28.02.1936
Neðri deild: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2379)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Flm. (Bergur Jónsson):

Ég skal ekki verða langorður að þessu sinni. Ég vil benda á það, að það má alveg eins líta á þetta mál sem hagsmunamál ríkissjóðs eins og hagsmunamál Bíldudalsbúa. Það er kunnugt, að ríkið á 30 þús. kr. veðkröfu í þessari eign, og eina leiðin til þess að tryggja þá peninga er sú, að ríkið taki í sínar hendur þessa eign og gangi þannig frá henni, að tryggðir séu atvinnumöguleikar þeirra, sem þurfa að nota eignina, og að hún þannig geti skilað hæfilegum arði af þeim peningum, sem ríkið á þar bundna.

Ég býst við, að hægt sé að benda á ýmsar eðlilegar leiðir til þess að bjarga þessu þorpi, sem í atvinnulegu tilliti er komið í hið mesta öngþveiti. Það hefir verið á það bent, að koma mætti á sementsgerð hér á landi. Til þess iðnaðar þarf kalk, og það er hægt að fá í Arnarfirði eins gott og annarsstaðar. Gæti það orðið Arnfirðingum nokkur atvinnubót. Sömuleiðis benti hv. þm. V.Húnv. á það, að ríkið hefir veitt styrk til frystihúsa víðsvegar á landinu, og það er ekki síður ástæða til að veita slíkan styrk til frystihúss á Bíldudal en annarsstaðar. Þá vil ég minna á það, að hv. 1. þm. Rang., sem er einn af bankastjórum Útvegsbankans, gat þess, að bankinn mundi fúsari til en ella að leggja fé í nauðsynlegustu endurbætur á eigninni, ef ríkið eignaðist hana. — Þá vil ég ekki sízt þakka hv. 6. landsk., sem yndi fram á það, hve mikið ríkið hefði gert að því að styrkja ýmsa aðra staði á landinu og eflt þeirra atvinnu, en í því efni hefði enn sem komið er verið gengið framhjá Bíldudal. Fyrir þetta og allt það, sem af skilningi og velvild hefir verið sagt um málið, vil ég leyfa mér að þakka.