28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2270)

128. mál, alþýðutryggingar

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Það er vafalaust góð meining, sem liggur að baki þessa frv., að rétta hlut þeirra gamalla manna, sem eru á aldrinum 60–67 ára. En mér skildist á ræðu hv. þm., að þar væri ekki að öllu leyti farið rétt með, þar sem hann sagði, að eftir alþýðutryggingarlögunum væru gamalmenni á þessum aldri svipt öllum tekjum, því að eftir 52. gr. l. um alþýðutryggingar telst hver sá öryrki, sem eftir þessum l. er ekki fær um, við störf, sem samsvara líkamskröftum hans og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af honum, með hliðsjón af uppeldi hans og undanfarandi starfa, að vinna sér inn helming þess, er andlega og líkamlega heilbrigðir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði. Hver sá maður, sem þannig er ástatt fyrir, sem hefir misst orku sína, m. a. fyrir aldurs sakir, á rétt til að fá örorkubætur. Ég geri ráð fyrir, að með 52. gr. alþýðutryggingal. sé hægt að koma gamalmennum á aldrinum 60–67 ára undir þessi ákvæði, svo að þau þyrftu ekki neins verulegs í að missa af þessum sökum, ef þau hafa misst svo starfsorku sína, að þau geta ekki unnið fyrir sér eins og áður. Þess vegna held ég, að þessi breyt. sé ekki eins nauðsynleg og hv. flm. vill vera láta, enda var bent á þetta í sambandi við aðra breyt. á þessum l. hér á þingi.

Ég er ekkert á móti því, að frv. gangi áfram, en vildi bara geta þess, að það er fulldjúpt tekið í árinni hjá hv. þm., að þessi gamalmenni séu svipt allri von um að fá nokkurn styrk í þessum árum.