að gang. En með þeim misrétti, sem beitt hefir verið við afgreiðslu málsins, er séð fyrir því, að slíkt er ekki hægt að gera. Enda þótt hæstv. forseti sé yfirleitt réttsýnn í því, hvenær mál koma hér fyrir, hefir þetta mál ekki notið hans réttsýni, og kemur hér greinilega fram. hvað óþægilegt slíkt getur verið. Og í þetta skipti er, án þess að atkvgr. fari fram um málið, með drættinum einum komið í veg fyrir, að hægt sé að bæta úr þeirri þörf á annan hátt, sem þetta frv. átti að bæta úr, þ. e. a. s., ef það verður fellt. Hv. frsm. meiri hl. n. í þessu máli gerði grein fyrir skoðun þess hluta n., þegar umr. þessar byrjuðu. Skal ég nú nokkuð koma að hans röksemdum (ef svo má nefna það) bráðlega. En ég vildi í byrjun taka það fram, sem sjálfsagt er mörgum áður kunnugt, að fiskimálanefnd hefir skilið hlutverk sitt nokkuð á annan hátt, og ég vil segja mjög á annan hátt en gert var ráð fyrir, þegar l. um hana voru samþ. á Alþ. Það var ekki minnzt á það einu orði þá, að þessi n. ætti að vera verzlunarfyrirtæki, og sízt af öllu áhættusamt verzlunarfyrirtæki, og því síður að hún ætti að vera einskonar ríkisstuddur keppinautur til þess að bæta niður eða koma í veg fyrir starfsemi fiskeigenda landsins og ráðstafanir þeirra til þess að gera framleiðslu sína verðmæta. En í framkvæmdinni hefir n. farið inn á það svið fyrst og fremst að reka verzlun. Og í öðru lagi hefir hún á ýmsum sviðum gerzt beinn andstæðingur fiskeigenda og beitt ríkisstuddu valdi sínu til þess að ónýta fyrir fiskeigendum markaðs- og sölumöguleika. Ég held, að það sé ekki hægt að hugsa sér herfilegri misskilning á hlutverki sínu en þetta. Og þeir menn hljóta að vera haldnir mjög fágætri blindu, sem halda það, að Alþ. sé skylt eða yfirleitt sæmandi, á þeim vandræðatímum, sem nú ganga yfir útgerð þessa lands, að gera mjög kostnaðarsamar ráðstafanir til þess að leggja stein í götu þeirra manna, sem framleiða fiskafurðir. Og allra mest fjarstæða virðist það vera, að fiskeigendur sjálfir eigi að kosta svo ótrúa þjóna, sem sólunda fé eftin því sem þeim sjálfum þóknast, fiskimálan. og aðra aðstandendur þessara spellvirkja.

Það hefir í öðru sambandi verið tekið hér fram, að gert var ráð fyrir, að þeir, sem framleiddu fiskinn, héldu áfram að gera hann verðmætan alveg á sama hátt og þeir hafa frá upphafi gert. með því að leita hinna beztu markaða fyrir hann og verka hann fyrir þessa markaði, og þá vitanlega fyrir nýja markaði, eftir því sem eldri markaðirnir þrjóta. Með l. um fiskimálanefnd var gert ráð fyrir, að þeir, sem framleiddu fisk, gerðu tilraunir um öflun nýrra markaða fyrir fisk, eftir því sem þörf krefði, og að fiskimálanefnd styddi þessar tilraunir á allan hátt. Enda var það hið sjálfsagðasta, að þeir gerðu það sjálfir og fengju styrk til þess, eftir því sem þær tilraunir virtust á viti byggðar, en ekki það, að þeim væri meinað slíkt og fiskimálan. gripi fram fyrir hendurnar á þeim í þessum efnum. Nú hefir það orðið svo í framkvæmdinni, að fiskimálanefnd er svo metnaðargjörn og sér það með einhverjum öfundar- og óvildaraugum, ef aðrir hreyfa sig í þessu tilliti. En henni dettur aldrei í hug neitt af viti, nema þegar hún getur hermt það eftir einhverjum öðrum. En þó að henni detti í hug eitthvað af viti, þá verða framkvæmdirnar svo ömurlegar og aumar, að það er eins og vitlausum manni sé hleypt inn á sjónarsviðið, sem setur allt, sem hann snertir við, í fjaðrafok og vitleysu. Og svo eru fiskeigendur látnir bera kostnaðinn við að vinna þessi skemmdarverk.

Ég vil ekki tefja tímann með því að rekja alla þá atburði, sem sannað hafa skaðræðisvinnubrögð fiskimálan. En það er vitað, að hún hefir viljað taka fram fyrir hendurnar á fiskeigendum um sölu á kældum og frystum fiski. Það er vitað um ferðalagið til Póllands, þar sem ríkið og fiskeigendur urðu að borga jafnmikið fyrir ófarir og slysni fiskimálanefndar eins og allur farmurinn kostaði, sem sendur var. Ég vil ekki tefja tímann með því að endurtaka það, sem sagt hefir verið hér um sendinguna á fiski til Norður-Ameríku. En nú skal ég með fáum orðum víkja að því, sem frsm. meiri hl. sjútvn. sagði hér. Hann endurtók það í ræðu sinni, sem er í nál. meiri hl., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ennfremur er hlutverk sölusambandsins, samkv. samþykktum þess. eingöngu það, að sjá um sölu á saltfiski.“

Mér er nú ekki kunnugt um — og ætti mér þó að vera kunnugt um það, ef nokkur stafur væri fyrir því — að fisksölusambandið hafi nokkurn tíma sett tæmandi reglur um það, hvað það mætti gera í fisksölumálunum. Það er ekkert annað en heilaspuni og fávizka að halda slíku fram, því að Sölusambandið samanstendur af nær því 90% af öllum fiskeigendum landsins. Og þeir mega auðvitað selja allt, sem þeir framleiða. Þeir reka sinn atvinnurekstur í þeim tilgangi að selja allt, sem þeir framleiða. Og það getur enginn neitað þeim að leita til þeirra stjórna, sem þeir hafa valið sér í félagi til þess að sjá um sölu á framleiðslu sinni fyrir sig. Og þetta hafa þeir gert. Hlutverk félagsins er ekkert annað en það, að selja alla framleiðslu félagsmanna, í hvaða ástandi sem hún er. Það hlutverk hafa haft ýmist framleiðendur sjálfir með höndum eða þeir hafa falið stjórn félagsins það. Þarna ruglar hv. þm. saman tveimur atriðum. Og það er kannske eðlilegt, því að það hafa svo margir gert á undan honum. Og hann þarf ekki annað að gera en að hafa ruglið eftir, sem sé það, að l. félagsins telji tilgang þess að selja aðeins saltfisk félagsmanna. Nú vita það allir, sem hafa glætu af viti í höfðinu, að mestöll fiskframleiðslan hefir verið seld sem saltfiskur, og auðvitað var þá fyrst og fremst í þeim kringumstæðum tilgangur félagsins að selja saltfisk. En það þarf einkennilega óvitran mann til þess að draga af því þá ályktun, að þetta félag megi ekki selja fisk þessara framleiðenda, sem þeir verka á annan hátt. — Svo, segir hér í nál. meiri hl.:

„Hafa þeir og hvorki talið sér rétt né skylt að skipta sér af annari afurðasölu“, og er hér átt við framkvæmdarstjóra í Sölusambandinu. En þeir hafa ekkert um þetta sagt eða prentað. En hitt er víst, að þeir telja sér rétt og skylt að gera það, sem félagsmenn fela þeim, ef þeir álíta það sjálfir á viti byggt.

Þá segir ennfremur í nál. meiri hl.: „Ekki verður annað séð en að þessi skoðun meiri hl. n. fari saman við vilja fiskeigenda í þessu efni.“

Það er náttúrlega hart að þurfa að spyrja um það, hvort þeir menn, sem skrifað hafa þetta nál., eru að leika sér eða hvort mennirnir eru virkilega að ganga af vitinu. En til þess að segja slíka hluti sem þessa, þegar fiskeigendur eru nú nýbúnir að senda Alþ. áskorun um að afnema þessa fiskimálanefnd, til þess að fiskframleiðendur megi hafa frið til að selja fisk sinn, þarf annaðhvort mann, sem er að leika, eða mann, sem er genginn af vitinu. Svo er í þessu sambandi í nál. farið að rökstyðja það — ef svo skyldi kalla — með því, að fiskiþingið hafi fellt till., sem raunar var dálítið óákveðin, en var um það, að fiskeigendur skyldu fara með sín mál sjálfir, eða eitthvað þessháttar. En þetta fiskiþing var alls ekki samsett af fiskeigendum fyrst og fremst. Þar voru menn, sem engan fiskugga eiga, og kannske menn, sem ekki einu sinni þekkja fiskugga. Og ennfremur skiptust menn við atkvgr. þar alveg í jafna hluta um þetta mál, þannig að það var nú ekki um að ræða þarna neinn sigur þessara öfundarmanna fiskeigenda. Og menn, sem voru í meiri hl. viðkomandi skoðun á þessu máli, sátu einnig margir hjá við atkvgr., þannig að fyrir það féll till., en ekki fyrir það, að hún ætti ekki fylgi meiri hl. fiskiþingsins. Það er ekkert á móti því að segja þá hluti, sem sannir eru, og þess vegna segi ég það, að það var af hálfu olíusalans beitt kúgun við menn til þess að þeir greiddu ekki atkv. eftir sannfæringu sinni. Þessi ímyndaði sigur hv. meiri hl. n. er nú ekki betur ættaður en þetta. — En það, sem fram fór á fiskiþinginu, sýnir, að það var illa skipað, — skipað mönnum, sem ekki skildu hlutverk sitt, sem ekki eru réttsýnir eða samvizkusamir menn. Það má ekki minna vera en að fiskeigendur eigi þessa stofnun.

Hv. frsm. sagði, að Sölusambandið mundi krókna, ef fiskimálanefnd væri lögð niður. Ekki veit ég, af hverju hann dregur þessa ályktun. Á aukafundi félagsins, sem haldinu var nú fyrir skemmstu, var samþ. till., sem ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp. Hún hljóðar svo:

„Aukafundur S. Í. F., haldinn í Reykjavík 3.–4. apríl 1936, lítur svo á,

1. Að fiskimálanefnd hafi unnið fisksölunni tjón og álitshnekki með afskiptum af fisksölunni til Norður-Ameríku.

2. Að stjórn S. Í. F. geti annazt flest störf nefndarinnar því nær kostnaðarlaust, og sé betur til treystandi að leysa þau vel af hendi.

Skorar fundurinn því á Alþingi að láta fiskimálanefnd hætta störfum nú þegar og ráðstafa verkefnum hennar eins og lagt er til í frumvarpi, sem nú liggur fyrir neðri deild Alþingis (þskj. 51).

Þessi till. var samþ. með 1823/4 atkv. gegn 43½ atkv. Ég hugsa, að það verði ekki vefengt, að vilji fiskeigendanna í landinu hafi komið ótvírætt í ljós á þessum aukafundi S. Í. F. Ég get getið þess, að samlög fiskeigenda, sem mynduð eru á Vestfjörðum, við Faxaflóa og í Vestmannaeyjum, héldu öll fundi um þetta mál, og meðlimir þeirra samþykktu að skora á stjórn Sölusambandsins að halda þennan fund til þess að hnekkja valdi fiskimálan. Og þetta var alveg atkvæðagreiðslulaust samþ. hjá þessum aðiljum, og þar var saman kominn allur þorri fiskframleiðenda á þessum svæðum. Það var aðeins samlagið hér við Faxaflóa, sem hafði þá aðferð að láta hvern meðlim út af fyrir sig koma fram með sinn vilja, sem stafar af því, að hér við Faxaflóa er framleiddur pólitískur fiskur, þ. e. a. s., það eru í samlaginu hér stöku menn, sem meta mest að fylgja rauðu flokkunum að málum. — Sömuleiðis var það á Austfjörðum, að Austfirðingar sameinuðu sig ekki um að taka ákvörðun um þetta, heldur sendu hver fyrir sig umboð í þessu skyni. — En annars var þessi fundur Sölusambandsins svo eindreginn, eins og hér sést, að ca. 183 atkv. voru með samþykktinni, en aðeins 43½ á móti. Svo kemur hv. frsm. meiri hl. sjútvn. og segir, að álit meiri hl. S. Í. F. virðist vera í fullu samræmi við vilja fiskimálan.

Ég held nú, að það sé erfitt fyrir hæstv. Alþ. að ganga á móti svona eindregnum vilja fiskeigenda. Ég held, að það verði að líta svo á, að framleiðsla til sjávarins sé svo mikils virði fyrir ríkið, að verðugt sé að gefa gaum og styðja þá starfsemi fiskframleiðenda að þessum málum, sem hægt er að styðja, án fjárframlaga a. m. k.

Og það hefir ekki fjárhagsleg útlát í för með sér að létta fiskimálan. af fiskframleiðendum.

Ég tel það ákaflega varhugavert, þegar heil atvinnustétt safnast saman vegna vandræða sinna og sendir jafneindregin tilmæli eins og þessi tilmæli frá S. Í. F. eru, sem ég las upp og engin önnur óþægindi hafa í för með sér fyrir ríkið en að láta hætta störfum um stund eina nefnd, sem þessum framleiðendum þykir hnekkja sinni framleiðslu, að daufheyrast þá við því að taka til greina slíkar áskoranir. Því að eins og aðrar stéttir hafa sýnt það með samtökum sínum, að þær vilja ekki láta misbjóða sér, þá gæti verið, að þessi framleiðslustétt hefði tök á að koma vilja sínum fram á nokkuð harkalegri hátt en tilraun er gerð til hér með þessu rökstudda og mjög hóflega erindi. — Vil ég í þessu sambandi geta þess, að þegar fiskimálanefnd fór að vasast í fisksölumálum Sölusambandsins, sérstaklega nú að því er snertir sölu á fiski til Ameríku, þá urðu óvinsældir n. meðal fiskeigenda svo miklar, að smábátaeigendur neituðu blátt áfram að afhenda n. fisk í þess, fyrirhuguðu sölu, bæði af því, að þeir treystu n. ekki til þess að fara með málið af viti, og líka af því, að þeim þótti með öllu óviðeigandi, að þetta mál væri tekið úr höndum þeirra manna, sem meiri þekkingu höfðu á því og stóðu nær því að fara með það. Og þegar svo langt er komið, að fiskeigendur, sem ekki eiga kost á að selja fisk sinn á annan hátt, neita að afhenda þessari n. fisk sinn, þá er sýnilegt, að traustið á n. er harla lítið.

Til hvers er svo þessi n. að troða sér fram til þess að hafa á hendi þessa sölu? Það virðist vera vandfundin ástæðan fyrir því. Ekki getur það verið til hagsbóta fyrir fiskeigendur, sem telja það vera til hins mesta tjóns. Fyrir hvern þá? Ekki getur það verið til þess að sjá því opinbera fyrir fé. Því að það hefir sýnt sig, að sala n. á fiski hefir verið með þeim endemum, sem mest hafa þekkzt um sölu á nokkurri vöru frá landinu. Það getur ekki verið annað en að annaðhvort sé n. að halda lífinu í sjálfri sér og skara eld að sinni köku, þ. e. einstakra manna í n., með því að þiggja sín laun, eða þá að tilgangurinn sé að vinna beinlínis þessum atvinnurekstri, sjávarútveginum, tjón. En hvorntveggja þennan tilgang n. skil ég ekki, að hæstv. Alþ. geti virt mikils.

Ég þarf náttúrlega ekki að svara fjarstæðum eins og þeirri, þegar hv. frsm. meiri hl. n. sagði, að sala á ferskum fiski væri algerlega fjarskyld starfsemi Sölusambandsins. Hverjir framleiða nýjan fisk, ef ekki þessir fiskeigendur? Það er nú allt starf þessa fisksölusambands að framleiða fisk og selja hann í því ástandi, sem heppilegast þykir.

Ég skal ekki heldur skipta mér neitt af þeirri fávizku, sem fram kom hjá hv. frsm. meiri hl., þegar hann var að tala um, að framkvæmdarstjórarnir ættu svo annríkt, að þeir gætu ekki svarað bréfum. Þetta er vitanlega ekkert annað en hvert annað óvitahjal hv. frsm. meiri hl. n.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að starf framkvæmdarstjóra Sölusambandsins hefði verið gert pólitískt af sjálfstæðismönnum. Ég veit nú ekkert, hvaðan honum kemur sú speki. En ég held, að mér sé óhætt að segja, að framkvæmdarstjórar Sölusambandsins hafi aldrei spurt um pólitík í þessum efnum. Þeir hafa unnið sitt starf án þess að láta sig það nokkru skipta, hvaðan hin pólitíska gola stóð. Hinu ætla ég ekki að neita, að pólitík hefir verið blandað nokkuð inn í starf stj. félagsins. Sú pólitík hófst með því, að ríkisstj. tróð inn í þessa stj. — í fullri óþökk fiskeigenda — tveim mönnum, sem þangað höfðu ekkert að gera annað en að koma þangað inn pólitískum áhrifum.

Því var áður svarað, er hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri vilji mjög margra fiskeigenda, sem kæmi fram í samþ. fiskiþingsins. En eins og ég sagði, var reynt að gera það, sem þar fór fram, sem allra mest pólitískt. — Hitt vita menn, að þau atkv., sem ekki komu þar fram við atkvgr., á aukafundi S. Í. F., voru algerlega með meiri hl. þeirra, sem greiddu atkv. við atkvgr. á þessum aukafundi Sölusambandsins. Ég fer ekkert út í að skýra frá, hvernig á þessu stóð, að þau atkv. komu ekki fram. Það vita allir, að til eru menn, sem ekki geta mætt á svona fundum, en af einhverjum ástæðum þykir ekki henta að fá mönnum umboð fyrir sig. En munurinn á fylgi þeirra, sem mættu á fundinum, var svona greinilegur, að meir en fjórum sinnum fleiri greiddu atkv. með samþykktinni heldur en móti.

Þetta mál er svo yfirgripsmikið, að ef ég ætti að fara út í að sýna fram á það frá öllum hliðum, hversu óþörf þessi n. er og hve nauðsynlegt er, að hún hætti störfum, þá yrði það allt of langt mál nú. Ég ætla ekki að fara út á svo breiðan grundvöll með umr. Ég sé það ekki fært tímans vegna. — En ég vil taka það fram, að það fé, sem n. þessi er látin hafa til umráða, er ekki neinn hégómi. Ríkissjóður hefir ánafnað n. 1 millj. kr., þó að ekki sé það fé allt út greitt. Einnig er samþ. að taka helming af útflutningsgjaldi sjávarafurða og nota í sama tilgangi. Ráðh. hafði þetta fé til umráða, en honum hefir nú þóknazt að láta fiskimálan. vaða í því. Og þegar maður lítur á það, hve mjög hefir dregizt saman framleiðslan og þau verðmæti, sem sjávarútvegsmenn fá fyrir útfluttar fiskafurðir, er ómögulegt að líta smáum augum á þessa fjárhæð. Ég er ekki í vafa um, að ef þetta fé væri í þeirra manna höndum, sem með kynnu að fara, væri hægt að vinna fisksölunni ákaflega mikið gagn, en ég vil skora á hv. frsm. meiri hl. og stéttarbræður hans að benda á eitt einasta atvik, þar sem fiskmálanefnd hefir leyst verk vel af hendi og til hagsmun, fyrir fiskeigendur. Mér er ekki kunnugt um, að þar hafi neitt gengið slysalaust, nema harðfiskframleiðslan, en þó mun hún fyrir trúleysi á n., og kannske fyrir klaufaskap hennar, hafa orðið miklu minni en hún hefði getað orðið. En að þessi n. hafi opnað nokkra nýja möguleika, er mér ekki kunnugt um, og því síður, að nokkrar tilraunir hafi farið þannig úr hendi, að þær hafi aukið hróður íslenzkrar framleiðslu eða skilað svipað því eins miklum hagnaði og venja er til, þó að allra verst hafi tekizt til með frystifisksöluna til Ameríku. Og þegar nú fiskeigendur krefjast þess að fá þessi sín mál í sínar hendur, þá sé ég ekki, að Alþingi geti með nokkru móti forsvarað að standa þar á móti. Það er þá ekkert annað en að beita bolmagni og yfirgangi við þá menn, sem í versta árferði eru af þrautseigju sinni að reyna að vinna að því, að Íslendingar geti eignazt einhvern erlendan gjaldeyri, því að hann er að langmestu leyti skapaður af framleiðendum sjávarafurða.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að þetta mál verði að lokinni umr. látið koma til atkv. og afgreiðslu nú þegar á einhvern hátt.