15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2404)

44. mál, kosningar til Alþingis

*Jörundur Brynjólfsson:

Þetta mál er búið að vera hér alllengi til meðferðar. Ég hefi leyft mér að flytja brtt. við það, allmiklar að fyrirferð, en þó einfaldar. Snerta þær raunar aðeins eitt atriði í kosningalögunum, og það er, eins og hv. þm. hafa vafalaust kynnt sér, að hafa raðaðan landslista í stað þess fyrirkomulags, sem nú gildir um skipun uppbótarsætanna. Á þann hátt hygg ég, að betur sé séð fyrir kosningunum og menn renni ekki eins blint í sjóinn með það, hverjir hljóta þingsæti og hverjir ekki. N. sú, er undirbjó kosningalögin, hafði einmitt þessi ákvæði svipuð því, sem hér er lagt til. En í meðferð þingsins breyttist þetta og var tekinn upp sá hátturinn, sem nú er í gildandi l., og ég hygg, að muni gefast því verr, því lengur sem hann stendur. Ég hefi verið að leita fyrir mér um það, hvern hug þeir menn, er allshn. skipa, bera til þessara till. Er mér eigi ljóst, hver afstaða flokkanna kann að vera til málsins, en ég hygg, að það sé í alla staði haganlegt að taka nú upp þessa skipun á kosningum til Alþingis. Það kann að vera, að mönnum þyki að einhverju leyti erfiðara að taka þessa aðferð upp nú heldur en ef það hefði verið gert þegar í upphafi. En sé svo, að menn að einhverju leyti kveinki sér við að koma þessari breyt. á, þá mun það verða því verra, sem núgildandi aðferð er lengur viðhöfð. Og víst er um það, að af hálfu flokkanna, sem að kosningalögunum stóðu, ekki sízt af hálfu jafnaðarmanna, var því haldið mjög stranglega fram að hafa raðaða landslista. Má m. a. marka það nokkuð af afstöðu fyrrv. form. Sjálfstfl., að honum þótti svo mikið fyrir því, að þetta var ekki haft eins og n. vildi, að honum þótti ekki við það hlítandi. Hygg ég, að hann hafi verið þar framsýnn, og aðrir, sem voru á líkri skoðun, og því sé það því betur, sem þessu er fyrr kippt í lag. — Þar sem brtt. mínar eru aðeins um þetta eina atriði og svo einfaldar sem þær eru, sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Menn verða að sýna það við atkvgr., hvernig þeir snúast við þeim. En ekki veldur sá, er varar, þó verr fari. Hygg ég, að það sé mála sannast, að sá óskapnaður geti af því hlotizt, ef þessi löggjöf stendur óbreytt, að menn sjái eftir því að hafa ekki lagfært hana í tíma.

Annars verður eigi af minni hálfu haldið uppi miklum umr. um þetta atriði, því það er ofur einfalt og menn geta sýnt við atkvgr., hvaða skoðun menn hafa á því.