24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2317)

14. mál, samvinnufélög

Jón Pálmason:

Það er dálítið óvenjuleg aðferð að láta þetta frv. fara í gegnum d. án þess að það gangi til n.; og ekki sízt þegar um svo mikilsvert mál er að ræða sem hér er á ferðinni, þá tel ég ekki forsvaranlegt að afgr. það án nefndar. Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta frv., en ég geri ráð fyrir, að einhverjum öðrum en mér kunni að þykja það nokkuð viðurhlutamikið að ganga til atkv. um það án þess að það sé athugað í n. — En ég kvaddi mér hljóðs sérstaklega vegna þess, að ég tel þær breyt. á samvinnulögunum, sem í frv. felast, algerlega ófullnægjandi. Lögin eru frá 1921, eins og tekið hefir verið fram, og lít ég svo á, að fyrst þau eru nú á annað borð tekin til athugunar, þá eigi að gera á þeim fleiri og róttækari breyt. en hér er stungið upp á. Ég skal ekki fara út í öll þau atriði, sem þar gætu komið til greina, en halda mér við þau atriði, sem frv. fjallar um, og þá sérstaklega ótakmörkuðu ábyrgðina. Það er gert ráð fyrir því í 2. gr. frv., að eigi beri skylda til að hafa ótakmarkaða ábyrgð í þeim samvinnufélögum, sem kaupa inn og selja vörur. Ég lít svo á, að eins og nú er komið, þá sé það sannað, að þessi ótakmarkaða ábyrgð hafi ekkert verið notuð í viðskiptalífinu, og ennfremur, að hún geti ekki komið að neinu haldi. Og sönnunin felst í því, hvernig kreppulánauppgerðin var látin fara fram. Reynslan var sú, að þó að lýst væri ábyrgðar- og skuldakröfum á þá menn, sem í kaupfélögunum voru og aðrir voru samábyrgir með, þá var krafan alls ekki tekin til greina. Fjárhagur hvers félagsmanns var gerður upp í kreppunni án þess að nokkurt tillit væri tekið til hinnar ótakmörkuðu ábyrgðar hans í kaupfélaginu. Þar með var því slegið föstu, að þessi ábyrgð kæmi ekki að neinu gagni. — Ef nú á að breyta þessu samábyrgðarákvæði samvinnulaganna, þá álít ég, að sú breyt. þurfi að vera miklu róttækari. Hér er í þessu frv. aðeins gert ráð fyrir að heimila sölufélögum að starfa á grundvelli samvinnulaganna, án þess að þau hafi ótakmarkaða ábyrgð. En þessi heimild mundi ekki verka neitt fyrir þau. Sláturfélögin hafa nú þegar haft þessa heimild í lögunum síðan 1921, en hún hefir bara ekki verið notuð, af því að Samband ísl. samvinnufélaga hefir neitað sölufélögunum um að nota slíka heimild til þess að hafa takmarkaða ábyrgð; þetta er mér kunnugt um. En þannig stendur á um þau sölufélög, sem hafa sérstaklega kjöt til sölu, að þeim er ekki unnt að verzla gegnum aðra heildsala en S. Í. S., af því að það er varla um aðra aðilja að ræða hér á landi, sem verzla með það erlendis. Út af fyrir sig er ekki nema gott eitt um það að að segja, að kjötverzlunin sé á einni hendi, ef sölumeðferð þess er í góðu lagi, sem ég vil ekki efast um að sé, en út í það fer ég ekki lengra í þessu sambandi. — En það er vitanlegt, að þar sem heimild sölufélaganna til hinnar takmörkuðu ábyrgðar er ekki enn komin til framkvæmda, þá mundi sú heimild, sem þetta frv. veitir, ekki heldur verða notuð, þó það verði gert að lögum. Ég álít, að ef þessu ákvæði samvinnulaganna verður breytt, þá eigi að gera það á svo róttækan hátt, að hin ótakmarkaða samábyrgð verði alls ekki leyfð, heldur beinlínis strikuð út úr lögunum. Þessi fyrirhugaða breyt. samkv. frv. er því algerlega ófullnægjandi og kemur ekki að því gagni, sem vakir fyrir hv. flm. — Mér finnst réttast, þótt þetta frv. sé hér til 2. umr., að því verði vísað til n. Legg ég því til, að umr. verði frestað og málinu vísað til nefndar.