28.02.1936
Neðri deild: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2380)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Sigurður Einarsson:

Ég skal aðeins með nokkrum orðum svara hv. 6. þm. Reykv., en það er nokkuð einhliða aðstaða til málsins, sem bæði hann og aðrir, sem talað hafa gegn því, hafa valið sér hér í hv. d. Þeir eru alltaf að heimta nánari rök fyrir því, að nauðsyn beri til að hefjast handa. En þegar svo þeir, sem tala fyrir málinu, hafa neyðzt til að fara nokkuð ger út í einstök atriði þess en átt hefði að þurfa, þá rísa þeir upp með hinni mestu vandlætingu og áfellast stuðningsmenn málsins fyrir ruddalega og óþinglega framkomu. Í þessari framkomu þeirra endurtekur sig gamla sagan, að þessir menn finna hjá sér köllun til að þvælast fyrir þörfum málum, annaðhvort fyrir skilningsleysi eða þá af því, að þeir vilja beinlínis eyðileggja málin. Alveg af sama toga er spunnin framkoma hv. þm. V.-Húnv. hér í hv. d. Ég mun aldrei kippa mér upp við það, þó hann eða samstarfsmenn hans í Bændafl. eða Íhaldsfl. geri árásir á mig hér í deildinni fyrir fylgi mitt við þörf mál. Ég hefi orðið fyrir því sæmilega hlutskipti að vera bitbein Íhaldsfl. og hans fylgifiska í mörg ár, og er ekki farinn að kippa mér neitt sérstaklega upp við það. — Annars vil ég segja það, að ég ætla, að þessar umr. hafi leitt það fullkomlega í ljós, að hér er um svo brýna þörf að ræða fyrir íbúa þessa héraðs, að við því verður ekki skellt skolleyrum, a. m. k. ekki ef sami réttur á að gilda fyrir íbúa þessa héraðs eins og annara héraða. Eins og einn hv. þm. benti hér á í gær með tilvitnunum til landsreikninganna, þá hefir í tugum tilfella verið veitt samskonar hjálp eins og sú, sem hér er farið fram á, til ýmsra bæjarfélaga og einstakra fyrirtækja.

Það er ekki ástæða fyrir mig að hafa þessa aths. lengri. Mér gefst tækifæri til þess að gera grein fyrir ýmsu þessu viðkomandi, þegar þáltill. mín um athugun á atvinnumöguleikum á Bíldudal kemur til umr. hér í deildinni.