24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

14. mál, samvinnufélög

*Gísli Guðmundsson:

Þegar þetta frv. var hér til 1. umr., bar ég fram till. um, að því yrði vísað til n. á milli 1. og 2. umr., af því að hv. flm. hafði ekki stungið upp á því, og virtist meira að segja vera því mótfallinn. Niðurstaðan varð sú, af því að þá var nokkuð fámennt hér í d., að till. mín um að vísa frv. til n. var felld. Þess vegna liggja hér ekki fyrir þau gögn frá n., sem venjulega eru til staðar við 2. umr. og nauðsynleg eru til þess að þdm. geti yfirleitt gert sér ljósa grein fyrir málinu. — Ég mun því eindregið styðja þá till. hv. þm. A.-Húnv., að umr. verði frestað og frv. vísað til allshn. — Ég vil benda á, að það virðist dálítið einkennilegt við flutning þessa frv.; a. m. k. kemur ekkert fram um það í grg., að það sé flutt samkv. óskum einhverra af samvinnufélögunum í landinu eða Sambands ísl. samvinnufélaga. Meira að segja man ég ekki eftir því, þó það hinsvegar geti vel verið, að hv. þm. V.-Húnv. hafi flutt slíkt frv. meðan hann var sjálfur í þjónustu samvinnufélaganna. Það skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli, en hitt virðist sjálfsagt, að úr því að frv. er ekki borið fram eftir ósk samvinnufélaganna, þá sé þeim gefinn kostur á að láta uppi álit sitt á því, og það verður ekki gert á annan hátt en að málinu sé vísað til n. og leitað umsagnar um það eins og venja er til.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð. Málið liggur ekki þannig fyrir, að það sé hægt að ræða það eins og venja er til við 2. umr. Þess vegna styð ég þá till. að fresta málinu og vísa því til n.