21.02.1936
Neðri deild: 5. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (2306)

13. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

*Flm. (Bergur Jónsson):

Þetta frv. er í beinu sambandi við það frv., sem var hér fyrst á dagskrá (frv. um útgerðarsamvinnufélög). Með þessu frv. eru sett ákvæði, sem veita þeim félögum, sem hlíta ákvæðum þeim, sem setja á með frv. um útgerðarsamvinnufélög, möguleika til þess að fá starfsfé úr fiskveiðasjóði.

Ég held, að ekki sé of langt gengið með þessu frv., ef sæmilega er gengið frá l. um útgerðarsamvinnufélög. Hér er farin sú leið, að gera nokkrum opinberum sjóður að skyldu að láta fiskveiðasjóði í té nokkurt fé árlega, sem fjmrh. ákveður, hversu mikið skuli vera. Þetta er áreiðanlega mjög skynsamleg leið til þess að auka og endurbyggja að einhverju leyti útgerðartæki hér á landi, og þá sérstaklega á samvinnusviðinu.

Þetta frv. hefir eins og frv. það, sem var hér síðast til umr., frv. um útgerðarsamvinnufélög, legið fyrir tveim þingum og kemur nú fram í þriðja sinn. Því var vísað til sjútvn., og óska ég, að það verði enn látið fara þangað, að lokinni þessari umr. Vil ég vænta þess, að sú n. gangi að afgreiðslu þessara mála beggja með fullri alvöru, svo að þau megi fá fulla afgreiðslu á þessu þingi.