24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2316)

14. mál, samvinnufélög

*Flm. (Hannes Jónsson):

Ég þarf ekki að vera margorður um þetta frv.; ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi kynnt sér innihald þess. Ég skal aðeins rifja upp aðalatriði frv., en þau eru á þá leið, að skilyrði samvinnulaganna um ótakmarkaða sameiginlega ábyrgð í þeim samvinnufélögum, sem hafa það verkefni að útvega félagsmönnum sínum vörur, verði fellt úr þeim, og að ábyrgðin verði framvegis takmörkuð við ákveðna fjárhæð hjá hverjum einstökum félagsmanni, er ákveðin sé í samþykktum félagsins. Þó má takmörkuð ábyrgð einstaks félagsmanns eigi vera lægri en 100 krónur. — Þetta ákvæði um ótakmörkuðu ábyrgðina var ríkjandi í kaupfélögunum löngu áður en samvinnulögin voru sett. Þá skorti félögin algerlega rekstrarfé, að heita mátti, og þá munu bankar og aðrir, sem leitað var til um rekstrarfé, hafa sett það skilyrði fyrir lánveitingu, að félagsmenn stæðu allir í sameiginlegri ótakmarkaðri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum félagsins. En samkv. reynslu umliðins tíma hefir það sýnt sig, að ótakmarkaða ábyrgðin er hvorki nauðsynleg né heppileg í öllu tilliti, fremur í kaupfélögum og pöntunarfélögum heldur en í öðrum tegundum samvinnufélaga. Það hefir komið í ljós, að hún er í reyndinni meira form en að hún sé raunveruleg trygging fyrir félögin sjálf eða lánardrottna þeirra. Hún hefir ekki gert það gögn, sem búizt var við í upphafi, þannig að ef kaupfélög hafa komizt í þrot, þá hefir ótakmarkaðu ábyrgðin ekki verið notuð. Í raun og veru hefir hún því ekki leitt til annars en að fæla einstaka menn frá félagsskapnum, menn, sem af principástæðum vilja ekki binda sig slíkum ábyrgðum, jafnvel þó að engar líkur séu til, að þeim verði beitt. — Önnur aðalákvæði frv. eru í 4. gr., og eru þau viðauki, sem ætlazt er til, að verði í 5. gr. samvinnulaganna. Er þar gert ráð fyrir, að þeir menn, sem stofna samvinnufélag, setji sér grundvallarákvæði um starfsemi félagsins, og er það stofnsamningur félagsins, sem á að gilda meðan það er við lýði. Með því á það að vera tryggt, að tilgangi félagsins verði ekki breytt, eða starfsemi þess snúið á aðrar leiðir en ætlað var. –Þá er í 5. gr. frv. gert ráð fyrir, að stofnsjóðsákvæði samvinnulaganna gildi ekki fyrir önnur félög en þau, sem veita viðskiptamönnum gjaldfrest. Þau kaupfélög, sem flytja inn og selja vörur til félagsmanna, þurfa að safna fé í tryggingarsjóði, ef þau lána viðskiptamönnum sínum vörurnar, og við því er ekkert raskað í þessum tillögum mínum. En ef hönd selur hendi og félagið veitir engin lán, þá eru ákvæði samvinnulaganna um tillög félagsmanna í stofnsjóð algerlega óþörf. Þá er það verkefni stofnsjóðs ekki fyrir hendi, að tryggja viðskipti félagsmanna gagnvart félaginu, þegar félagið lánar ekki út. Það er vitanlega talsverð kvöð fyrir félagsmenn að leggja 3% af rekstrarhagnaði sínum í stofnsjóð, enda ætlast ég til, að þeir verði leystir undan því; það er ekki frekar ástæða til að halda slíkri kvöð í þeim félögum, sem ekki lána út, heldur en t. d. í framleiðslufélögum, sem eru nú alveg undanþegin stofnsjóðsgjaldi.

Ég hefi nú rakið efni frv. í aðaldráttum, og held ég, að öllum hljóti að koma saman um, að þessi atriði séu sjálfsögð, jafnvel þótt ýmsir haldi því fram, að með ótakmörkuðu ábyrgðinni hafi samvinnufélögin átt eitt sameiginlegt stefnumið. Það er líka meira og meira farið að víkja frá henni í seinni tíð, og menn geta fullkomlega lifað og starfað undir merki samvinnuhugsjónarinnar, þó að þeir bindist ekki hinni ótakmörkuðu ábyrgð. — Á hinn bóginn geta þeir, sem vilja, haldið fast við sína ótakmörkuðu ábyrgð, ef þeim finnst hún vera eitthvert allsherjartákn þeirrar trúar, sem þeir hafa á samvinnufélagsskapnum.

En fyrir þau kaupfélög, sem starfa í kaupstöðunum og láta hönd selja hendi, er hér opnuð leið til starfa á grundvelli samvinnulaganna, án þess að félagsmenn þurfi að bera ótakmarkaða ábyrgð á viðskiptum hvers annars við félagið. Og slík ráðstöfun ætti líka fremur að hvetja félögin til þess að lána ekki út til viðskiptamanna sinna. Ég held, að ef þessi lagabreyt. hefði slík áhrif, þá væri það eitt nóg, út af fyrir sig, til þess að réttlæta hana.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um frv. frekar, en vona, að hv. d. greiði sem mest fyrir því, svo að það fái fljóta og góða afgreiðslu. En ef einhverjir hv. þdm. hafa áhuga fyrir því að gera aths. við einstök atriði frv., þá óska ég eftir að fá að heyra þær hér í d., því að enn má vel koma að breyt. við frv. — Ég er fús til þess að taka leiðréttingum og auka við frv. fleiri breyt. á samvinnulögunum, ef þær koma fram og ég tel þær nauðsynlegar eða þannig, að þær geti leitt til bóta. Mér er það fyllilega ljóst, að þrátt fyrir þær breyt., sem felast í þessu frv., þá er hvergi nærri tæmt það efni samvinnulaganna, sem þörf er á að endurskoða. Enda er það ekki undarlegt, þar sem lögin eru frá 1921, og engin breyt. hefir verið gerð á þeim síðan. Ég er reiðubúinn til samvinnu við hvern sem vera skal um frekari athugun á þessum lögum, en taldi sjálfsagt að koma fram með þær breyt., sem í frv. felast, og vil, að þær gangi sem fyrst í gegnum þingið.