21.02.1936
Neðri deild: 5. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2310)

14. mál, samvinnufélög

*Flm. (Hannes Jónsson):

Frv. shlj. þessu frv. flutti ég á fyrri hluta síðasta þings. Það fékk þá enga afgreiðslu, og nú flyt ég það enn óbreytt frá því, sem það var þá.

Þetta frv. fer aðallega fram á þær breyt. á samvinnufélagsl. frá 1921, að rýmka til um ákvæðin um ábyrgðina. Í þeim l. er svo ákveðið, að sameiginleg ábyrgð skuli vera í öllum þeim samvinnufélögum, sem annast innkaup fyrir félagsmeðlimi sína aftur á móti er leyfð takmörkuð ábyrgð þeim félögum, sem annast aðeins sölu fyrir félagsmenn sína. — Nú er svo um mörg af þessum félögum, að þau hafa með höndum þetta tvíþætta verkefni, innkaup og sölu. Hér er því ekki farið fram á breyt. nema að hálfu leyti að því er þau snertir. Það er ekki heldur nein ástæða til, að ábyrgðin sé ótakmörkuð, þó að félögin hafi útvegað vörur fyrir félagsmenn sína. Það hefir líka komið í ljós, að þessi ótakmarkaða ábyrgð hefir ekki náð tilgangi sínum. Lánsstofnanir hafa nú ekki gert eins mikið úr henni og gert var, þegar l. voru sett. Það hefir heldur aldrei komið fyrir, að þessu ákvæði væri beitt af þeim, sem kröfur áttu á þessi félög. Hér er því fyllsta ástæða til að rýmka til, og er það höfuðverkefni þessa frumvarps.

Annað verkefni frv. sést í 4. gr. Þar er heimilað að gera við stofnun hvers félags nokkurskonar frumsamning, sem ég hefi kallað stofnsamning, þar sem félagi er gert leyfilegt að setja ákvæði um grundvallarstefnu félagsins, sem má ekki víkja frá, og þannig fyrirbyggja þá hættu, sem af því getur stafað, að tilgangi félaganna sé breytt og starfsemi þeirra snúið inn á annað verksvið en stofnendur ætluðust til.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þessi atriði geti valdið ágreiningi meðal hv. þm. Mér sýnast þau svo sjálfsögð, að ekki sé ástæða til, að málið sé látið fara til n. Því var í fyrra vísað til allshn., en hún sýndi því engin skil. Það lá þar óafgr. án þess að nokkur þörf væri á að leita umsagnar um efni frv. Ég veit ekki til, að n. hafi gert sér nokkurt ómak til að ýta því áfram. Sýnist mér engin þörf, að það fái sömu aðgerðaleysismeðferð nú, og vil láta það halda áfram nefndarlaust, ekki sízt af því, að málið liggur svo ljóst fyrir, að hv. þdm. ættu ekki að þurfa umhugsunar við, hvort það skuli ganga fram eða ekki.

Ég hygg, að það sé sameiginlegt álit allra þeirra, sem um þessi mál hafa hugsað, að engin ástæða sé til að halda eins fast við þá ótakmörkuðu ábyrgð og gert var við samningu samvinnufélagal. Ég vænti þess, að hæstv. forseti taki málið fljótt á dagskrá aftur. Ég held, að það væri ekki illa til fallið, þar sem fyrstu dagar þingsins eru oft aðgerðalitlir.