27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2372)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Flm. (Bergur Jónsson):

Ég sé ekki ástæðu til að vera langorður um ræðu hv. þm. V.-Húnv., sem einn hefir aðallega talað á móti frv. síðan ég talaði síðast. Mér þótti vænt um það, að hann virtist hallast að því, að það ætti að reyna sem mest að binda menn við þá atvinnugrein, sem þeir stunda, og á þeim stöðum, sem þeir eru, því það er einmitt það, sem stefnt er að með frv. Það, sem fyrir mér vakir, er að reyna að tryggja þessa eign í höndum þess aðilja, sem hefir aðstöðu til að verja til hennar nauðsynlegu stofnfé, en það álít ég eina möguleikann til þess að geta haldið þessu fólki við þá atvinnu, sem það hefir lifað á. Hitt er alger misskilningur, sem fram kom hjá hv. þm., að hér sé verið að troða á sjálfsbjargarviðleitni manna. (HannJ: Það er ég ekki að segja). Jú, það kom einmitt fram í ræðu þessa hv. þm. Ég skil ekki, hvernig það getur verið brot á sjálfsbjargarviðleitni þessara manna, þó ríkið kaupi þessa eign og geri þeim með því kleift að halda áfram sínum atvinnurekstri þarna.

Það er aðallega tvennt, sem á að vinnast með þessu frv. Annarsvegar að bjarga Bíldudalsbúum beinlínis frá hungurdauða, frá því að lenda í slíkum atvinnuskorti, að þeir verði að flytja staðinn og fara þangað, sem yfirfullt er fyrir af vinnukrafti; hitt er að bjarga þeirri skuld, sem ríkissjóður á þarna og enginn vafi er á, að hægt er að bjarga, því eins og allir kunnugir vita, eru þarna hin glæsilegustu veiðiskilyrði í góðum árum. Hv. þm. benti á, að menn mundu á sama hátt vilja láta ríkið kaupa Eyrarbakka og Stokkseyri, en mér finnst meiri ástæða til, að ríkið kaupi fremur þær eignir, þar sem það á stórar veðskuldir, og það á þeim stað, þar sem eru einhver allra fiskisælustu mið hér við land, eins og hv. 1. þm. Rang. tók fram réttilega.

Það, sem þorpsbúar hafa undanfarið aðallega lifað af, eru tveir línuveiðarar, sem þar hafa verið gerðir út. Nú eru þessir línuveiðarar leigðir burtu, og með því er algerlega kippt fótum undan atvinnuvegi þorpsbúa, en ef ríkið yfirtæki eignina og fengi eignarhald á Holtinu, væri veðskuld ríkisins bjargað og jafnframt gert lífvænlegt fyrir íbúana þar eftirleiðis.

Hæstv. atvmrh. virðist ekki hafa lesið grg. frv. Hann talaði eins og hér væri aðeins um kaup og sölu að ræða. Ég tek það fram í grg., að þetta sé einnig mikið atvinnuspursmál, og það er ekki sízt aðalatriðið fyrir mér. — Ég held, að réttara sé að vísa frv. til allshn. en fjhn., því það er kannske öllu meira avinnumál en fjárhagsmál. Annars geri ég það ekki að neinu kappsmáli. — Að öðru leyti sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið að þessu sinni.