27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2365)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Sigurður Einarsson:

Ég verð að lýsa því yfir hér, að mér er ánægja að því, að frv. um þetta efni skuli vera komið fram, að ríkissjóði sé heimilað að kaupa Bíldudalseignina svokölluðu. Í allan fyrra vetur hafði ég á takteinum frv., sem gekk í sömu átt, og leitaði fyrir mér um fylgi fyrir það á meðal þm., ekki sízt framsóknarmanna, því mér þótti mikið veita á, hvernig áheyrn ég fengi hjá þeim. En ég sá mér ekki fært að fara á flot með það, vegna þess að ég þóttist sjá fram á, eins og málið horfði þá við, að það mundi ekki ná fram að ganga. Síðan hafa gerzt þeir atburðir þarna fyrir vestan, að það er ekki eins auðvelt að loka augunum fyrir því, að það stendur alveg sérstaklega á fyrir þessu fólki. Þau atvinnutæki, sem þarna hafa verið og þorpsbúar hafa lifað á, hafa nú sökum hinnar erfiðu aðstöðu flæmzt burtu og fólkið er eftir albjargarlaust, ef ekkert er að gert. Mér er kunnugt af viðtali við þrjá hreppsnefndarmenn að vestan, og af þeim hafa a. m. k. tveir verið óvenjulega mikið riðnir við þessa tvo línuveiðara, sem hafa verið einu atvinnutækin á Bíldudal, að það er fyrst og fremst aðstaðan til að nota landið og mannvirkin, sem þarna eru, sem gerir mönnum örðugt fyrir. Íshús var þarna í nothæfu ástandi, en maðurinn, sem ráð hefir á lóðunum, byggingunum, bryggjunum o. s. frv., hefir ekki haft tök á eða dug til að reka það til þess að sjá útgerðinni fyrir beitu. Hún hefir því átt við óvenjulega erfiðleika að stríða, af því orðið hefir að reyna að samrýma það að afla sér á öðrum stöðum allra nauðsynlegra hluta, svo sem beitu, kola o. fl., en leggja aflann þarna á land til þess að skapa atvinnu í þorpinu. Þetta hefir valdið útgerðinni ýmsum kostnaði, sem hún hefði losnað við, ef betri félagsleg skilyrði hefðu verið til atvinnurekstrar heima fyrir. Á þessum vetri hefir verið haldið úti bát þaðan, en það hefir komið Bílddælingum að litlum notum. Það, sem greitt hefir verið í vinnulaun við útskipun og þess háttar, hefir allt farið til annara staða, því til Bíldudals var ekkert erindi; þar var ekkert að hafa á meðan ísfiskveiðarnar voru stundaðar.

Ég verð að taka undir það, sem hv. þm. Barð. sagði um þetta mál. Það er augljóst, að svo framarlega sem ríkissjóður á ekki að tapa því fé, sem hann á í þessari eign, þá verður hann að taka hana í sínar hendur með þeim samningum við Útvegsbankann, sem bezta er hægt að fá. Mér er kunnugt um, að ef hugur bankastjóranna hefir ekki breytzt síðan í fyrra, þá mun engin tregða á að fá a. m. k. mjög þægilega greiðsluskilmála fyrir ríkissjóð. Ég ætla að bæta því við, að almenningur þarna vestra lítur á þessa ráðstöfun, að ríkið kaupi Bíldudalseignina, sem eina möguleikann til þess að nokkur atvinna haldist við þarna, og er mönnum þetta því hugleiknar, heldur en flest önnur mál, sem fyrir þinginu liggja. Ég vil benda á, að með þáltill., sem ég flyt á þskj. 55, fylgir bréf frá oddvita Suðurfjarðahrepps, þar sem hann biður um hjálp fyrir hönd hreppsnefndarinnar og lýsir nógsamlega, hvernig hag manna er komið þarna. Svo framarlega að Bílddælingar eiga ekki að takast út fyrir þá almennu reglu, að komið sé í veg fyrir, að menn drepist niður úr sulti meðan nokkur leið er og annarsstaðar að berast ekki slík tíðindi, þá er ekki hægt að komast hjá að taka á þessu máli.