29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Eftir þá hirtingu, sem hv. 6. þm. Reykv. hefir fengið hjá hæstv. atvmrh., verð ég að segja það, að ég verð að herða mig upp til þess að bæta þar nokkru við.

Hv. 6. þm. Reykv. hefir nú lýst fiskimálanefnd á þann hátt, sem honum er einuni lagið. Hann sagði m. a., að þetta væri verzlunarfyrirtæki, sem væri til þess haft að spilla fyrir sölumöguleikum á fiski og annað slíkt. Hæstv. atvmrh. hefir nú rakið starf fiskimálanefndar allýtarlega, og sé ég því enga ástæðu til þess að bæta neinu þar við. En ég vildi þó leyfa mér að skilgreina afstöðu sjálfstæðismanna til fiskimálanefndar nokkru nánar heldur en hæstv. atvmrh. hefir gert.

Mér virðist, að skipta megi sjálfstæðismönnum í tvo hópa í þessu máli. Öðrumegin eru sjálfstæðismenn, sem eru reiðubúnir til að vinna að alþjóðarheill eftir beztu getu, ef þeir eru skipuðir í starf, sem gefur þeim tilefni til þess. Hinumegin eru menn, sem ekkert sjá nema sína eigin hagsmuni í einu og öllu, og ekkert annað viðurkenna en það, sem er til pólitísks framdráttar fyrir Sjálfstfl., og reiðubúnir til þess að fórna alþjóðurheill í hvert skipti, sem það kemur í bága við hagsmuni þessara fáu manna, og fremstir í þessari klíku eru þeir Kveldúlfsbræður og leiguþý þeirra, hv. 6. þm. Reykv.

Ég skal þá reyna að finna orðum mínum stað, og vil ég því leyfa mér að taka tvo dóma um starf fiskimálanefndar þessu til sönnunar. — Annar dómurinn er hafður eftir hv. 6. landsk., að fiskimálanefnd væri stofnun, sem fyrst og fremst væri til ills og bölvunar og til þess höfð að spilla fyrir sölumöguleikum á fiski, — m. ö. o. spilla fyrir lífsafkomu manna. — Hinumegin eru menn, sem líta á starf fiskimálanefndar óhlutdrægt og eingöngu út frá þeim atriðum, sem í dagsins ljós eru komin, og þessir menn hafa kveðið upp dóm, sem er talsvert annar en sá dómur um fiskimálanefnd, sem hv. 6. þm. Reykv. leyfði sér að kveða upp hér í deildinni. Þessi dómur er kveðinn upp á fiskiþinginu í nál. um hagnýtingu sjávarafurða, frá sjútvn. fiskiþingsins, og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskiþingið lýsir ánægju sinni yfir þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið um nýbreytni á hagnýtingu og útflutningi sjávarafurða, svo, sem hraðfrystingu á fiski, herðingu á fiski, karfaveiðum og þess háttar. Telur fiskiþingið brýna nauðsyn að leggja svo, mikla áherzlu á tilraunir þessar sem unnt er og styðja að því, að þær geti komið sem fyrst að sem mestu gagni, m. a. með því að setja hraðfrystitæki í íshús, þar sem þau eru fyrir, jafnóðum og markaður fæst fyrir hraðfrystan fisk, og jafnframt sjá fyrir skipum með kælirúmi.“

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefst þetta nál. á því, að fiskiþingið lýsir ánægju sinni yfir þeim tilraunum, sem fiskimálanefnd hefir verið að gera undanfarið, yfir þeim sömu tilraunum, sem hv. þm. leyfir sér að bera fram, að séu gerðar til þess að spilla atvinnuvegum landsmanna. Hv. þm. Snæf. spurði, hver hefði samið þetta álit. Undir þetta álit skrifa 4 af fulltrúum fiskiþingsins, sem áttu sæti í sjávarútvegsn. þess, sá 5. var fjarverandi. Það er fróðlegt að lofa þessum hv. þm. að heyra, hverjir þessir menn eru. Þessir menn eru: Guðmundur Pétursson, form. nefndarinnar, alkunnur útgerðarmaður frá Akureyri, sem hefir lengi stundað útveg og var byrjaður á því löngu áður en Kveldúlfur leigði hv. 6. þm. Reykv., Ólafur B. Björnsson, ritari nefndarinnar, alkunnur útgerðarmaður af Akranesi. Og ef hv. þm. Borgf. væri hér, ætti að nægja að vísa til hans um meðmæli. 3. maðurinn er hv. 1. þm. Rang., sem því miður er ekki staddur hér af því að hann er veikur. 4. maðurinn er sá, sem hér talar. Þetta nál. var samþ. með shlj. atkv. á fiskiþinginu. Nú hefir hv. 6. þm. Reykv. leyft sér að fara mjög niðrandi orðum um fiskiþingið. Hann hefir m. a. leyft sér að viðhafa þau orð, að á fiskiþinginu hafi verið beitt kúgun við menn, og að þar séu menn, sem ekki skilja sitt hlutverk. Við skulum nú alveg láta mig liggja milli hluta, en taka einungis hv. 1. þm. Rang., og svo þá Guðmund Pétursson og Ólaf B. Björnsson. Allt eru þetta góðir og gildir sjálfstæðismenn; þeir eru af þeirri betri tegund sjálfstæðismanna, sem eru reiðubúnir að vilja vinna að heill allrar þjóðarinnar, þegar þess gefst færi. Þeir eru ekki af sömu tegund og Kveldúlfsliðið og leiguþý þess. Hv. 6. þm. Reykv. lýsti fiskiþinginu þannig, að þarna væru menn, sem ekki skildu sitt hlutverk, menn, sem ekki væru samvizkusamir. Það vill til, að hv. 1. þm. Rang. er fjarverandi úr d., svo hv. 6. þm. Reykv. þarf ekki að horfa upp á hann. (SK: Hann mundi hafa hirt hv. þm. Ísaf., ef hann væri hér). — En hverjir eru það svo, sem hafa kosið þessa ágætu nefnd? Jú, það er fyrst hv. 1. þm. Rang., Magnús Sigurðsson bankastjóri, Geir Sigurðsson skipstjóri, Þorsteinn Þorsteinsson skipstjóri, Þórshamri, Páll Halldórsson erindreki fiskifélagsins, Guðmundur Pétursson, Friðrik Steinsson, Niels Ingvarsson, Ól. B. Björnsson, Jón Jóhannsson, Björn Eggertsson og Finnur Jónsson.

Þetta eru menn, sem hv. 6. þm. Reykv. leyfir sér að segja um, að séu menn, sem ekki skilji sitt hlutverk, og menn, sem ekki séu samvizkusamir; ennfremur segir hann, að það þurfi að hreinsa til á fiskiþinginu. Því var skotið hér fram af hv. þm. Snæf., að þessi ályktun, sem ég var hér að lesa, hefði verið samþ. með eins atkv. mun. Þetta eru hreinustu ósannindi; þessi ályktun var samþ. með shlj. atkv. allra fundarmanna. (TT: Ég átti við aðaltill.). Þetta er aðaltill., sem samþ. var um störf fiskimálanefndar. Þetta er till., sem fordæmir allt athæfi Kveldúlfsliðsins og hv. 6. þm. Reykv. Hún sýnir betur en nokkuð unnað vilja fiskeigenda í þessu máli.

Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta frekar; hv. 6. þm. Reykv. er orðinn ber að því að kveða upp svo augljósa sleggjudóma, m. a. um einn bezta þm. sjálfstæðismanna, að það þarf ekki frekar vitnanna, við. — Ég sagði hér í minni frumræðu, að hlutverk S. Í. F. og lög þess væru miðuð við, að það væri stofnað til að selja saltfisk. Hv. 6. þm. Reykv. vildi fara um þessa skoðun mína mjög óvirðulegum orðum, en hann staðfestir þó það, sem ég sagði um þetta, þar sem hann sagði, að tilgangur félagsins væri að selja saltfisk. M. ö. o., hann sannar það, sem ég sagði, en afsannar það, sem hann sjálfur heldur fram. Munurinn er aðeins sá, að ég segi hlutverk, en hann segir tilgangur. Ég get ekki séð, hvaða mismunur er á þessu tvennu, því að hlutverk og tilgangur er nákvæmlega það sama. Í sambandi við þetta hafði hv. 6. þm. Reykv. málaflutning hér í d., sem enginn stendur honum framar í. Það eru fúkyrði og órökstuddir sleggjudómar. Ég þarf ekki að bera blak af fiskimálanefnd frekar en hæstv. atvmrh. hefir gert og sú till., sem ég las hér upp áðan og samin er af mönnum, sem hafa þúsundfalt vit á við hv. 6. þm. Reykv. En ég vildi þó aðeins segja það út af þeim ásökunum, sem komið hafa fram um það, að tap hafi orðið á tilraunum hennar, að það er tæplega ein einasta tilraun, jafnvel um mjög útgengilega vöru, sem ekki verður tap á fyrstu tilrauninni. Og þess eru ótal dæmi, að svo hafi verið. Við þurfum ekki að seilast lengra heldur en þegar h/f Kveldúlfur gerði tilraunir hvað eftir annað, eftir því sem framkvæmdarstjórarnir segja sjálfir frá, og alltaf varð stórtap á þeim. Þetta eru þó menn, sem þykjast fæddir til þess að vita allt um allan fisk, hvort sem hann er saltur, frosinn eða úldinn. Er það nokkur furða, þegar þessir menn geta ekki gert eina tilraun án þess að tapa á henni, þó að tap verði á tilraunum fiskimálanefndar?

Viðvíkjandi Póllandsferðinni er það að segja, að það var hv. þm. Vestm., sem ráðlagði þessa sölu; og mér er kunnugt um, að hann hafði sem bakhjarl mann, sem að vísu hafði fengið meðmæli hjá sendiráðinu í Varsjá, en sýndi sig að vera mjög óheppilegur ráðunautur í þessu efni. Það þarf ekki til, þó að tap verði á fyrstu tilrauninni, að óheppilegur ráðunautur sé valinn: það getur orðið þó að beztu menn vinni þar að að öllu leyti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vil biðja hv. dm. að athuga þessa 2 dóma, dóm hv. 1. þm. Rang., Guðmundar Péturssonar og Ólafs B. Björnssonar, og setja upp við hliðina á dómi hv. 6. þm. Reykv. og gera sér á þann hátt grein fyrir öllum atriðum málsins.