25.02.1936
Neðri deild: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

29. mál, brúargerði

Flm. (Sigurður Einarsson):

Einmitt í þessu er verið að útbýta frv. frá samgmn. um breyt. á brúalögunum. Ég sé, að í 1. gr. þess frv. er lagt til, að tekin sé upp í brúalögin Laxá í Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu, einmitt sú á, sem ég tala um í 1. gr. frv. þess, sem ég hefi borið fram. N. hefir ekki séð sér fært að taka upp þær aðrar ár, sem eru í mínu frv., sem eru 3 ár í vestanverðri Barðastrandarsýslu. Ég get í sjálfu sér álitið það góðs vita og vel við það unað, að samgmn. tekur í sitt frv. Laxá í Reykhólasveit. En ég get endurtekið það, sem ég sagði um þetta mál í fyrra, að það hafa mörg vötn verið brúuð með opinberu fé, sem ekki eru til meiri torfæru en þessar 3 ár, sem um er að ræða í 2. gr. frv. míns, og álit það, sem vegamálastjóri gaf um þetta, hefir ekki sannfært mig og engan, sem á heima á þessum slóðum, um að ekki sé nauðsynlegt, að þessar ár verði svo fljótt sem kostur er brúaðar.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vísa til grg. frv. og óska þess, að málinu verði vísað til samgmn. að þessari umr. lokinni, þó ég hinsvegar þykist sjá gerla, hvernig fara muni, þar sem n. sjálf hefir lagt fram frv. um breyt. á brúalögunum.