30.04.1936
Neðri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2249)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Thor Thors frh.:

Ég var kominn að því, er umr. var frestað í gær, að svara hv. þm. Ísaf., en áður en ég skilst við hæstv. atvmrh. vil ég geta þess út af sölunni á hinum hraðfrysta fiski til Norður-Ameríku, að umboðsmanni S. Í. F. tókst að selja allmikið af farminum til sama manns og keypt hafði fyrstu 50 smálestirnar frá S. Í. F., en eftirstöðvarnar varð hann að selja í samráði við sendimann fiskimálanefndar, Sigurð Jónasson, fyrir mjög lágt verð, og þar kom fram sá fjárhagslegi mismunur, sem ég vék að í gær.

Þá verð ég að víkja nokkrum orðum að hv. þm. Ísaf. Hann belgdi sig svo út og skrækti, að maður fékk næstum hellu fyrir eyrun, enda er ekki furða, þótt hann tali digurbarkalega, þar sem hann er form. meiri hl. sjútvn. Annað hefir hann ekki heldur til brunns að bera í þessum efnum. — Hann hélt því fram, að störf fiskimálan. og S. Í. F. væru svo fjarskyld, að ekki mætti leggja fiskimálan. niður, því að hún hefði alveg sérstöku hlutverki að sinna. Hv. þm. er þó sjálfur félagi í S. Í. F. og veit, að aðalhlutverk þess félagsskapar er fisksala með öllum hætti og öflun nýrra markaða, eins og staðreyndirnar sýna líka, að þessi félagsskapur hefir beitt sér fyrir. Hann taldi, að ekki væri nóg þekking og hæfileikar fyrir í S. Í. F. til þess að inna þetta hlutverk af hendi. Ég hefi nú þegar sýnt fram á það með samanburði á stjórn S. Í. F. og fiskimálan., hvor stofnunin muni fremur vera þessu hlutverki vaxin. Verzlun S. Í. F. er í höndum þriggja framkvæmdarstjóra, sem allir hafa langvinna reynslu í fiskverzlun og hafa geri hana að æfistarfi. Þá hefir S. Í. F. einnig mjög fært starfslið, en það er meira en ég get yfirleitt sagt um starfslið fiskimálanefndar. Þannig er skrifstofustjóri S. Í. F. svo viðurkenndur og vinsæll af öllum fiskframleiðendum, að fiskimálan. taldi sig ekki í fyrra geta setzt á laggirnar, nema hann réðist til hennar, þótt hann eigi nú að vera óhæfur sem starfsmaður S. Í. F. Hann gerði það fyrir þrábeiðni hv. form. fiskimálanefndar og hæstv. atvmrh. að ganga í þjónustu n. um tíma, þar sem n. þóttist alls ekki geta án hans verið.

Hv. þm. Ísaf. kom ennfremur með þá staðhæfingu, eins og ég hefi heyrt hann gera einu sinni á fundi áður, að S. Í. F. myndi klofna, ef það bætti á sig störfum fiskimálan., því að hér væri um áhættustarfsemi að ræða í sambandi við nýjar markaðsleitir, sem allir félagsmenn myndu ekki sætta sig við, að félagsskapurinn tæki á sig. En þetta er ekkert nema fjarstæða, því að auðvitað myndi S. Í. F. leita styrktar til slíkra markaðsleita úr fiskimálasjóði, sem myndaður er af eftirstöðvum af millj. kr. láni fiskimálan. og 3/4% af verði útflutts fiskjar. Ég verð að telja, að þessi sjóður sé bezt kominn hjá þeim, sem undir honum standa, en það eru fiskeigendur sjálfir. Það er nefnilega algerður misskilningur, að þessi sjóður sé einhver einkaeign fiskimálanefndar. Í lögum um sjóðinn segir svo: „Ríkisstj. er heimilt að veita stofnunum, einstaklingum og félögum lán eða styrk úr fiskimálasjóði til þess, er hér greinir:

1. Að stunda veiði með nýjum aðferðum, eða leita nýrra aflamiða.

2. Að verka fisk eða aðrar sjávarafurðir með nýjum aðferðum, svo sem herðingu, hraðfrystingu niðursuðu o. fl.

3. Að gera tilraunir með útflutning og sölu sjávarfurða á nýja markaðsstaði, svo og til að auka sölu þeirra á hinum eldri.

Ríkisstjórninni er heimilt, ef henta þykir, að fela fiskimálanefnd einni ýmsar framkvæmdir samkv. framanskráðu, eftir nánari fyrirmælum ráðherra í hvert sinn.“

Eftir beinum ákvæðum laganna er því beinlínis óheimilt að afhenda fiskimálanefnd sjóðinn í eitt skipti fyrir öll. Ráðh. getur samkv. lögum alveg eins veitt styrk úr sjóðnum til S. Í. F. eins og fiskimálan., og ég álít, að hann hafi miklu meiri ástæðu til þess, eftir reynsluna af fisksölunni til Ameríku.

Þá kom hv. þm. Ísaf. fram með það, eins og í eldhúsdagsumr., að það kæmi fram í skýrslu minni um ferð mína til Suður-Ameríku, að bréfum viðvíkjandi fyrirspurnum um fisksölu héðan hefði ekki verið svarað, og átti það að sanna, að forstjórar S. Í. F. væru óhæfir menn. Ég samdi, er ég kom úr för minni, allýtarlega skýrslu, sem var útbýtt sem einkamáli meðal stjórnenda S. Í. F. og send tveim ráðherranna. Ég lýsti yfir því, að hér væri um algert einkamál að ræða, enda þarf í slíkum skýrslum oft að gefa hispurslausa lýsingu á einstaklingum, sem enginn er bættari fyrir, að berist þeim sjálfum fyrir augu eða eyru. Ég skal ekki um það segja, hvernig hv. þm. Ísaf. hefir náð í skýrsluna, en víst er um það, að hann er ekki vel að henni kominn. Verzlunarmálin sjálf eiga að vera opinber, en það, sem snertir menn persónulega, á að vera einkamál, þótt slíkar upplýsingar geti að sjálfsögðu verið mikilvægar í viðskiptaefnum.

Ég gat þess í skýrslu minni, að bréfum frá þrem firmum hefði ekki verið svarað beint frá S. Í. F. En þeir fengu svör frá sínum fyrri viðskiptasamböndum, en ekki Sölusambandinu, eingöngu vegna þess, að þessir markaðir voru þá gersamlega lokaðir. Og það voru þeir fram á síðastl. ár. Hv. þm. segir algerlega rangt frá þessu. Hann hefir sagt í blaði sínu, að allir þeir sölustaðir, sem nú er til í Suður-Ameríku, hafi verið opnir allan þennan tíma. Þetta eru vísvitandi ósannindi.

Ég vík fyrst að Argentínu. Þar er ástandið þannig, að engir fá þar erlendan gjaldeyri til greiðslu fyrir innfluttar vörur sínar aðrir en þeir, sem hafa jafnaðarkaup. Íslendingar hafa engar vörur keypt þaðan fyrr en nú, að því hefir verið komið til leiðar fyrir tilstilli S. Í. F., að gjaldeyrisnefnd hefir leyft, að keypt væru þar 100 tonn af maís. En þetta er ekki nóg. Og ef gjaldeyrisn. stuðlar ekki að áframhaldandi og auknum innflutningi á vörum þaðan, þá er þessi markaður, sem unnizt hefir í bili, tapaður aftur. Þessi gjaldeyrisleyfi, sem nú hafa fengizt fyrir íslenzkan fisk til Argentínu, hafa fengizt fyrir sérstaka lagni sendiherra Dana í Buenos Aires, án þess að beint loforð væri gefið um vörukaup af okkar hendi. En verð fisksins í Argentínu er ekki svo hátt, að það sé sambærilegt við það, sem var á Spáni og Suðurlöndum meðan markaðurinn var eðlilegur þar. Ég verð því að spyrja hv. þm.: Hvaða nauðsyn getur knúð okkur til þess að selja saltfiskinn á lægri markað, á meðan sá markaður er opinn, sem gefur hærra verð? Ég sé enga nauðsyn á því. Eins og viðskiptum er nú háttað í heiminum, að alstaðar eru settar innflutningstakmarkanir og kröfur um jafnaðarkaup, geta áður fengin viðskiptasambönd ekki tryggt framhald viðskiptanna, vegna þessara atriða og afskipta þess opinbera, sem sífellt grípa inn í.

Þá sný ég mér að Brasilíu. Þar sagði hv. þm., að sölumöguleikar fyrir íslenzkan saltfisk hefðu verið fyrir hendi í mörg ár, og a. m. k. síðan S. Í. F. tók til starfa. En þetta ætti hv. þm. að vita betur, ef hann er læs á skrifað mál. Það er tekið fram í skýrslu minni, að yfirfærslur hafa ekki fengizt frá Brasilíu, og að þær þjóðir, sem hafa skipt við Brasilíu, hafa lent í því óláni að eiga þar margar millj. króna innifrosnar, sem nú er verið að reyna að þíða; ekki á sama hátt og hér á sér stað, með ríkisábyrgð á innstæðum erlendra manna, heldur með því að kaupa vörur þaðan, og sá sérstaklega kaffi. Heldur hv. þm., að Íslendingar hafi þá haft miklar ástæður til að festa þannig fé sitt ? Ég veit honum dettur það ekki í hug. Og hvaða þýðingu hafði það, þegar markaðir voru opnir annarsstaðar? Til sönnunar því, að hv. þm. hafi vitað betur um þetta atriði, en farið samt rangt með, vil ég leyfa mér að lesa hér upp úr skýrslu minni á bls. 30, með leyfi hæstv. forseta:

„Gengishömlur voru í Brasilíu alveg fram á þetta ár. Fékkst eigi greiðsla á stórupphæðum fyrir vörur frá öllum viðskiptalöndum Brasilíu. Áttu þau orðið margar millj. sterlingspunda innifrosnar (congelados) þar. Þetta varð til þess, að ýms stórveldin tóku þetta mál alvarlega upp við stjórnarvöldin í Brasilíu, og afleiðingin varð sú, að 11. febr. síðastl. var gjaldeyrir gefinn frjáls til greiðslu á öllum innfluttum vörum.“

Það er því ekki fyrr en 11. febr. 1935, sem aftur er hægt að selja vörur til Brasilíu, með von um að fá þær borgaðar. Og á meðan svo var staðhæfi ég, að Íslendingar höfðu ekki ástæðu til og gátu ekki vegna gjaldeyrishafta selt vörur sínar þangað, því þeir gátu ekki átt von á að fá þær greiddar. Og það er fyrst nú í ár, að unnt var að hefja viðskipti við Brasilíu. En nú má það líka teljast nauðsynlegt, eftir að búið er af hálfu íslenzkra stjórnarvalda að fara svo með þessi mál, að saltfisksmarkaðurinn á Spáni hefir verið skorinn niður í 6600 tonn á ári. Ég hefi nú sýnt fram á það, hversu haldgóður þessi rógur stjórnarliða er um forstjóra Sölusambandsins, eins og reyndar allt það moldveður, sem þeir þyrla upp til að tortryggja starfsemi þeirra og blása ófriði að Sölusambandinu. — Svo kemur hv. þm. Ísaf. hér með miklum belgingi og segir: Við viljum hafa frið um Sölusambandið. — Skárri er það nú friðurinn. Hverjir eru það, sem búa til slúðursögur um Sölusambandið og gefa út blöð, sem aldrei koma út öðruvísi en að þau séu full af gróusögum og níði um Sölusambandið? Ég hygg, að frv. þm. eigi þátt í blaðsnepli, sem gefinn er út á Ísafirði. Ég sé hann sjaldan, en aldrei svo, að ekki sjáist þar rógur um Sölusambandið. — Það er öllum vitanlegt, að þessi hv. þm. hefir bæði leynt og ljóst, en þó einkum leynt, reynt á allan hátt að rógbera og svívirða Sölusambandið. Og svo talar þessi hv. þm. um, að hann vilji hafa frið um Sölusambandið!

Ég játa, að ég trúði því í minni einfeldni, að þegar hinir sterku menn úr stjórnarflokkunum, Héðinn Valdimarsson og Jón Árnason, voru skipaðir í stjórn Sölusambandsins, þá væri það yfirlýsing þess, að um þessi mál ætti þar að vera eitt vígi, og fast varið af öllum flokkum. En ég hefi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Því að aldrei hefir verið róstusamara um S. Í. F. en síðan þessir menn komu þar í stjórnina. Og sjá þó allir þeir, sem af þjóðhollustu vilja á þessi mál líta, nauðsynina á því, að á þessu sviði atvinnulífsins geti flokkarnir staðið saman, þó að þá bresti gæfu til þess annarsstaðar.

Þá sagði hv. þm. Ísaf. það í ræðu sinni hér í gær og belgdi sig mjög, að viss hluti Sjálfstfl. væri ávallt reiðubúinu til þess að fórna alþjóðarheill fyrir sérhagsmuni sína, og kallaði hann þennan hluta flokksins Kveldúlfsmenn. Ég sé ekki ástæðu til að ræða um þetta við þennan hv. þm., því að það tekur enginn mark á því, sem þessi hv. þm. segir. En ég vil aðeins benda á það> að þrátt fyrir allan róg um Kveldúlfsfélagið, hefir það í mörg ár staðið undir athafnalífinu hér í Reykjavík og fært í þjóðarbúið tugi millj. króna, og félagið hefir aukið rekstur sinn meðan fært var, á sama tímabili og þessi hv. þm. sat við að glugga í bréf vestur á Ísafirði, — eða kraup við fótskör meistara síns þar, núv. landlæknis. En eftir að þessi hv. þm. komst til meiri mannvirðinga, hefir stöðugt miðað niður á við í atvinnulífi þjóðarinnar. Ég veit, að sósíalistum er þetta ekkert hryggðarefni, því að þeir vilja stefna niður á við og leggja einstaklingsfyrirtækin í rústir. En ég geri ráð fyrir, að sú útfararræða, sem þeir ætla sér að flytja á rústum einkaframtaksins, verði hættuleg ræða fyrir þá sjálfa.

Hv. þm. vildi sanna mál sitt um starfshætti fisksölusamlagsins með því að lesa upp tvo dóma. Annar þeirra voru ummæli hv. 6. þm. Reykv., sem ekkert minntist á þetta, og hitt var nefndarálit frá nokkrum mönnum á fiskiþinginu. Þetta nál., sem samþ. var á fiskiþinginu. var samið af Guðmundi Péturssyni útvegsmanni á Akureyri, góðum og merkum sjálfstæðismanni, Jóni Ólafssyni, sem engan mun undra, þó talinn sé góður sjálfstæðismaður, og Ólafi B. Björnssyni útgerðarmanni á Akranesi, sem líka er ágætur maður. — En hvað segja svo þessir ágætu sjálfstæðismenn? Hvað segir þetta nefndarálit? Þar segir svo:

„Fiskiþingið lýsir ánægju sinni yfir þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið um nýbreytni á hagnýtingu og útflutningi sjávarafurða, svo sem útflutningi á hraðfrystum og flökuðum fiski, harðfiski, karfaveiðum, karfavinnslu, o. þ. h. Telur fiskiþingið brýna nauðsyn bera til að leggja svo mikla áherzlu á tilraunir þessar sem unnt er, að styðja að því, að þær geti komið sem fyrst að sem mestu gagni, m. a. með því að setja hraðfrystitæki í íshús þau, sem fyrir eru, jafnótt og hagkvæmur markaður vinnst fyrir hraðfrystan fisk, og að sjá fyrir nægum skipakosti með frystivélum eða kælirúmum til að annast útflutning.“

Hvað er það þá, sem þessir ágætu sjálfstæðismenn segja í nál.? Ekkert annað en það, sem verið hefir stefnuskrármál Sjálfstfl. á undanförnum árum. Ég skal nú sanna hv. þdm. þetta. — Hv. þm. Ísaf. skilur náttúrlega ekki annað en það, sem hann sjálfur vill. — Þetta atriði er tekið upp á stefnuskrá Sjálfstfl. á árinu 1930. Og 1931 er það eitt af aðalatriðunum í ræðum frambjóðanda flokksins við alþingiskosningarnar. Á landsfundum Sjálfstfl. 1933 og 1934 var þetta tekið til meðferðar. og þá lýsti núv. form. flokksins, hv. þm. G.-K., í framsöguræðu sinni um atvinnuvegi landsmanna því á þessa leið:

„Höfuðnauðsyn sjávarútvegsins er að koma afurðunum í sem allra hæst verð. Það verkefni er tvíþætt. Í fyrsta lagi viðhald og stækkun saltfisksmarkaðar. Í öðru lagi breyting á meðferð framleiðsluvörunnar og sala þeirrar nýju vöru. Íslendingar hafa til þessa sótt á og unnið í samkeppninni um saltfiskssölu á erlendum markaði. Hafa einstakir útflytjendur unnið þar mikið verk og þarflegt, en þó hefir sú sókn nær eingöngu verið hafin í Suðurlöndum, þetta er ekki nægjanlegt. Það þarf að færa sóknina yfir á aðra saltfisksmarkaði, eins og t. d. Suður-Ameríku, Kúba, Afríku, Norður-Ameríku og jafnvel víðar. — Og þetta er ekki heldur nægjanlegt. Það er engin vissa fyrir því, að þær þjóðir, sem til þessa hafa lítils eða einskis saltfiskjar nýtt, muni um allan aldur reynast ólystugar á þessa fæðu. Mörg risafyrirtæki heimsins hafa byrjað smátt, en síðan rutt framleiðsluvöru sinni nýja farvegi, komið af stað og aukið neyzlu hennar þar, sem hún áður var ókunn. Margar þessar vörur hafa að sjálfsögðu hitt á ófullnægða neyzluþörf þorrans betur en ætla má um saltfisk, en um það vissu menn ekki fyrirfram, og sigurinn hefði ekki unnizt, ef vitsmunir, dugnaður og áræði hefðu ekki freistað hamingjunnar.“

Ég læt þessa getið af því að hér var um aðalstarf og stefnuskrármál Sjálfstfl. að ræða. Og það hefði verið tekið upp, ef þjóðin hefði þá borið gæfu til að fela Sjálfstfl. að fara með völdin í landinu. — Ennfremur segir svo í ræðu hv. form. Sjálfstfl.:

„Það leikur enginn vafi á því, að hinar nýju frystiaðferðir geta brúað fjarlægðina milli ríkustu fiskimiða heimsins, við strendur Íslands, og þeirra mörgu milljónatuga neytenda, sem til þessa varla hafa getað leyft sér það óhóf að borða nýjan fisk einu sinni á ári. Sporin eiga að liggja í þá átt, því þar hefir hamingja Íslands geymt börnum þess skilyrði til arðvænlegs atvinnurekstrar og góðrar fjárhagslegrar afkomu.“

Þetta var þá stefna sjálfstæðismanna í útvegsmálum, að taka upp þessa nýbreytni. Og það er því ekkert undrunarefni, heldur bein afleiðing af stefnu flokksins, að þessir ágætu sjálfstæðismenn tóku þetta upp í álit sitt á fiskiþinginu, því að það er nákvæmlega í samræmi við stefnu flokksins í heild. Hv. þm. Ísaf. hefir því seilzt of langt, því að þetta nýmæli er komið frá þeim mönnum, sem andi hans nærist á að rægja — Kveldúlfsmönnum — og hefir fyrst komið frá þeim inn á þingið. — Stjórnarliðið getur ekki komizt framhjá því, þrátt fyrir strákslegar athugasemdir og róg þessa hv. þm., að þessar nýjungar komu fyrst fram í frv. um fiskiráð, sem flutt var á Alþingi af núv. form. Sjálfstfl. Þangað sækja rauðliðar hugmyndina og alla speki sína í þessu efni, hversu háðuleg orð og rakalaus sem þeir velja þessum Kveldúlfsmönnum. — Um leið og ég undirstrika öll þau virðulegu orð, sem hv. þm. Ísaf. hafði um Guðmund Pétursson, Jón Ólafsson og Ólaf B. Björnsson og aðra góða sjálfstæðismenn á fiskiþinginu, þá vil ég minna á, að þeir gerðu meira. — Þeir báru fram till. á fiskiþinginu, og skal ég aðeins lesa síðari hluta hennar, en hún er svo hljóðandi:

„Jafnframt telur fiskiþingið, að heppilegra sé að fela þessi mál aðeins einni stjórn, og telur þá sjálfsagt, að hún sé skipuð meiri hluta fiskeigenda, enda sé henni séð fyrir nægilegu fé til markaðsleita og annara framkvæmda fiskimálunum til hagsbóta.“ (JJós: Er þetta líka frá fiskiþinginu?) Já, þetta er frá fiskiþinginu. Þarna koma þessir ágætu menn, sem hafa miklu meira vit á þessum málum en hv. þm. Ísaf., — menn, sem hann þolir engan samanburð við, frekar en hundaþúfan þolir samanburð við fjallið — og halda fram hinu sama og Kveldúlfsmennirnir.

Vill nú hv. þm. Ísaf. éta ofan í sig aftur öll lofsyrðin, sem hann hafði um þessa ágætu sjálfstæðismenn? Álítur hann ennþá, að lofsyrðin séu réttmæt — eða eru þeir nú orðnir aðeins auðvirðilegir Kveldúlfsþjónar? — Ég þarf ekki að svara meira þessu fleipri hv. þm. Ísaf. um það, að meiri hl. þeirra sjálfstæðismanna, sem taka þátt í útvegsmálum, séu reiðubúnir til að fórna alþjóðarheill vegna eiginhagsmuna. Ég hygg, að hann hafi ekki þekkingu á, hvað alþjóðarheill er; ég held, að hann hafi aðeins nasasjón af einni heill — heill síns eigin maga. Það er þess vegna engin ástæða til að reiðast út af þessum ummælum hv. þm. — því að „ómerk eru ómagaorðin.“ Útvegsmenn hafa á tveimur áratugum stuðlað að því með framsækni sinni, að framleiðsla þjóðarinnar hefir aukizt, og að þjóðin, allt til þess að rauðliðar tóku við völdum, hefir verið að færast nær og nær því að geta lifað sæmilegu menningarlífi. Þessi stefna hélzt, unz það ólán henti þjóðina, að fjandmenn einkaframtaksins náðu hér völdum. En þá kom sá afturkippur í atvinnulíf þjóðarinnar, sem engir brosa að aðrir en hv. þm. N.-Þ. (GG: Ég var ekki að brosa að því). Árið 1915 var saltfiskframleiðsla landsmanna um 24600 smálestir. Árið 1920 um 31100 smálestir, en árið 1930 um 70600 smálestir. Framleiðslan hefir þannig á 15 árum nær því þrefaldazt fyrir ótrauða framsókn þeirra manna, sem höfðu yfirstjórn útvegsmálanna með höndum. (HV: En hvernig hefir það gengið síðan?). Árið 1936 er hv. 2. þm. Reykv. við völd. (HV: Ekki í S. Í. F.). M. a. þar líka, og þá er allt komið í óefni.

Þrátt fyrir þessa aukningu framleiðslunnar á undanförnum árum hafði þessum ofsóttu mönnum tekizt að koma allri vörunni í verð og tekizt að ná þeim bezta markaði, sem fáanlegur var, og þessu náðu þeir með vörvöndun og verzlunarþekkingu. — Nú hafa þessir markaðsmöguleikar að mestu lokazt, að sumu leyti fyrir óviðráðanlega rás viðburðanna, en að sumu leyti fyrir handvönun núv. stjórnarvalda.

Ég hefi nú reynt að sýna fram á, hversu haldgóðar staðhæfingar og árásir stjórnarliða eru, og vil nú að lokum aðeins víkja að því, hvað það er, sem um er deilt. — Það er deilt um, hvort vígið eigi að vera eitt, eða hvort þau eigi að vera tvö. Hvort það eigi að vera eitt vígi, sem mætir öllum utanaðkomandi árásum, þar sem allir stæðu samhuga um að beita öllu afli sínu og áhrifum gegn utanaðkomandi árásum, eða hvort vígin eigi að vera tvö og stöðugur hernaður innbyrðis á milli þeirra. — Það munu allir sjá við rólega athugun, hvort heppilegra er að snúa bökum saman í sameiginlegri vörn og sókn, eða að stöðugar deilur og skotgrafahernaður eigi sér stað á milli þeirra aðilja, sem með þessi mál fara. — Þá má og nefna þann sparnað, sem af því mundi hljótast, að þessi mál væru undir einni stjórn, en fyrir mér er sparnaðurinn ekki aðalatriðið, heldur hitt, að af samhug sé unnið að framkvæmd þessara mála. En ég staðhæfi, að aldrei verður friður um þessi mál á meðan fyrirtækin eru tvö, annarsvegar fiskimálanefnd, sem er óskabarn stjórnarvaldanna og dekra þarf við og hefja til skýjanna á allan hátt, og hinsvegar Sölusambandið, sem að áliti stjórnarvaldanna er úrhrak, sem leggja ber niður eða þarf a. m. k. að vera skotspónn stjórnarliðsins og stjórnarvaldanna. hvenær sem þeim er gramt í geði. Á meðan svo er verður ekki friður um þessi mál, því ég er vondaufur um það, að hægt verði að semja vopnahlé. Það verður ekki að minni hyggju gert á meðan jafnherskár maður er í broddi fylkingar annarsvegar eins og hv. 2. þm. Reykv.

En að lokum vil ég segja það, að það hefir skýrt og afdráttarlaust komið í ljós, hver er vilji fiskeigenda í þessum efnum. Það kom fram á aukafundi Sölusambandsins, þar sem fiskeigendur eða umboðsmenn þeirra víðsvegar að af landinu fyrir svo að segja alla framleiðslu landsmanna vorn samankomnir, og þeir samþ. með 183 atkv. gegn 43, að þeir vildu eina stjórn í þessum málum, og aðeins eina. Ef það er vilji Alþ. að taka nokkurt mark á óskum þjóðarinnar. þá er það skylda þess að taka tillit til þess, sem jafnfjölmennur hópur atvinnurekenda segir í slíku máli sem þessu. Sé það hinsvegar stefna stjórnarflokkanna að svipta framleiðendur á þessu sviði sem öðrum yfirráðum sinna mála, þá auðvitað viðhalda þeir fiskimálanefnd og halda áfram hernaðinum gegn Sölusambandinu. En sá skollaleikur verður ekki aðeins þeim hættulegur, heldur og þjóðinni í heild. En fari þeir sínu fram, þá þeir um það, en ég vil aðeins benda á, að eigi veldur sé, sem varar.