27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2364)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Flm. (Bergur Jónsson):

Það hefir gengið dálítið sérstaklega til í þessu þorpi, sem hér er um að ræða. Þar hafa verið verzlanir, hver á fætur annari, sem hafa orðið gjaldþrota og dregið niður með sér talsvert mikið af íbúum þorpsins. Nú er svo komið, þrátt fyrir það, að Arnarfjörður er einn af beztu fjörðum þessa lands til bjargráða, að fólkið stendur þar uppi næstum því atvinnulaust. — Í hreppnum mun vera á fimmta hundrað manns. Í þorpinu eru kringum 300 íbúar, og það, sem menn aðallega hafa lifað á síðustu árin, er tveir línuveiðarar, sem nú hafa verið leigðir burtu úr þorpinu. Það, sem fyrst og fremst er grundvöllurinn undir því, að hægt sé að halda uppi atvinnu þarna, er það, að menn hafi aðgang að þeim atvinnutækjum, sem til eru á staðnum. Nú stendur svo sérstaklega á, að hús og lóðir eru að miklu leyti í eigu einstaks manns, sem varð að veðsetja eignina bönkunum og hefir ekki getað staðið í skilum. Hann skuldar ríkinu einnig talsvert fé, og eigi það ekki að tapast, er vafalaust eina ráðið að yfirtaka eignina og sjá um, að svo mikið fé sé lagt til þorpsins, að atvinnulíf geti borið sig þar. Útvegsbanki Íslands á fyrsta veðrétt í eigninni, en ríkið annan, og eftir því, sem ég veit bezt, mun Útvegsbankinn gefa eftir sinn veðrétt, ef ríkið vill taka eignina upp í 2. veðrétt. Það er vitanlega fyrsta skilyrðið til þess að hægt sé að halda uppi sæmilegum atvinnurekstri í þorpinu, að koma upp frystihúsi, og til þess þarf auðvitað hið opinbera að veita sinn styrk. Ég vil taka það fram, að ég býst við, að ég styðji þáltill. hv. 9. landsk. um athugun á atvinnumöguleikum á Bíldudal og um aðstoð við bágstadda íbúa kauptúnsins, því hún er alveg í samræmi við þá hugsun, sem fram kemur í mínum till. og ég hefi nú haldið fram í ræðu minni. Ég álít ekki rétt af því opinbera að láta þetta þorp verða sérstaklega útundan samanborið við aðra staði. Erfiðleikarnir stafa mikið af því, að þarna hefir verið verzlunarfyrirkomulag, sem reynzt hefir sérstaklega óheppilegt og hefir steypt fjölda mörgum þorpsbúum í skuldir, sem þeir annars myndu ekki hafa komizt í. Það er enginn vafi á því, að Útvegsbankinn, sem hefir 1. veðrétt fyrir allt að 100 þús. kr., getur hvenær sem er gengið að þorpinu og sem sagt eignazt það, og væru þá ríkinu tapaðar þær 30 þús. kr., sem það á þarna og e. t. v. mætti bjarga, ef þannig væri búið að þorpinu með rekstrarfé, að menn gætu þar borgað sín gjöld og staðið í skilum.

Ég vona, að þessu máli verði yfirleitt tekið heldur vel. Þetta er að mínu áliti grundvallaratriðið til þess að bjarga kringum 300 manna þorpi, og það er ekki til of mikils ætlazt, þó ríkissjóður, sem á undanförnum þingum, t. d. aukaþinginu 1933, hefir lagt út í ábyrgðir fyrir útgerðarfélög á stöðum, þar sem um talsvert miklu meiri atvinnu er að ræða í öðrum greinum, líti nú á nauðsyn þessa sjávarþorps og reyni að sjá um, að menn falli þar ekki niður úr hungri eða þurfi að flytja til annara staða og leggjast þar á það opinbera vegna atvinnuleysis.