27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (2376)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Sigurður Kristjánsson:

Mér þykir það í raun og veru ekki undarlegt, þó að hér komi fram erindi um hjálparbeiðni frá ýmsum stöðum. Maður hefir heyrt, að hjálpar væri víða þörf. En mér virðist nokkur misskilningur hafa blandazt inn í þetta mál og flutning þess, en hann er sá, hvaðan þessi vandræði stafa. Mér virðist það ríkt í hugum manna, að svo miklu verði bjargað við með eignakaupum. En það er að mínu áliti ekki orsökin til vandræðanna, hvorki á þessum stað né í öðrum sjávarbyggðum, í hverra höndum eignirnar þar eru; því að ég tel alveg rétt, að eignir á hverjum stað séu ekki aðeins heimilar til notkunar þeim, sem gera þær þá um leið arðbærar, heldur mun hverjum eiganda þykja mjög æskilegt, að eignir séu notaðar svo, að þær gefi arð. En það sem veldur því, að gengið hefir saman fyrir þessum stöðum, eru auðvitað aflaleysistímabil, sem gengið hafa yfir. Á þessum stað, eins og svo mörgum öðrum hér á landi, hefir myndazt sjávarútvegur við fiskisælan fjörð. Komið hafa fyrir aflaleysistímabil, en sjaldan eins og nú. Er þá vitanlegt, að saman gengur atvinnuvegur hjá þeim, sem byggja afkomu sína á þessari einu tekjulind, sjónum. Og það gengur því meir og fyrr saman fyrir þessu fólki sem atvinnurekstur þess hefir verið einhæfari. Hitt er náttúrlega ekki víst, að nú sé frekar en áður nema aðeins um tímabil að ræða. En mig undrar ekkert, þótt leitað sé hjálpar hins opinbera til þess að fólk geti komizt af þennan erfiða tíma. En það, hvað ríkið sjálft þarf að kosta til, verður svo að leggja undir álit viti borinna manna, hvort t. d. nauðsynlegt sé, að það fari að taka á sínar herðar stórar eignir, kippa þeim úr höndum þeirra, sem nú eigu eða eignast vildu, og að leggja sjálft í mikinn áhætturekstur. Það virðist nú svo, að ríkið sé farið að færa út sínar kvíar talsvert ógætilega: þannig ef það á að verða atvinnurekandi í landinu, háð árferði og jafnvel duttlungum fólksins, þá gæti farið svo, að það fengi þá skelli, sem það getur ekki staðizt fremur en einstaklingar. Þetta geri ég nú ráð fyrir að verði athugað við meðferð málsins í deildinni. Og ég hefði náttúrlega ekki þess vegna þurft að kveðja mér hljóðs, enda gerði ég það aðallega vegna ýmissa orða í síðari ræðu hv. 9. landsk. Sú ræða var ekki um þetta mál. Hún var níðræða um utanþingsmenn, en í það blandað einkennilegu skilningsleysi á málinu sjálfu.

Ég verð að láta það í ljós, að mig furðar á því, að hæstv. forseti skyldi telja það vitalaust, að slíku færi fram hér í hv. deild. Þessi hv. þm. sagði, að núv. eigendur þessarar eignar hefðu haft frekju til þess að taka að sér þessa eign með þeim skuldum, sem á henni hefðu hvílt. Og seinna sagði hann, að ekkert hefði verið hægt að gera, vegna þess að staðurinn var í þeim greipum, sem hann var í. Þetta er náttúrlega hvorttveggja slagorð. Þegar menn taka að sér eignir, þó að miklar skuldir hvíli á þeim, þá gera þeir það náttúrlega fyrir það, að þeir álíta, að hægt sé að reka eignina þannig, að hún gefi arð. Það þarf kannske áræði til slíks, en það er ekki vant að kalla það frekju. Hitt er ekkert annað en fjarstæða, að ekkert sé hægt að gera af því að eignin sé í þeim höndum, sem hún er nú. Eignin hefir verið alveg opin fyrir sjávarútveginn til notkunar eins og hún hefir verið. Það er bara aðstaða til sjávarútvegsins, sem hefir breytzt.

En hvað snertir tal um þjófnað og brennur, skal ég alls ekki fara út í það mál; það liggur alls ekki fyrir að ræða hér á þingi. En út af því, sem að ríkissjóði sneri, vil ég segja hv. 9. landsk., að hann hefir sjálfur fullkomlega haft sitt úr ríkissjóði, þó að hann aldrei eigi neitt á hættu, hvorki í atvinnurekstri né öðru, sem atvinnurekstur hér á landi hefir byggzt á.

En auk þeirra mjög svo óvenjulegu ummæla hér á þingi, sem ég áðan nefndi, bætti hann því við, að nú hefði fallið skriða yfir þorpið, nefnilega gjaldþrot, sem hafi lagt það í auðn. Út af þessu vil ég segja það, að þeir menn, sem hafa rekið þarna atvinnu, hafa auðvitað strandað nánákvæmlega á því sama, sem fólkið á þessum stað nú með sína afkomu, en það er sú mikla breyting, sem gerðist á aðstöðu til sjávarafla, og skortur á fjárhagsstyrkleik til þess að getu staðið þessa breyt. af sér. En mér er kunnugt, og það er fjölda manna kunnugt, að sá, sem hefir rekið atvinnu þarna síðast, hann hefir barizt fyrir því, að halda uppi ekki einungis sjávarútvegi alveg eins og mögulegt var, en einnig hefir hann barizt fyrir því að útvega verkefni fyrir fólkið. Hann hefir látið flytja fisk langar leiðir að til verkunar o. s. frv. Og ég vil segja, að þótt menn að lokum kikni undir öllu saman eftir að hafa haft hina mestu hugraun og erfiði við að reyna að halda uppi slíkum bjargráðum, þá er það ómaklegt, að þinggikkir séu að bera þá brigzlum fyrir slíka hluti, menn, sem aldrei hafa rétt höndina öðrum til hjálpar nema þá í eigingjörnum tilgangi. Og þessi atkvæðaeltingaleikur hv. þm. réttlætir ekki slík brigzl og að fara með aðra eins fávizku og hann fór með í þessari ræðu sinni.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, því að málið er á því stigi, að það á eftir að athugast. En ég vildi aðeins undirstrika að lokum, að það, sem þarf að gera á þessum stað, það er að sjá fólkinu fyrir atvinnu, svo að það geti lifað. En það er síður en svo eina leiðin til þess, að kaupa þessar eignir. Hitt er heldur, að veita stuðning til þess, að hægt sé að fara inn á nýjar atvinnuleiðir, eins og t. d. ræktun. Eða þá að mönnum gefist kostur á því, með stuðningi þar til, að sækja á fiskimið lengra í burtu en verið hefir.