27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Hannes Jónsson:

Hv. þm. Barð. og hv. 6. landsk. virtust undrast yfir því, að ég væri að sýna andstöðu gegn þessu frv. En þetta er alger misskilningur á því, sem ég hefi sagt, og held ég, að á engan hátt megi finna andstöðu út úr orðum mínum. Hv. 6. landsk. kvað umr. hafa farið út fyrir tilefni frv. og hafa snúizt m. a. um ríkjandi ástand í atvinnuháttum þjóðarinnar. Þetta er einmitt meginkjarninn í því, sem ég sagði og ekki snerist beint um frv. sjálft, að ég taldi þetta frv. ekkert annað en rökrétta afleiðingu af því ástundi, sem ríkir.

Hv. 6. landsk. minntist á, að ýmislegt hefði verið gert fyrir önnur kauptún og ýmsar stofnanir einstakar með ríkisábyrgð og styrk. Þetta er alveg rétt. En þessar styrkveitingar til einstakra fyrirtækja hafa miðað að því að styðja atvinnumöguleika á þessum stöðum, t. d. með frystihúsbyggingum til samvinnufélag, til þess að efla útflutning á frystu kjöti.

Ein höfuðástæðan fyrir því, að ekki hefir tekizt að halda uppi atvinnulífi á þessum stað, er náttúrlega það, að það vantar þau skilyrði, sem nauðsynleg eru til þess að atvinnulíf geti þrifizt.

Hv. 6. landsk. sagði, að það þyrfti að taka hvert kauptún út af fyrir sig og athuga atvinnulíf þess; og þá er að leita að því fyrst og fremst, hvort ekki er til ein sameiginleg allsherjar ástæða fyrir þessu örðugleikaástandi. Ef sú ástæða finnst, mætti ef til vill skapa þessum einstöku heildum fullkomin skilyrði til heilbrigðs atvinnulífs og koma þar með meira jafnvægi á atvinnulíf þjóðarinnar yfirleitt, þó að auðvitað aldrei verði fyrir það byggt, að kannske einstöku staðir með allra verstu skilyrðin fyrir sínum atvinnurekstri dragist aftur úr, eða einstaklingar hver á sínu starfssviði. Enda getur verið, að t. d. atvinnurekstur einstaklinga vanti í einstökum tilfellum hin nauðsynlegustu grundvallarskilyrði, og sé því með öllu dauðadæmdur. Þannig dagar einstaka menn uppi, og á því verður aldrei ráðin bót. En fyrir heildina verður sjálfsagt hægt að finna starfsmöguleika fyrir hverja þessa atvinnugrein fyrir sig í heild.

Þá var það alger misskilningur hjá hv. þm. Barð., að ég álíti, að þetta frv. út af fyrir sig myndi á nokkurn hátt brjóta niður sjálfsbjargarviðleitni einstaklinganna. Það, sem orð mín hnigu að, var að sanna, að ýmsar ráðstafanir í þjóðfélaginu og hjálparstarfsemi hafi snúizt óheppilega mikið inn á þá braut að brjóta niður sjálfsbjargarviðleitni einstaklinganna. Því að ég álít svo bezt komið hag þjóðarinnar, að hver einstaklingur þjóðarinnar finni löngun hjá sér og kraft til að standa undir atvinnurekstrinum og finni leiðir, sem heppilegastar eru til úrlausnar, hver á sínu sviði. En ég vil ekki á neinn hátt ásaka flm. þessa frv. fyrir að leita bjargráða fyrir eitt tiltekið kauptún. Honum er málið mjög nákomið, þar sem hann er fulltrúi þess héraðs, og er ekki nema eðlilegt, að hann geri síðustu tilraun til að reisa úr rústum atvinnulíf á þessum stað, sem aðstaða undanfarinna ára hefir komið því í. En ég vildi benda á þetta til almennrar umhugsunar um það ástand, sem ríkir í atvinnulífi þjóðarinnar. Því að það munu fleiri á eftir koma, sem lent hafa í hinu sama ófremdarástandi. Þess vegna verður að leggja meiri áherzlu á það en gert hefir verið á löggjafarþingi þjóðarinnar, að finna allsherjar meinsemd, sem þjakar, í þeirri von, að hægt sé að finna ráð til þess að leysa vandamálin. Inn á þessa braut á starfsemin að ganga.

Hæstv. atvmrh. taldi — að mér skildist —, að það yrði a. m. k. að rannsaka allrækilega áður en frv. yrði samþ., hvort þetta væri sú eina leið, sem hugsanleg væri til viðreisnar á þessum stað. Ég vil benda n. á og þeim, sem vilja fá lausn á þessu máli vegna héraðsmanna sjálfra nú — en ekki af öðrum uppdiktuðum ástæðum gegnum starf n. og í sambandi við aðra menn, sem kunna að hafa miklar „interessur“ í að þetta fái sæmilega lausn hér á þingi, að reyna að finna leið, sem tiltækilegust yrði til þess að greiða þarna úr, þó að ekki yrði endilega á þeim grundvelli, að ríkið keypti þessa eign. Það er ekkert úrlausnaratriði, að yfirfæra eignir frá einum til annars, heldur ber að stefna að því að skapa einhver þau skilyrði, sem atvinnureksturinn gæti búið við. Og ég get ekki séð, að ríkisvaldinu ætti að vera það nokkurn hlut ógeðfelldara að leggja fram einhvern slíkan stuðning, þótt það tæki ekki að sér þessa eign. Það hefir verið minnzt á það meðal annars, að mikil þörf væri að koma upp frystihúsi þarna. Eins og ríkisvaldið hefir stutt einstök samvinnufélög í landinu til að koma upp þessum frystihúsum til að styðja að útflutningi á frosnu kjöti, eins mundi það líka að sjálfsögðu hafa skilning á, að hinn aðalatvinnuvegur þjóðarinnar hafi líka mikla þörf á að fá slíkar umbætur til þess að auka og bæta sín skilyrði á ýmsum stöðum. Og það er ástæða til að taka þetta mál til rækilegrar yfirvegunar nú í sambandi við sjávarútveginn, þar sem sú stórfellda bylting er sýnilega fyrir hendi að yfirgefa meir og meir þær verkunaraðferðir, sem hafa verið ríkjandi hingað til, og hverfa að frystingu og útflutningi nýs fiskjar, — þó að það yrði nú kannske ekki á þessum stað. En það er áreiðanlega þess vert að athuga rækilega, hvort ekki mætti finna möguleika atvinnulífsins einmitt á þessum grundvelli.

Ég skal svo ekki tefja þetta mál frekar. Ég mun að sjálfsögðu fylgja því til n., og áfram, ef þetta er eina lausnin til að bjarga þessum stað, þar sem hv. þm. Barð. sagði, að bjarga þyrfti fólki frá hungurdauða og bjarga ríkissjóði frá að tapa fé. Ég álít það nú hreinasta aukaatriði, hvort ríkissjóður getur tekið þær 30 þús. kr., sem hann á þarna, eða ekki. Aðalatriðið er það, að atvinnuvegirnir geti notið góðs af því, sem þarna er. Og það er kannske ástæða til að gefa ekki einungis eftir þessar 30 þús., sem þarna eru bundnar, heldur bæta öðrum 30 við, til þess að atvinnuskilyrði gætu útvíkkað og orðið til lífsframfærslu.

Ég skal svo aðeins að lokum segja það við hv. 9. landsk., að hann kom lítið inn á það, sem ég hefi talað um málið. Það var mest hálfgerður skætingur, sem ég get látið mér í léttu rúmi liggja. Hann talaði um „Hannesarvit“ og að gera sig að flóni og þess háttar. En útvarpsklerknum háttv. er svo eiginlegt að flétta illyrðum inn í ræður sínar, og þegar hann er kominn í rökþrot. um mál, þá flýr hann inn á þennan bardagagrundvöll, sem ég trúi ekki, að verði honum sigursæll í framtíðinni, þó að undarlega vel fljóti hann á sínum stráksskap hingað til. En vera má, að honum verði fótaskortur á þeim hála vettvangi; mundu fáir harma, þó að svo færi, þó að honum þætti sjálfum eitthvert mein að. En ég vil ekki fara í neitt skítkast við hann í þessu sambandi, og færi honum það til vorkunnar, að hann hefir ekki séð sér fært að ræða þær höfuðástæður, sem eru fyrir þessu ástandi þarna á Bíldudal, og ef til vill kveinki sér fyrir þeirri ábyrgð, sem hann m. a. ber á því, að svo er komið fyrir atvinnuvegum þjóðarinnar.