24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

23. mál, eignarnámsheimild á Reykhólum

Flm. (Sigurður Einarsson):

Mér þótti skrítið, að hv. 2. þm. N.-M. stóð hér upp og hélt því fram, að mér hefði láðst að gera grein fyrir almenningsþörf þeirri, er lægi bak við þetta frv. Ég held, að það hafi verið á síðasta þingi, er þessi hv. þm. kom fram með frv. um eignarnámsheimild á landi fyrir hestabeit handa kaupfélagi einu. Ef það á að vera almannaþörf, en ekki alhestaþörf, sem ræður því, hvenær land skal tekið eignarnámi, þá getur engum blandazt hugur um, að mitt frv. á meiri rétt á sér en hans frv. í fyrra. Ætla ég svo ekki að þjarka meira um það atriði.

Mér þótti vænt um að heyra hv. þm. Barð. lýsa aðalefni frv. síns. Hann leggur til, að stj. sé heimilað að kaupa eða taka eignarnámi jörðina Reykhóla í Reykhólahreppi. Ég ber fram frv. þess efnis. og stj. sé heimilað að taka jörðina eignarnámi. Ég get gjarnan bætt því við frv. mitt, að heimila megi kaup á jörðinni, svo að þetta yrði þá eins hjá okkur. Virðist þá, sem milli okkar ætti að geta orðið gott samkomulag um það, að jörðin þurfi að vera opinber eign.

Annars get ég bent hv. þm. á það í sambandi við hina hjartnæmu lýsingu hans á því, er hann var skiptaráðandi að þessu búi, og tillitssemi þá, sem honum ætti að vera skylt að sýna erfingjunum, að hann leyfir sér að hella yfir erfingjana níði, þess efnis, að þeir hafi leigt jörðina dýrt og nítt hana niður á alla lund, — níði, sem ég hefi aldrei leyft mér að bera fram. — Ég ætla svo ekki frekar að elta ólar við þessa grautargerð hv. þm. Hann blæs sig upp og deilir á mig fyrir frv. það, sem ég ber fram, en lýsir svo yfir því merkilega, að hann ætli að koma með frv., sem er algerlega samhljóða mínu, og þykist svo hafa unnið reginsigur.