29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég veit ekki, hvort það er af tilviljun, eða að það er gert af ráðnum hug að láta hv. 6. þm. Reykv. hafa orðið fyrir útvegsmönnum hér í d. í fisksölumálum. Það fer kannske vel á því, en engum getur blandazt hugur um, að hann hefir enga sérþekkingu til að bera í þessum málum. Þess vegna er það aðeins broslegt, þegar þessi hv. þm., sem allir vita, að er ófróðastur í þessu máli þeirra manna, sem yfirleitt um þau tala, er að belgja sig upp með miklum oflátungshætti og sleggjudómum um vankunnáttu og fákænsku þeirra manna, sem eru í fiskimálanefnd. Hv. þm. gerir sig að dómara yfir þeim, eins og hann hafi alla vizku til að bera, sem þessi mál snertir.

Ég get sagt það strax um þetta frv., sem hér liggur fyrir, að ég er því mótfallinn, að það nái fram að ganga, og tel, að það væri hið mesta glapræði, ef það yrði samþ. Ef það er athugað, hver verkefni fiskimálanefnd eru ætluð, og það. sem hún hefir haft með höndum, er það alveg ljóst, að það væri hið mesta óráð að leggja þess, stofnun niður. — Þau störf, sem fiskimálanefnd eru ætluð, eru tvennskonar: Annarsvegar að sjá um úthlutun útflutningsleyfa, að svo miklu leyti sem þau eru ekki bundin af atvmrh., um veitingarleyfi til sérleyfishafa, og í öðru lagi að standa fyrir þeirri nýbreytni í veiði-, verkunar- og verzlunarháttum, sem tiltækilegt þykir að reyna á hverjum tíma. — Nefndin hefir í þessu efni þegar leyst mikið starf af hendi og hefir mikið starf með höndum, sem hún er byrjuð á, en er mismunandi skammt eða langt á veg komið. Hún hefir haft með höndum úthlutun á útflutningsleyfum fyrir saltfisk allt frá því að Sölusambandið gamla ýtti þeim málum frá sér á síðastl. vetri og allt fram á þann tíma, að Sölusambandið var löggilt sem aðalútflytjandi á þessu ári. — Þá hefir nefndin ennfremur, eins og hv. þm. viðurkenndi í ræðu sinni, unnið mikið starf til undirbúnings því, að hægt væri að taka upp verkun á harðfiski jöfnum höndum við aðra fiskverkun. Hún hefir útvegað hjallaefni og látið byggja hjalla til að herða í fisk, og þær tilraunir, sem hafa verið gerðar með herðingu á fiski, hafa reynzt vel, en þær tilraunir voru samt miklu minni en menn bjuggust við, af því að afli brást og því hert miklu minna heldur en saltað, og í öðru lagi vegna þess, hve seint n. tók til starfa, var ekki hægt að fá efnið nógu snemma og þurft hefði til þess að byrja á þessari verkunaraðferð.

Nú hefir ennfremur verið bætt við hjallaefni, og þegar þeir eru komnir upp, verður hægt að taka í þá talsvert mikinn hluta af þeim fiski, sem þarf að herða. Þær tilraunir, sem gerðar voru í fyrra, gefa góðar vonir um það, að það megi fá jafngott og jafnvel betra verð fyrir harðfiskinn heldur en saltfisk, auk þess sem það léttir mikið á saltfiskmarkaðinum.

Þá er annað mál, sem fiskimálanefnd hefir haft með höndum, og það er hagnýting karfa, sem nokkuð var gert að á síðastl. ári og telja má víst, að mjög verulega verði unnið að á þessu ári.

Þá hefir fiskimálanefnd einnig látið rannsaka ýmsa aðra möguleika, eins og t. d. niðursuðu og ufsaherðingu og annað þessháttar. Þá hefir einnig verið byrjað á rækjuveiðum, með þeim árangri, að líkur eru til, að a. m. k. sumstaðar á landinu megi gera talsverða búbót úr því með því að stunda þessar veiðar, og vélar hafa verið fengnar til þess að sjóða þetta niður. Ég veit, að hv. sjálfstæðismenn brosa að kampalampanum; þeim finnst hann víst helzt til lítilfjörlegur að leggja sig niður við. En þeir um það. — Þá eru loks þær tilraunir, sem fiskimálanefnd hefir gert með útflutning á hraðfrystum fiski og meðferð hans hér heima fyrir. Þangað til þessar tilraunir voru komnar svo langt, að telja mátti sæmilegar líkur til þess, að markað, sem verulega munaði um, mætti fá fyrir þennan fisk, mátti segja, að n. væri að mestu leyti látin óáreitt. En undir eins og það var útilokað að skapa möguleika fyrir sölu, sem um munaði, var hafin hin harðasta árásahríð. Ég skal ekki að þessu sinni, nema sérstakt tilefni getist til, víkja að þeirri tilraunasendingu. sem send var með „Steady“, en aðeins slá því föstu, að ekkert hefir fram komið í því máli, sem gefi bendingu um það, að salan hefði tekizt betur, þó að S. Í. F. hefði haft hana með höndum, heldur en í höndum fiskimálanefndar og þess manns, sem hafði með söluna að gera. Ég hefi þvert á móti ástæðu til að ætla, að mun lakar hefði tekizt til, et fiskimálanefnd hefði ekki verið svo forsjál að senda mann til Ameríku til þess að greiði fyrir sölunni.

Að öllu þessu athuguðu verð ég að telja það hina mestu fásinnu, ef nú á þessum tímum, þegar vitað er, að óhjákvæmilegt er að leggja ríka áherzlu á að halda áfram með alla nýbreytni, sem þegar hefir verið hafin, á að hverfa að því að leggja þessa nefnd niður og leggja hennar starf undir S. Í. F., sem ekkert hefir lagt til þessara mála, og stendur því a. m. k. þeim mun lakar að vígi að hafa þessi mál með höndum, sem það skortir þá reynslu, sem fiskimálanefnd er þó búin að fá í þessum málum.

Ég þykist heyra það á hv. 6. þm. Reykv., að hann telji, að það sé mikill mannamunur á þeim, sem eru í stjórn S. Í. F., sem hann einhverra orsaka vegna hefir verið svo lánsamur eða ólánsamur að lenda í, og þeirra, sem eru í fiskimálanefnd. Þeir, sem eru í stjórn S. Í. F., séu valdir af framleiðendunum, en hinir séu allt annan veg og verr undir komnir, ef svo mætti að orði kveða. — Ég hygg, ef hv. þdm. vildu rifja upp fyrir sér, hvernig stjórn S. Í. F. og fiskimálanefnd er skipuð hvor um sig, að þeir muni sjá, hversu mikil fjarstæða þetta er. Í stjórn S. Í. F. eru þessir menn, með leyfi hæstv. forseta: Héðinn Valdimarsson, sem að vísu var kosinn fyrstur manna af fiskeigendum, sem mættu á stofnfundi S. Í. F., en það er rétt að játa það strax, að það var eftir ósk ríkisstj., að hann var þar settur í það sæti, sem hann er i, en andmæli komu þar engin fram, heldur virtist vera um almenna ánægju með hann að ræða. Sama er að segja um Jón Árnason, sem einnig var settur eftir ósk atvmrh. að það virtist vera eftir vilja allra, sem á fundinum voru. Ég ætla, að það hafi verið eftir tilmælum frá ýmsum mikilsráðandi mönnum í S. Í. F., að þeir fengu að hafa þessa menn svona til þess að „punta upp á“, og þeir höfðu nokkra ástæðu til þess að telja, að þess væri þörf. Í stjórn S. Í. F. eru ennfremur Magnús Sigurðsson bankastjóri Landsbankans, Helgi Guðmundsson bankastjóri Útvegsbankans, Jóhann Jósefsson útgerðarmaður, Ólafur Einarsson útgerðarmaður og loks Sigurður Kristjánsson, sem er helzti sérfræðingur sjálfstæðismanna hér í hv. d. í fisksölumálum.

Í fiskimálanefnd eru hinsvegar: Héðinn Valdimarsson, sá sami og er í stjórn S. Í. F. Hann er tilnefndur af ríkisstj. og er formaður nefndarinnar. Helgi Guðmundsson bankastjóri, sem einnig er í stjórn S. Í. F., Júlíus Guðmundsson, sem til þess starfs er nefndur af Landsbanka Íslands, Kristján Bergsson, sem tilnefndur er af Fiskifélagi Íslands, sem sérfræðingur sjálfstæðismanna í fisksölumálum gaf þá lýsingu á, sem þeir hv. dm., sem á hann hlustuðu áðan, muna sjálfsagt eftir. Þá er það Guðmundur Ásbjörnsson, sem er tilnefndur af togaraeigendum, Pálmi Loftsson, tilnefndur af S. Í. S., sem Jón Árnason er framkvæmdastjóri fyrir, og loks Jón Axel Pétursson, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands. Út af þeirri tilnefningu skal ég benda á, að í frv., sem formaður Sjálfstfl. flutti um fiskiráð, var einmitt gert ráð fyrir því, að Alþýðusamband Íslands tilnefndi einn mann í það ráð.

Ég skýt því til hv. þdm., hvort þeim sýnist sá mannamunur í þessum stofnunum, að önnur sé til einskis nýt og á allan hátt fordæmanleg, en hin beri svo af, að henni sé trúandi til alls góðs, svo góð, að hún geti bætt við sig störfum fiskimálanefndar. — Það má geta þess, ef mönnum skyldi virðast, að stjórn S. Í. F. væri betur skipuð, ef Jóhann Jósefsson gengi frá, og þá væri sjálfsagt að fá einhvern unnan þekktan og góðan útgerðarmann, en það vildi svo til, að varamaður Jóhanns Jósefssonar var kosinn Jón Kjartansson ritstjóri, sem hefir álíka þekkingu á þessum málum og hv. 6. þm. Reykv. Ég held þess vegna, án þess að ég vilji draga úr þekkingu og góðum vilja þeirra manna, sem skipa stjórn S. Í. F., að þeir, sem eru í fiskimálanefnd, séu sízt verri. Þar að auki held ég, að mjög óheppilegt væri að blanda þessum tveimur störfum saman. Ég held, að það sé nægilegt verkefni fyrir hendi hjá S. Í. F., eins og tímarnir nú eru, að sinna þeim málum, sem því eru ætluð; auk þess er enginn vafi á því, að mörg af störfum fiskimálanefndar er óheppilegt, að S. Í. F. hafi með höndum, vegna þess að það hefir erfiðari aðstöðu til að skapa fullkominn jöfnuð á útflutningi hjá meðlimum sínum um land allt. Það má til dæmis taka það, að ef freðfisksútflutningur yrði í verulega stórum stíl, yrði það vandaverk fyrir S. Í. F. að gera upp á milli sinna meðlima, svo að ekki rækist á, því að eins og kunnugt er, er útflutningur á freðfiski bundinn við ákveðna staði, þar sem tæki eru til þess að frysta fiskinn. — Þetta veit ég, að stjórn S. Í. F. er ljóst nú, meðan þessi mál eru á tilraunastigi. Það er því bein tilætlun laganna, að fiskimálanefnd hafi þessi störf með höndum.

Ég þóttist verða þess var í ræðu hv. 6. þm. Reykv., að það væri eitthvað illa séð í hans herbúðum sú samþykkt, sem gerð var á fiskiþinginu síðasta, þar sem einmitt var lýst ánægju yfir þeim framkvæmdum og nýmælum, sem fiskimálanefnd hafði hrundið fram og mér er kunnugt um, að hafa vakið almenna ánægju meðal fiskframleiðenda í landinu. Hv. þm. sagði í fyrsta lagi, að ekki væri mikið að marka atkvæðagreiðsluna, því að Alþýðusambandið hefði beitt kúgun. Það er ekki í fyrsta sinn, sem hv. þm. fer með slíkt, sem honum er einum sæmandi. Ég vil ekki svara þessu öðru en því, að það er vísbending frá þeim mönnum, sem fara með slíkt fleipur, að þeir eru reiðubúnir til þess sjálfir, hvenær sem færi gefst, að reyna að beita kúgun og láta kúga sig, ef svo ber undir. Að koma með svona fullyrðingar er ósæmilegt hverjum manni, og ástæðan er engin önnur en sú, að þeir hinir sömu mundu láta kúga sig og reyna að kúga aðra. ef þeir hefðu möguleika til þess. Þetta var því ekki nema lýsing á eigin hvötum, sem kom fram hjá hv. þm. — Það voru svo sem ekki réttsýnir og samvizkusamir menn, sem áttu sæti á fiskiþinginu eftir lýsingu hv. þm. Hann var svo sem ekki að færa rök að þessu, það var óþarfi, en það sýnir bara illgirni og samvizkuleysi hv. þm., enda er þetta ekki annað en málþóf, sem hv. þm. finnst veigur í að punta ræður sínar með. Hann er svo vanur því að punta ræður sínar með ósæmilegum orðum, að menn eru hættir að taka eftir því. Ég vil aðeins segja, að slíkar fullyrðingar eru alveg staðlausar og vansæmandi hverjum þm. að bera fram, þar sem ekki eru menn til svara.

Þá sagði hv. þm., að aukafundur í S. Í. F. hefði samþ. áskorun til þingsins um að leggja fiskimálanefnd niður og fela S. Í. F. hennar störf. Það var rétt, að þetta var samþ. á þessum fundi, en ég lýsti því þá yfir, að ég teldi engar líkur til þess, að Alþingi yrði við þeirri kröfu. En þessi samþykkt aukafundarins sýnir í raun og veru ekkert fullgilt um það, hver hugur útgerðarmanna er í þessu efni. Það er vitað, að þrátt fyrir þær takmarkanir, sem gerðar voru með lögum um fiskimálanefnd á síðasta þingi, þá hafa stórútgerðarmenn þar mest atkvæðamagn og fá flest atkvæðin fram. Hinu er ekki heldur að leyna, að mikill hluti stórútgerðarmanna er fylgjandi sjálfstæðismönnum, og þeir hafa talið, að hér værri líklegt herbragð á leiðinni að gera stj. pólitískar hrellingar með því að nota atkvæðamagn sitt til þess að fá samþ. till., sem gengi á móti stefnu stj., en ég vil fullyrða, að þetta sýnir ekki hug útgerðurmanna í landinu almennt, því að ef ég man rétt, þá var eitt atkv. á móti hverjum þremur hjá meiri hl., eða 180:51 eða 52.

Það er kannske ekki ástæða fyrir mig að taka fleira fram, því að mest af ræðu hv. þm. var órökstuddur sleggjudómur, en minna um efni frv. Ég vil endurtaka það, að ég tel það illa farið, ef sú forstaða, sem með lögum er ákveðin um nýbreytni og allar tilraunir, væri felld í burtu. eins og gert er ráð fyrir í frv.