24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

9. mál, innlánsvextir og vaxtaskattur

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Ég vil styðja þessa till. Ég álít sjálfsagt, að málið fari til n. En áður en það fer þangað vildi ég mega benda n. á eitt atriði sérstaklega. Það er, að í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að til þess að sanna, að gjald hafi verið greitt af bréfum, sem gefa það háu vexti, að skalt eigi að greiða af þeim, á að sýna þau árlega lögreglustjóranum, sem stimplar þau. Mér hefir verið bent á, að vissar stofnanir hér á landi, og þá sérstaklega ríkissjóður, eigi mikið af svona bréfum, sem skatt mundi þurfa að borga af. Það er spurning, hvort ekki er hægt að koma þessu fyrir á hagkvæmari hátt, svo að það sé minni fyrirhöfn heldur en því er samfara að stimpla bréfin. Þess vegna vil ég biðja n. að athuga, hvort ekki muni hægt að sleppa alveg að stimpla bréfin, en láta bankana sjálfa draga frá um leið og þeir borga út vaxtamiða. En aftur á móti er ómögulegt að sleppa að stimpla bréf, sem ganga á milli prívatmanna. En ég geri ráð fyrir, að n. sé nú orðin sammála um það, að ekkert réttlæti sé í því að láta sparifjáreigendur hirða 6–7% arð, þegar atvinnuvegirnir standa ekki undir nema tæpum 3%. Það er sjálfsagt að taka nokkuð af þeim vöxtum, sem þeir fá, og verja þeim til þess að lækka útlánsvextina á því fé, sem atvinnuvegirnir þurfa að standa undir. — Ég tek svo undir þá ósk, að málinu verði vísað til nefndar, og vona, að hún sofni ekki á því.