30.04.1936
Neðri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (2250)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. Snæf. mun nú hafa verið orðið mál á að tala. Eins og kunnugt er, þá hefir þetta mál í raun og veru verið til umr. áður, þ. e. a. s. við eldhúsumr., en þá fékk hv. þm. ekki að tala, heldur var hv. 6. þm. Reykv. aðallega látinn tala af hálfu flokksins. En nú hefir hv. þm. Snæf. fengið tækifæri til þess að koma þessum straum út, svo að ég vona, að það hafi létt nokkuð á honum. Aftur á móti höfum við margir aðrir þm. tekið þátt í þessum umr. áður, svo að ekki er ástæða til að fara út í hvert einasta atriði, sem drepið hefir verið á af þessum tveimur hv. þm. En ég mun gera nokkrar almennar aths. og minnast á einstök atriði, sem minna hefir verið talað um í eldhúsumr.

Það er nú svo, að sínum augum lítur hver á silfrið, en það er áreiðanlegt, að það er ekki meiri hl. manna hér á landi, sem lítur þannig á eins og hv. þm. Snæf., að útgerðarmennirnir, aflaklærnar og ráðkænskumennirnir, hafi verið einhverjir mestu menn landsins og að á þeim hafi staðið hagur þessa lands, sem hann vildi sýna með því, hvernig saltfisksframleiðslan hefði aukizt fram til ársins 1930. En hvernig gengið hefði til eftir þann tíma, minntist hann ekkert á. og er það þó okkur nær, hvernig vegnað hefir hin síðustu ár.

Nú er það að athuga, hvaða menn það eru, sem hv. þm. Snæf. vill telja máttarstoðir þjóðfélagsins og sem þjóðin lifi á. Það er ekki fjölmenn stétt. Það eru fiskeigendurnir, sem eiga að vera kjarninn í þjóðinni og halda uppi sjávarútveginum. — Á fundi í Sölusambandinu kom það fram við atkvgr., hverjir það eru í raun og veru, sem ráð, yfir mestu af fiskinum, og skal ég lesa upp nokkrar atkvæðatölur til þess að sýna þetta. Af 284 atkv. í Sölusambandinu hafa framkvstj. Kveldúlfs 27 atkv., Alliance 14½, Jóhann Þ. Jósefsson umboðsmaður Sölusambandsins í Vestmannaeyjum 22½, Pétur Ottesen fyrir Harald Böðvarsson á Akranesi 7¼, Jón A. Jónsson umboðsmaður Sölusambandsins á Ísafirði 19, Ólafur Briem framkvstj. hjá S. Í. F. 8½, Ólafur Einarsson fyrir Einar Þorgilsson í Hafnarfirði 7, Loftur Loftsson 2, Bræðurnir Proppé umboðsmenn Sölusambandsins 4, Ágúst Ármann umboðsmaður Sölusambandsins 7½, Árni frá Múla umboðsmaður Sölusambandsins 43/4, Geir Thorsteinsson 23/4, 8 aðrir togaraeigendur 223/4. Eins og menn sjá af þessu, þá eru það aðeins örfáir menn, sem fara með meiri hl. atkv., eða 152 atkv., og af þeim hafa framkvstj. og starfsmenn S. Í. F. og Kveldúlfs farið með 1073/4 atkv. Nú er hægt að segja, að sumt af þessum fiski, sem S. Í. F. hefir yfir að ráða, sé ekki eign þessara manna og að mikill hluti starfsmanna S. Í. F. fari með umboð annara. En þá er hægt að sanna, hvernig fiskeigendum er hnappað saman í stóra hnappa, sem ráða yfir meiri hl. fisksins, og þar sem þeir ráða, þá tekst með aðstoð S. Í. F. að koma fyrir útibúum og umboðsmönnum til þess að smala að sér atkv. smáútvegsmannanna. En í þessum hring eru örfáir menn og svo aðallega framkv.stjórar Kveldúlfs, sem vilja einir öllu ráða og eru svo bíræfnir að fara fram á það við Alþ. að leggja ekki aðeins saltfiskssöluna undir þá, heldur allan útflutning sjávarafurða. En hvernig hafa þessir menn, framkvstj. Kveldúlfs, náð í yfirráðin yfir fiskmagninu? Hafa þeir unnið sig upp sem fátækir menn? Nei, þeir hafa erft og þar með fengið aðstöðu til þess að ná yfirráðum yfir fiskmagninu, og bankarnir hafa stutt þá til þess að verða þessir stóru fiskeigendur, sem þeir eru nú að monta sig af. Það er því ekki af verðleikum, sem þeir eru komnir í þessa aðstöðu, sem þeir nú hafa, enda hafa afleiðingarnar af ráðsmennsku þeirra þegar sýnt sig. Ég vil að vísu ekki kenna þeim að öllu leyti um það, hvernig farið hefir. En þessir menn, sem þó höfðu haft fjármagn úr bönkunum, höfðu tiltölulega mjög lítið gert til þess að hafa tilbreytingu í verkun sjávarafurða, fyrr en aðrir, sem hugsuðu lengra, kvörtuðu yfir þessu og ráku á eftir því, að hafizt yrði handa í þessum efnum. Og þá komu þessir sömu menn og sögðu: Látið okkur gera þetta við höfum betri aðstöðu og hæfileika til þess. — Ég held, að hv. þm. Snæf. hefði átt að halda áfram með skýrslu sína og líta yfir ástandið eins og það er nú með lítinn fisk og lítinn markað og hrun framundan. Það verður ekki séð, hvað þessar máttarstoðir þjóðfélagsins duga nú. Ef réttlæti væri um þessi mál, þá væri þeim öðru, vísi fyrir komið. Þá væri Sölusambandið ekki á þann hátt sem það er nú, þar sem örfáir menn ráða, sem hafa fengið lán úr bönkunum og notað þá sérstöðu sína fyrst sem einstakir útflytjendur og síðan til þess að komast inn í Sölusambandið. Þá væri líka tekið tillit til þeirra fjölmörgu manna, sem við fiskinn vinna og bera hita og þunga dagsins, því satt að segja er þeirra afkoma ekki minna komin undir stjórn þessara mála heldur en hinna fáu manna, sem þar ráða öllu. Og hvers vegna eiga þá örfáir menn, sem bankarnir hafa af tilviljun lánað mikið fé og skulda mikið, að vera einráðir um þessa hluti? En það verður — þó síðar verði — breytt tilhögun á Sölusambandinu, þannig að tekið verði tillit til þjóðarinnar í heild, en ekki aðeins örfárra manna.

Ég ætla ekki að fara langt út í það, hvernig ástandið var áður en Sölusambandið kom, en ég vil aðeins geta þess, að þegar Sölusambandið var endurreist síðastl. vor, þá endaði Sölusambandið þar á undan ekki glæsilegar en svo, að það hafði mjög verulegan halla, sem varð að greiðast úr markaðs- og verðjöfnunarsjóði, til þess að það gæti staðið í skilum við fiskeigendur. Það er því hver silkihúfan upp af annari. — Ég verð að segja það, að þegar ég var skipaður í stjórn Sölusambandsins, þá gekk ég ekki inn í hana á þann hátt, að ég áliti, að þar væri eitthvert skipulag, sem búið væri að setja fyrir fullt og allt. Og ég leit svo á, að það væri a. m. k. nokkrar línur, sem hægt væri að taka nokkurnveginn jafnt, hverrar skoðunar sem maður væri í stjórnmálum, enda var það hvorki ég né sá, sem skipaður var af S. Í. S., sem byrjaði á pólitískum deilum innan Sölusambandsins. Hitt er rétt, að við komum hvað eftir annað með till. sem framkv.stjórunum líkuðu mjög miður, en þær voru aðallega þess efnis að hefjast handa um ýmiskonar útbreiðslustarfsemi. En þær pólitísku till., sem fóru að skjóta upp kollinum, voru allar frá hv. 6. þm. Reykv., sem skömmu eftir að hann kom þangað fór að koma með hverja till. á fætur annari í þeim tilgangi einum að nota Sölusambandið á einhvern hátt á móti þeirri ríkisstj., sem nú er í landinu.

Sú breyting, sem gerð var á skipun Sölusambandsins á síðari tímum, var auðvitað gerð á móti vilja Sjálfstfl. að ýmsu leyti, og hún var á þann hátt í stuttu máli, að Sölusambandið hefði saltfiskssöluna allt að 88%, en annað ekki, enda voru lög Sölusambandsins á þann hátt, að þau gerðu ekki ráð fyrir öðru, og til annars var það ekki löggilt. Fiskimálanefnd var aftur stofnuð til þess að taka þá hluti, sem þeir menn, sem hafa haft með þessi mál að gera, hafa ekki skipt sér af, eða a. m. k. mjög lítið, og þá í einstökum tilfellum alveg misheppnazt, enda var það ekki eðlilegt, þar sem þeir hafa litið svo á, eins og hv. þm. G.-K. eða staðgengill hans, hv. 6. þm. Reykv., sem sífellt er að tönnlast á því, að það sé stórkostleg afturför að fara í harðfiskverkun og að það eigi umfram allt að halda sig við saltfiskinn, því að harðfiskurinn seljist fyrir miklu lægra verð. Hv. þm. hefir líka talað um það, að menn þekktu nú svo sem harðfisk hér á landi, því að hann hefði verið hér frá alda öðli. Líklega hefir þessum hv. þm. ekki verið það ljóst, að hér er um nokkuð aðra harðfiskverkun að ræða. sem gerð er eftir norskum hætti. Ég efast um, að hv. 6. þm. Reykv. með allri sinni þekkingu hafi nokkurn tíma smakkað harðfisk matreiddan á þann hátt, sem hann er seldur til útflutnings. Hann er ekki verri vara að margra dómi heldur en saltfiskurinn, og ýmsum þykir hann betri, enda hefir verðlagið á harðfiskinum nú að undanförnu verið talsvert hærra en á saltfiskinum. Með þeim tækjum, sem fiskimálanefnd hefir komið fyrir í landinu, er hægt að herða 2 þús. tonn, og samkv. rannsóknum er enginn vafi á að hægt er að selja þetta. Og það er hægt að halda svona áfram. Maður veit, að í ýmsum löndum eru mjög stórir markaðir fyrir harðfisk, og það er enginn vafi á því, að við getum unnið þá. Hv. formaður Sjálfstfl. hefir unnið það verk, bæði á þingi, í útvarpsumr. og í blöðum, að reyna að telja menn úti um land frá því að reyna þessa aðferð, með því að segja, að þetta sé neyðarúrræði og verðið sé miklu lægra. Og ég ber þá sök á hann, að hann hafi skaðað landið mjög mikið með þessum sínum ræðum og skrifum, eingöngu að ég hygg vegna sinnar fáfræði í þessum efnum.

Nú er það svo, að þeir, sem tala fyrir Sölusambandið hér í þessari d., fara fram á það, að það haldi ekki aðeins saltfiskssölunni, heldur bæti líka við sig allri þeirri starfsemi, sem fiskimálanefnd hefir með höndum. En í því sambandi má geta þess, að nýlega fékk Sölusambandið verk, sem það hafði ekki síðastl. ár, þ. e. a. s. það fékk rétt til þess að flytja út 88% af blautfiski, en það hefir ekki hreyft sig ennþá til þess að gera eitt einasta handtak í þeim efnum, og ég býst ekki við, að það geri það. Ég skil því ekki, hvers vegna það ætti að fara að hlaða meiri störfum ofan á Sölusambandið á meðan svo og svo mikið af verkefnum liggja þar fyrir óhreyfð.

Hv. þm. Snæf. gat um, að það væri tap á starfsemi fiskimálanefndar. Það var aldrei búizt við því, að af starfi hennar mundi koma gróði í fiskimálasjóð, heldur aukin atvinna og hagnaður fyrir aðra en fiskimálanefnd, þar sem hún mundi brjóta veginn og síðan aðrir koma á eftir. En ef maður lítur á þá einu tilraun, sem framkv.stj. Kveldúlfs gerðu fyrir mörgum árum með frystan fisk, sem hafði í för með sér 500 þús. kr. tap, þá er ekki hægt að segja, að tap fiskimálanefndar sé mikið.

Þá tók hv. þm. Snæf. upp nokkra liði og gat um það, hvað á þeim hefði tapazt. — Um Póllandsfiskinn hefi ég þegar talað, svo að ég þarf ekki að fara nánar út í það. — Hv. þm. gat um ferðakostnað og kaup Eiríks Sigurbergssonar og sagði, að sér væri ekki kunnugt um, að neinn árangur væri af þeirri sendför. Það er nú svo, að það er kannske ekki alltaf svo auðvelt að benda á beinan árangur af ferðum slíkra manna. En ég hygg, að hv. þm. viti ekkert, hvað þessi maður hefir gert, og hafi ekkert spurzt fyrir um það, því hann hefir þó a. m. k. í þeim löndum, sem hann hefir starfað, náð sambandi um harðfiskssölu. Hann hefir einnig haft með blautfisk að gera og komið á sölu á ísfiski o. fl. Svo það má benda á margt, sem þessi maður hefir gert á þessu tímabili, en nú er hann horfinn af þessum slóðum vegna veikinda, og verður því í bili ekki meira um þetta.

Um Ameríkufarminn hefir verið deilt svo mikið í útvarpinu, að ég ætla ekki að fara frekar út í það mál. Peningarnir eru nú komnir fyrir farminn, það sem fékkst, svo að það mál er hægt að gera upp mjög fljótlega.

Þá gat hv. þm. um harðfiskströnurnar, sem eru stærsti kostnaðarliðurinn í starfi fiskimálanefndar, en þær borgast af þeim, sem þær hafa keypt, þannig að mikill hluti af því fé, sem fiskimálanefnd varði til þeirra, kemur aftur til baka.

Þá var það eitt smáatriði, sem hv. þm. minntist á í sambandi við Ameríkusöluna, sem ég ætla annars ekki að fara út í. Hann las upp símskeyti frá 18. febr., þar sem umboðsmaður Sölusambandsins í Ameríku taldi verzlunarfélag eitt vera „interesserað“ í að kaupa meiri fisk. Það var skýrt frá því í útvarpsumr., sem ég hygg, að hv. þm. hafi hlustað á, að á þeim tíma, sem þetta skeyti kom, var allur fiskurinn bundinn í samráði við Kristján Einarsson. Það var ekki hægt að selja meira fyrr en síðar, en þó að hann hefði verið óbundinn, þá var ekki hægt að selja hann öðruvísi en með sömu skilmálum eins og 50 tonnin, sem þá voru seld, og það sendi sig, hvernig sú sala fór, að hún var rofin áður en skipið kom til Ameríku.

Þá talaði hv. þm. Snæf. enn um það, að það hefði orðið að fá skrifstofustjórann í Sölusambandinu til þess að starfa hjá fiskimálanefnd. og að hann hefði farið fyrir þrábeiðni þangað. En þetta er algerlega rangt. Hann var ekki þrábeðinn þess af neinum. Hann var fenginn til þess að fara þangað, þegar hún tók til starfa, en þá var gert ráð fyrir því, að hann yrði ekki áfram hjá sölusambandinu. En það atvikaðist þannig, að sölusambandið hélt áfram, og það varð úr, að hann reyndi að vera að nokkru leyti hjá hvoru fyrir sig og sjá, hvernig málið færi. En hann varð að fara frá fiskimálanefnd, af því að hann gat ekki annað þeim störfum, sem hann átti þar að gegna. Þetta var honum kunnugt, og er einnig öllum mönnum kunnugt. Það var of mikið starf til þess, að hann gæti haft það sem aukastarf. Og hvernig ætti svo að vera hægt, ef sölusambandið tæki þessi störf að sér, að leggja þessi störf á hann, þar sem hann varð að hverfa frá fiskimálanefnd, af því að hann gat ekki annað störfum þar líka?

Þá segir hv. þm. Snæf., að það gætu aðrir tekið við þessum störfum. Mér er þá spurn: Er ekki meira að gera í Sölusambandinu en það, að hægt sé að bæta á þessi störf heilli stofnun? Hafa starfsmennirnir þar ekki meira að gera en þetta? Ef framkvæmdarstjórarnir hafa ekki meira að gera, hvers vegna eru þeir þá þrír eða jafnvel fjórir? Mér er ekki annað kunnugt en að Richard Thors, sem er ráðinn framkvæmdarstjóri sölusambandsins, hafi fengið þar sér til aðstoðar hv. þm. Snæf., svo að enginn veit, hvort framkvæmdarstjórarnir eru þrír eða fjórir. Ef þessir menn hafa ekki haft meira að gera en þetta undanfarin ár, þá má spyrja, hvers vegna þeir séu svona margir. Má þá ekki fækka þeim?

Ég ætla svo ekki að fara, út í Suður-Ameríkuviðskiptin. því ég geri ráð fyrir, að aðrir svari því. En ég verð að segja fyrir mitt leyti, að enda þótt ég kysi helzt að útflutningsverzlun með sjávarafurðir væri öll þjóðnýtt, þá vildi ég ekki það fyrirkomulag, sem er á sölusambandinu. Og jafnvel þó svo væri, þá teldi ég það mjög vafasamt, og enda alls ekki rétt, að hafa eina stofnun, sem hefði það allt með höndum. Ég hygg réttara að hafa verkaskiptingu í þessu sem öðrum málum, og það sé því rétt stefna, sem tekin var af stjórnarflokkunum, þegar þeir skipuðu þessum málum þannig, að fiskimálanefnd var látin starfa sjálfstætt á sínu sviði. En ég verð að mótmæla því, að þó að þessar stofnanir séu tvær, önnur, sem hefir saltfiskinn, hvort sem hún nú heitir sölusamband og er með því fyrirkomulagi, sem það hefir, eða þá með öðru fyrirkomulagi, sem mörgum væri kærara, og svo önnur stofnun, fiskimálanefnd, sem hefði með ýmsar aðrar afurðir að gera og tilraunir o. fl., sem snerti útgerðina, að þá þurfi þær að liggja í erjum hvor við aðra. Þetta er ekki annað en sjálfstæðar ríkisstofnanir, eins og t. d. póstur og sími voru, áður en þetta var sameinað, og þær geta aðstoðað hvor aðra, en það er ekki ástæða til þess fyrir þær að vera með illindi hvor við aðra. — Ég veit ekki betur en að öll þau illindi, sem komið hafa upp í þessum málum, séu af hálfu þeirra manna, sem standa bak við sölusambandið og ráða þar mestu, og saka ég þá helzt um það framkvæmdarstjóra Kveldúlfs, sem allir vita, að mestu ráða í Sölusambandinu, að þeir hafi verið að nota þar aðstöðu sína í pólitískum tilgangi fyrir sjálfa sig, í stað þess að taka það sem verzlunarfyrirtæki, hálfopinbert.