28.02.1936
Neðri deild: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2387)

41. mál, dómkirkjan í Reykjavík o.fl.

*Flm. (Pétur Halldórsson):

Hv. þdm. kannast við þetta frv. frá síðasta þingi, og hefir því í engu verið breytt. Það kom ekki til d. aftur frá allshn. á síðasta þingi og náði því ekki afgreiðslu.

Ég þarf ekki að fara mjög mörgum orðum um þetta frv., en aðeins minna á aðaltilgang þess, sem er sá, að gefa dómkirkjusöfnuðinum í Reykjavík kost á að taka í sínar hendur kirkjumálin í bænum. Með þessu frv., ef að l. yrði, er gerð fyrsta nauðsynlegasta ráðstöfunin til þess að dómkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík geti notið þeirra starfskrafta, sem hann hefir á að skipa, til þess að vinna að kirkjunnar málum hér í bænum, svo sem þessi söfnuður óskar að gera. Þetta er mjög kostnaðarlítið fyrir ríkissjóð, eins og sjá má af frv., og er farið vægilega í það að íþyngja ríkissjóði í því skyni að fá þessa samninga við ríkisvaldið. Það er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði 10 þús. kr. á ári í 30 ár með dómkirkjunni, en losni um leið við skylduna til þess að sjá Reykjavík fyrir nýjum kirkjum. Það mun öllum vera ljóst, að bráðlega er aðkallandi að gera á þessum málum breytingar; það verður ekki lengi hægt að una við þann aðbúnað, sem dómkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík hefir frá ríkisvaldinu, með þessari einu kirkju, sem hér er. Og það er aðkallandi að gera á þessu þær breyt., sem fyrst og fremst stefna í þá átt að gera safnaðarfólkinu sjálfu mögulegt að taka þessi mál í sínar hendur. Sú býðst það til þess með þessu frv., sem hér er flutt, að taka að sér skylduna um að sjá fyrir kirkjuhúsum, og mér finnst það stóra atriði sé svo mikilsvert fyrir Alþ. og ríkisvald, að það verði að láta fara fram athugun á þessu þingi, hvort þessi lausn málsins sé ekki einmitt sú heppilegasta og bezta fyrir ríkissjóð og einnig fyrir yfirstjórn kirkjumálanna.

Það er ekki svo, að hér sé gert ráð fyrir, að Reykvíkingum sé á nokkurn hátt veitt meira með þessu heldur en þeir eiga fullkomna siðferðislega og fjárhagslega kröfu til í þessu efni. Ef hv. þdm. vildu kynna sér fyrirlestur, sem herra biskupinn hélt í vetur fyrir dómkirkjusöfnuðinum, þá kemur í ljós, að eins og er leggur dómkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík nokkuð mikið fé á ári hverju, til að launa presta annarsstaðar á landinu, í prestlaunasjóð. Þetta er því ekki krafa, sem segja má, að fari fram úr því, sem söfnuðurinn eigi fullkomlega rétt á í þessu efni. En fyrsta aðalatriðið er þó það, að koma á þeirri skipun þessara mála, að söfnuðurinn sjálfur geti tekið í sínar hendur þau mál, sem eðlilegast er, að hvíli í höndum safnaðarins, nefnilega kirkjubyggingarnar. Ég þykist viss um, að hv. þm. muni vera það ljóst, að til frambúðar er ekki hægt að búa svo að kirkjumálum Reykjavíkur eins og nú er gert af hálfu ríkisvaldsins. Og það er ekki heldur viturlegt, því ég er sannfærður um það, að engin ráðstöfun gæti verið betri fyrir ríkisvaldið til þess að tryggja framtíð þessa þjóðfélags heldur en að búa vel að nauðsynjamálum kirkjunnar. Ég vil ekki segja, að það sé óhugsandi að gera á þessu frv. einhverjar breyt. Það er ekki nauðsynlegt, að málið gangi fram nákvæmlega eins og það er flutt. Aðalatriðið er, að það finnist milli ríkisvaldsins og safnaðarins fyrirkomulag á því, að kraftar þeir, sem í söfnuðinum eru, fái að taka að sér málefni safnaðarins, fyrst og fremst um byggingu nýrra kirkna, og að þessu máli verði þokað áleiðis á þessu þingi. Það getur ekki þolað mikla bið, með öðru móti en því, að kristnihald í þessum bæ bíði mikið tjón af. Og það er ég sannfærður um, að það er bezta ráðstöfunin, sem Alþ. getur gert fyrir þetta þjóðfélag siðferðislega, að stuðla að því, að svo sé búið að kristindómamálunum í Reykjavík, að það geti haft rétt og góð áhrif út um þetta land frá höfuðstað landsins, eins og er um allt það, sem hér fer fram í Reykjavík, að það hefir áhrif víðsvegar úti um landið. Þess vegna held ég, að hv. þdm. ættu að veita þessu frv. fylgi sitt og sýna því vinsemd í meðferð þess hér í d.

Þetta mál var hjá allshn. í fyrra, og líklega er það rétti staðurinn að vísa því til. En ég verð að segja það, að mér þykir eiginlega fyrir því að þurfa að vísa slíku máli sem þessu til þeirrar hálfgerðu ruslakistu, sem sú n. er, en þar sem ég hefi ekki aðra till. að gera í þessu efni, þá verð ég víst að sætta mig við allshn.