15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2410)

44. mál, kosningar til Alþingis

*Hannes Jónsson:

Það er nú fokið í flest skjól fyrir hv. 1. þm. Árn., þegar hann ætlar að bera fyrir sig skjöld eins og hv. 2. landsk., Magnús Torfason, og tilveru hans hér á þingi. Hann veit það vel, hv. þm., að um það eitt var deilt, hvort flokkurinn ætti sætið, sem um var að ræða, og hver skilningur manna á l. væri í þessu efni. Það varð vitanlega að ráða úrslitum. Sá maður, sem átti það sæti, var ekki valinn af miðstj. flokksins, heldur hefir hann hlotið sína aðstöðu sem varamaður á landslista fyrir sitt mikla fylgi í sínu kjördæmi. Það átti að ráða úrslitum. Ég fer ekki að rekja þær ástæður, sem við færðum fram aðrar fyrir því, að Magnús ætti að víkja af þingi, þegar hann var búinn að segja sig úr Bændafl. Það kemur í sjálfu sér ekki þessu máli við. Ég þarf ekki að svara þessu neitt frekar, tel þetta vera nokkurskonar uppgjöf hjá hv. frsm. við að færa rök fyrir því að breyta þessu í það horf, sem hann vill vera láta. Og ef til vill eru í einhverjum fylgsnum samvizku hans mótmæli gegn því, sem hann er að tala fyrir, að einhverju leyti kannske fyrir tilverknað annara frekar en sinn eiginn áhuga, — þegar hann talar fyrir meira flokksveldi í landinu, meiri yfirráð miðstjórna og meiri kúgun á Alþingi. Ég býst ekki við, að þetta sé skoðun hans sjálfs, heldur miklu fremur, að honum sé teflt fram á borðið af öðrum öflum, sem hann getur ekki á móti risið.