27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2371)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil mega beina þeirri ósk til þeirrar hv. n., sem væntanlega fær mál þetta til meðferðar, að hún taki til hinnar nákvæmustu íhugunar alla möguleika til björgunar þessu máli áður en hún leggur til, að samþ. verði frv. á þskj. 43. Það er ljóst, að út af fyrir sig er engin björg í því í bili, að ríkið kaupi þessa eign, nema samtímis sé tryggt, að hægt sé að halda rekstri hennar gangandi, og að ekki er bætt úr atvinnuþörf þess fólks, sem um er að ræða, með því að ríkið kaupi eignina án þess að geta gert á henni nauðsynlegustu endurbætur eða rekið hana. Því þarf að sjálfsögðu að rannsaka það gaumgæfilega, hvaða bögglar fylgja skammrifinu. — Mér er orðið þetta mál nokkuð kunnugt. Hér hafa verið sendimenn frá Bíldudal, og hafa þeir rætt við ríkisstj. um þetta mál. Það, sem þeir telja að aðallega vanti þarna, er íshús til þess að tryggja beitu til útgerðarinnar, bæði handa línuveiðurunum og einnig stærri og smærri bátum á Bíldudal og við Arnarfjörðinn. Eftir því, sem ég bezt veit, eru þarna tvö útgerðarfélög, sem eiga sitt hvorn línuveiðara. Aðalvandræðin stafa af því, að þessi félög hafa ekki fé til þess að gera hinar nauðsynlegustu umbætur, og úr því er vitanlega ekki leyst með því í einu, að ríkið kaupi eða yfirtaki eignina. Ég vildi því mælast til þess, að hv. n. tæki þann möguleika til athugunar, að þessi tvö félög, sem þarna eru á staðnum, í félagi við hreppsnefndina, tækju eignarheimild á Bíldudalseigninni og rækju hana með stuðningi ríkisstj. Gætu svo þessir aðiljar, að því er mér virðist, með samningum við hinn raunverulega eiganda eignarinnar, Útvegsbakann, endurbætt íshúsið og á þann hátt greitt viðunanlega úr þessu alvarlega vandamáli. — Mér þótti rétt að benda á þessa leið strax, ef n. skyldi komast að þeirri niðurstöðu, að hún væri betri heldur en ef hlaupið væri í að samþ., að ríkið keypti eignina og gæti svo ekki fylgt því máli eftir svo sem nauðsynlegt væri. — Því er ekki að leyna, að það eru fleiri staðir hér á landi, sem eiga við líka erfiðleika að búa, og er enginn efi á, að fleiri mundu vilja koma í kjölfar þessa frv., ef að lögum yrði. Ég veit, að hreppsnefndin hefir fleira í hyggju til stuðnings atvinnulífinu í hreppnum. Hún hefir nýlega keypt jörð handa þorpinu til að rækta og komið þar upp vísi að kúabúi, og væri æskilegt, ef hægt væri að styrkja þá viðleitni. Í öðru lagi er þar nokkur hugur í mönnum að nota sér þau fríðindi, sem veitt verða til eflingar kartöfluræktinni í landinu. — Ég vildi sem sagt benda á þetta nú þegar hv. n. til athugunar.