24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2344)

23. mál, eignarnámsheimild á Reykhólum

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég verð, aldrei þessu vant, að taka undir við hv. þm. Barð. (hann er það enn) og tjá honum fylgi mitt í þessu máli. Ég sé ekki, að fyrir 1. gr. frv. á þskj. 23 séu nokkur rök, er staðizt geti gagnrýni. Virðist sem það þurfi fleiri rök til en fram eru tekin í þessari frvgr., og hefir hv. flm. láðst að gera grein fyrir þeim.

Hv. þm. Barð. leitaði nú aðstoðar l. og stjskr., sem hans samflokksmenn og sambandsmenn hafa svo mjög fótum troðið á undanförnum þingum. Hann kom þar niður á 62. gr., sem þeir hafa ekki mátt heyra nefnda undanfarið, en hún fjallar um friðhelgi eignarréttarins. Ég benti á það í fyrra, að í stjskr. stæði, að eignarrétturinn væri friðhelgur. Ég man til þess, að fyrir einu ári fluttu samflokksmenn hv. þm. Barð. frv. um eignarnám á landi í Rangárvallasýslu, og vildu þeir taka landið skilyrðislaust, af því að einn kaupfélagsstjóri vildi fá landið undir sig. Þetta var nú í Rangárvallasýslu, sem er að mörgu leyti Gósenland, en nú er að ræða um Barðastrandarsýslu, og um hana berjast einmitt báðir hv. flm. og flokkar þeirra. En nú kúvendir annar hlutinn.

Stjórnarskráin segir, að alls ekki megi taka af mönnum eignir þeirra, nema almenningsþörf krefjist. Og þá fyrst, þegar það er sýnt, á lagasetning að koma til. Það stoðar ekki að vitna í l. frá 1917, því að þau greina ekkert um heimild, heldur einungis aðferð við eignarnám. Hér er því allt öðru máli að gegna. Hér er engan veginn sjálfsagt að framkvæma eignarnámið, og því koma nefnd l. hér alls ekki til greina. Í þessu formi er ekki hægt að bera fram málið.

Hv. flm., 9. landsk., sagði í grg. (og á því vill hann byggja mál sitt, því að ekki stoðar að byggja á því einu, að jörðin sé kostajörð), að glæsilegt sé að reisa þarna samvinnubyggðir. Þar lá hundurinn grafinn! Nú vil ég minna hv. þm. á, að ekki er nú svo, að það langt sé málunum komið, að samvinnubyggðaverkið sé í framkvæmd. Byrjum annarsstaðar en á Barðaströnd að reisa þær. Ég er svo kunnugur landinu, að ég get fullyrt, að ekki sé tiltækilegt að innleiða merkinguna: samvinnubyggðir=almannaþörf vestur á Barðaströnd.

Líka ber þess að gæta, að jafnvel eftir l., sem þeir hafa komið í gegn um nýbýli og samvinnubyggðir, þyrfti ekki, þó að þau yrðu framkvæmd, nema nokkra menn til að mynda þessar samvinnubyggðir, og þeir menn væru þá auðvitað ekki rétthærri en einhverjir aðrir nokkrir menn, sem mynda félag. Annars gætu hvenær sem er þrír eða fjórir menn myndað samvinnubyggðarfélag og komið svo til þingsins og sagt: við erum almenningurinn, — og krafizt eignarnáms á jörðum og landi.

Má vera, að þetta gefna tilefni verði til þess, að þeir, sem tilheyra Framsfl., komi brátt niður á réttum stað, stingi fingri í moldina og lykti, hvar þeir standa gagnvart þessum sambandsmönnum sínum, sem komnir eru að því að gleypa þá. Það gleður mig að sjá, að einn þeirra sjálfra réttir nú upp höndina úr kafinu. Ég vil nú grípa í upprétta hönd hans og tosa honum á land.

Þetta frv. ætti að verða einskonar áminning til þeirra manna, sem ekki vilja láta taka eigur manna eignarnámi að ófyrirsynju, um að greiða ekki atkv. sitt með slíkum till. Aðeins var einn galli á ræðu hv. þm. Barð., sem sýndi hjá honum nokkra veilu gagnvart þessu gleypimagni sambandsflokksins. Hann segist ætla að bera fram frv. um heimild til kaupa á jörð, en bætir því svo við, að ef kaupin fáist ekki, þá skuli taka jörðina eignarnámi. En það gæti þá farið svo, að hann hnyti þarna um stein, sem ég held, að sé bjarg og að ekki megi velta úr vegi, sem sé stjórnarskrána. Ég vil benda honum á það, áður en hann lætur prenta sitt frv., að hann ætti að sníða það svo, að hann falli ekki sjálfur í þá gröf, sem annar að vísu ætlar að grafa.