08.05.1936
Efri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2284)

128. mál, alþýðutryggingar

Magnús Guðmundsson:

Ég hygg, að samkomulag hafi orðið um þetta mál í Nd. Innihald frv. er það, að gefa öllum, sem eru yfir 60 ára, rétt til ellistyrks, eins og áður hefir verið. Frv. ræður því bót á einum þeirra mörgu annmarka, sem ég benti á í fyrra við meðferð frv. um alþýðutryggingar, sem sé þeim, að enginn á aldrinum frá 60–67 ára geti fengið ellistyrk nema hann sé örorka. Þessi ágalli var viðurkenndur í fyrra, en fékkst ekki leiðréttur frekar en annað, sem á var bent og miður fór, enda var þá komið að þinglokum, eins og nú. Það hefir ekki verið hugsað fyrir því af stj. að koma með frv. til leiðréttingar á þessu og fleiri villum, svo það varð ekki fyrr en mjög seint á þinginu, að hv. þm. Snæf. kom fram með frv. til lagfæringar á þessu í Nd. Það voru áður nokkur atriði í frv., sem ollu ágreiningi, en ef ég man rétt, þá er það, sem eftir er af frv., ágreiningslaust. Það er þess vegna ekki ástæða til þess, að málinu sé vísað til nefndar. Hér er um nauðsynlega leiðréttingu að ræða, ef ekki á að svipta fólk á aldrinum 60–67 ára réttinum til þess að geta fengið dálítinn ellistyrk. Það er ýmislegt fleira í 1. um alþýðutryggingar, sem þarf að leiðrétta, eins og t. d. gjalddaginn á ellistyrktargjaldinu. Hann er enginn til eftir l. eins og þau nú eru.