03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (2423)

48. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Þetta er í þriðja sinnið, sem við samflm. flytjum þetta mál í þessari hv. deild; það má um það segja, að góð mál og merkileg eiga oft erfitt uppdráttar áður en þau ná samþykkt, en við væntum þess samt, að umbætur þær á fiskveiðasjóði, sem hér er farið fram á, nái fram að ganga, hvort sem það verður á þessu þingi eða seinna, því að það liggur í eðli málsins, að það hlýtur að ná fram að ganga fyrr eða síður. Í rauninni var þetta ekki nýtt mál, þegar við fluttum það á þinginu 1934, því að efni og stefnu til er þetta frv. alveg það sama og gildandi lög um fiskveiðasjóð, en þau lög eru, eins og kunnugt er, frá 1930. Með þeim lögum átti að efla fiskveiðasjóð þannig, að hann yrði fullnægjandi stofnlána-lánsstofnun fyrir sjávarútveginn; að þessu niði var horfið, þegar ákveðið var, að Útvegsbankinn, sem steyptur var upp úr Íslandsbanka, skyldi fyrst og fremst sjá útgerðinni fyrir rekstrarlánum. Það er bersýnilegt af lögunum frá 1930, að tilgangurinn í þessum efnum er sá, að fiskveiðasjóður verði ekki aðeins notaður til stofnlánastarfsemi, heldur verði einnig svo öflugur, að hann geti fullnægt þörf fiskiflotans í þessu efni, því að sjóðnum er ætlað að eflast svo, að hann verði áður en mjög langt um líður 8 millj. króna sjóður að eignarfé, auk þess sem honum er heimilt að nota nokkuð af lánsfé. eða 1½ millj. kr., sem hann á að afla með því að gefa út vaxtabréf. Það hefir tekizt svo illa til, að lög þessi hafa alls ekki verið framkvæmd nema að nokkru leyti og það verður ekki annað sagt en að þessari háu samkomu hafi farið aftur síðan 1930, þar sem það hefir fyrst og fremst verið látið afskiptalaust af hinu háa Alþingi, að lög þessi hafa ekki verið framkvæmd nema að tiltölulega mjög litlu leyti, og jafnvel verið brotin í sumum greinum, en till. til bóta í þessu efni hafa enga áheyrn fengið. Því er ekki að leyna, að þessi meðferð hefir verið á ábyrgð þeirra, flokka, sem styðja núv. hæstv. ríkisstj., og þessi tregða við slíkt umbótamál sem þetta ber vott um undarlega mikla þröngsýni, og sérstaklega er það athugavert, að í framkomunni við fiskveiðasjóð hefir átt sér stað mikil afturför hjá þessum flokkum, og minnir það einna helzt á elliglöp, sem að skaðlausu mætti leiða til þess, að þessi rotni hugsunarháttur gengi til grafar og annar heilbrigðari og tímabærari kæmi í staðinn. Með lögunum frá 1930 eru hinum nýju fiskveiðasjóði afhentar eignir gamla fiskveiðasjóðsins, en síðan er honum tilskilin 1 millj. króna frá ríkissjóði til eflingar stofnfé sínu. Í lögunum er mælt svo fyrir, að þessi upphæð skuli greiðast eftir samkomulagi við stjórn sjóðsins, og skuli hún vera greidd að fullu innan 10 ára, eða fyrir 1. júní 1941. Með reglugerð, sem gefin var út, var því svo slegið föstu, að ríkissjóður skyldi greiða sjóðnum 100 þús. kr., þannig að greiðslunni verði lokið að fullu fyrir 1. júní 1941. Þetta hefir ekki verið framkvæmt, og ef fyrirmælum þessarar reglugerðar hefði verið framfylgt, þá ætti sjóðurinn að vera búinn að fá 500 þús. kr. úr ríkissjóði nú á þessa ári; sjóðurinn á því um ½ millj. króna, sem fallnar eru í gjalddaga, hjá ríkissjóði, og verð ég að láta undrun mína í ljós yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa leyft sér að halda þessu fé fyrir sjóðnum, og ekki er það síður undarlegt, að stjórn sjóðsins skuli hafa þolað slíkt fyrir sjóðsins hönd.

Þá er sjóðnum með lögunum frá 1930 áskilinn hundraðshluti af útfluttum fiski, og skyldi það síðar ákveðið með lögum. Það er ekki hægt að sjá, hvort þetta hundraðsgjald átti að vera nýtt útflutningsgjald á fiskinum eða það átti að vera partur af þáv. útflutningsgjaldi. Seinna ákvað þingið svo, hvernig þetta skyldi vera, og var ákveðið, að það skyldi vera nýtt gjald, 1/8 Af þessu er það sýnilegt, að þá þegar var farin að kólna umhyggjan fyrir þessum sjóði, því að þetta gjald hefði orðið ákaflega lítið að krónutali, og hefði sjóðurinn ekki eflzt mikið fyrir þær aðgerðir.

Eins og áður er tekið fram, er sjóðnum heimilt að gefa út vaxtabréf að upphæð 1½ millj. króna, og er gert ráð fyrir, að ríkissjóður taki lán til þess að kaupa bréfin. Þetta hefir aldrei verið framkvæmt. Sjóðurinn hefir því í rauninni staðið uppi jafnfévana og í upphafi, og til þess að menn geti glöggvað sig á því, hvernig tekjur sjóðsins hafa verið, skal ég nefna tölur, sem ekki eru margar. Tekjurnar hafa eiginlega engar verið aðrar en 1/8% útflutningsgjald, og hefir sú, upphæð numið tæpum 50 þús. kr., sem fer svo náttúrlega lækkandi, eftir því sem verðmæti útfluttra sjávarafurða lækkar í verði. Þetta eru í raun og veru allar tekjur sjóðsins fyrir utan þann tekjuafgang, sem hann fær árlega af útlánum, en sá tekjuafgangur hefir verið sáralítill. Hann var 1934 svipaður og tekjur af útflutningsgjaldinu, eða rúmar 48 þús. kr. Þegar tekið er tillit til þess, hve þessar tekjur eru litlar, þá er það bersýnilegt, að sjóðurinn varð, til þess að geta rekið nokkra lánastarfsemi að ráði, að afla sér fjár á annan hátt, og tók hann því að láni í Danmörku 1½ millj. kr. sem þá voru í íslenzkum krónum, eða 1½ millj. danskra króna, og með þessu fé hefir sjóðurinn starfað. Lán þetta kostaði 5½% fyrir utan kostnaðinn, og af því geta menn séð, hve mikil skilyrði sjóðurinn hefir haft til þess að veita hagkvæm lán, enda hefir þessi eini sjóður, sem starfað hefir til styrktar sjávarútveginum og hefir reynt að veita lán, bæði til byggingar á skipum og stöðvum, orðið að veita lán með þeim kjörum, sem nú skal sagt frá. Fyrst og fremst hefir hann orðið að taka 6% í vexti, síðan ¼% í sérstakan sjóð og loks í þriðja lagi 1% af upphæðinni allri í eitt skipti; m. ö. o. hefir þessi sjóður, sem að sjálfsögðu á að vera mjög vandur að veði og öllum tryggingum, lánað með vöxtum, sem mega teljast í allra dýrustu röð lána hér á landi. Þetta er náttúrlega alveg óviðunandi. Það var upphaflega meiningin, að þessi sjóður starfaði sem mest með eigin fé, til þess að hann gæti lánað fé með bærilegum kjörum, en það eru ekki bærileg kjör á lánum gegn verulega tryggum veðum, ef þau fara fram úr 5%, og ef vel ætti að vera, mættu þau ekki fara fram úr 4%. Ofan á þetta bætist svo það, að útlánsvextir sjóðsins eru alltaf teknir sem forvextir, þ. e. menn verða að borga þá fyrirfram. Um það verður auðvitað ekki deilt, að lánskjör sjóðsins eru óviðunandi fyrir sjávarútveginn, en þau geta ekki verið betri, miðað við þá aðbúð, sem sjóðurinn hefir átt.

Næst kem ég svo að því atriði, að sjóðurinn á, sökum fjárskorts, ómögulegt með að fullnægja því hlutverki sínu að endurnýja fiskiskipastól landsmanna. Það er fróðlegt að athuga, hvernig þessu litla fé sjóðsins hefir verið varið. Hann hefir, eins og áður er tekið fram, haft eignir gamla fiskveiðasjóðsins og svo 1¼ millj. danskra kr. til umráða. Þetta fé hefir sjóðurinn svo lánað á þann hátt að allmiklu leyti, að það hafa verið færð yfir á hann gömul lán, bæði út á skip og út á svokölluð iðnfyrirtæki. Það má rannsaka það síðar meir, hversu heilbrigt það var að nota þetta litla fé á þennan hátt, en það liggur ekki fyrir nú að tala um það, en það eitt get ég sagt, að tekjur og gjöld sjóðsins standa þannig af sér, að þótt sjóðurinn lánaði ekki eyri meir næsta ár til jafnaðar en hann hefir lánað undanfarin ár, þá mundi hann vera upp étinn eftir 1½ ár, svo að ekki væri til eyrir eftir í honum, og hefir sjóðurinn þá ekki komið nálægt því að fullnægja þeim tilgangi sínum að veita stofnlán til útgerðarinnar, skipa og iðnfyrirtækja, sem útgerðin þarfnast.

Skal ég svo láta þetta nægja um það atriði, hvernig farið hefir verið með fiskveiðasjóð undanfarið. Ég skal aðeins bæta því við, að fjárhagur sjóðsins er, að því leyti til hvernig fé hans er tryggt, mjög góður, eftir því sem ég bezt veit, því að ég held, að annaðhvort lítið eða alls ekkert hafi tapazt hjá sjóðnum, og eftir því, sem ég hefi kynnt mér lánin og reglurnar fyrir þeim, þá þori ég að fullyrða, að það eru mjög litlar líkur til þess, að hann tapi af þeim lánum, sem hann á útistandandi, en sjóðurinn er bara stórkostlega févana.

Um efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, skal ég segja það, að meiningin með því er, eins og hv. þm. hlýtur að vera orðið kunnugt, að fiskveiðasjóður eflist svo, að hann geti fyrst og fremst starfað eingöngu með eigin fé, eða að mestu leyti a. m. k., og í öðru lagi, að hann verði þess megnugur að endurnýja skipastól landsmanna, bæði smærri og stærri skip. Það er gert ráð fyrir, að sjóðnum verði fyrst og fremst fengin sú milljón króna, sem hann á inni hjá ríkissjóði, og í öðru lagi, að hann fái annaðhvort helming þess útflutningsgjalds, sem nú hvílir á sjávarafurðum, eða ef það verður afnumið með lögum, sem ég vona að verði innan skamms, þá hljóti hann nýtt útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem nemi helming þess útflutningsgjalds, sem nú hvílir á þeim. Með þessum tekjum er ætlazt til, að sjóðurinn geti á tiltölulega ekki mjög löngum tíma eflzt svo, að hans eigið fé verði um 12 millj. kr., og þá á hann eftir ekki mörg ár betra með að endurnýja stórútgerðina, endurnýja bátaútveginn jafnt og stöðugt, og svo innan skamms tíma á hann einnig að taka að sér stærri skip, svo að Íslendingar þurfi ekki að leita dýrra lána erlendis til þess að halda við skipastól landsins, sem stendur nú undir tiltölulega mjög miklum hluta þjóðarinnar hvað lífsafkomu snertir.

Ég skal geta þess í þessu sambandi og út af þeim 2 frv. um fiskveiðasjóð, sem borin hafa verið fram hér í hv. d. og nú eru komin til sjútvn., að þau frv. annarsvegar og þetta frv. hinsvegar skilur náttúrlegu mikið. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að sjóðurinn eflist og starfi með eigin fé, en í hinum frv. er gert ráð fyrir, að sjóðurinn starfi með lánsfé. Af því leiðir, að ef þau frv. ná fram að ganga, eða annaðhvort þeirra. þá getur sjóðurinn aldrei lánað út nein lán með viðunandi kjörum. Því að það er ómögulegt fyrir sjóðinn, ef hann á að lifa framvegis eingöngu á lánsfé, að lána út með viðunandi lánakjörum. En ef hann er efldur á þann hátt, sem farið er fram á í þessu frv., þá ætti hann að geta lánað með a. m. k. 11½% lægri vöxtum. Og það ætti að vera mark og mið sjóðsins í framtíðinni að geta lánað út gegn 4% vöxtum. Hinsvegar teljum við flm. ekki annað hlýða en að sjóðurinn hafi skynsamlegar reglur fyrir sínum útlánum að því leyti, að þau séu vel tryggð. Að sönnu höfum við breytt þessu frv. í þá átt, að lánað verði dálítið rífar en gert var ráð fyrir í frv. í fyrra, að aukatryggingarlaust megi lána út á skip sem svari 50% af virðingarverði, og með aukatryggingu sem svari 60% af virðingarverði. Og ennfremur er tekið upp það nýmæli, að lána megi út á skip, sem byggð eru innanlands, sem svari allt að 70% af virðingarverði þeirra. En svipað efnisatriði er í öðru frv., sem ég gat um og er í sjútvn. Þar er gert ráð fyrir, að lána megi til skipasmíða sem svari 25% af virðingarverði skipa, sem smíðuð eru innanlands fyrir landsmenn. Í því frv. er þetta lagt til, til þess að menn geti, auk þess sem þeir fá lán út á skipin sem veð, fengið lán, þannig að skipasmiðir fái lán úr fiskveiðasjóði og láni þau einnig skipaeigendum, sem kaupa skipin af þeim, og geti þessi lán numið 25% af virðingarverði skipanna. En þetta á að vera í lengsta lagi til 6 ára. En með því móti yrðu lánin allt of þung, ef ætti að borga þau á svo stuttum tíma. Og skilst okkur, sem flytjum þetta frv., að það mundi verða, einfaldara og réttara að setja það í 1., að lána mætti út á skipin sem svaraði allt að 70% af virðingarverði þeirra, ef þau eru byggð innanlands. Ef til vill má telja þetta nokkuð djarft lánað út á jafnforgengilegan hlut og skip. En þess er að gæta, að þetta er miðað við það, að sjóðurinn eigi allt það fé, sem hann starfar með. Ef hann á allt féð sjálfur, þá má hann frekar við smáskakkaföllum heldur en ef hann starfar með lánsfé. Því verður ekki neitað, að það er allmikils virði, að hægt sé að byggja sem mest af skipum þeim, sem landsmenn þurfa að nota, innanlands. Og þessu er einmitt ætlað að styðja að því, að veita svona rífleg lán til kaupa á skipum, sem byggð eru innanlands. Hinsvegar er ekki hægt að neita því, að ef skipasmiðir ættu fyrst að taka lán og síðan lána þau kaupendum skipanna, þá er hætt við, að skipasmiðir mundu færa verð skipanna eitthvað fram, til þess að mæta þeirri áhættu, sem þeir með þessum lánum tækju á sig, sem svo aftur yrði til þess að íþyngja skipakaupendum, sem eiga að afplána lánin.

Sé ég ekki ástæðu til að láta frv. fylgja lengri eða meiri fyrirbænir. Það á eftir að fara til n. og athugast jafnhliða hinum frv. Við, sem vorum í sjútvn. í fyrra og höfðum þá þessi þrjú frv. til athugunar næstum í sama formi og þau eru nú í, tókum það ráð þá, að við sendum þau öll til stjórnar fiskveiðasjóðs og báðum hana um álit og till. um þau. Þær till. og álit hafa ekki borizt n. enn. En ég vænti nú fastlega, að sjóðsstjórnin geti svar. Því að það mætti teljast ákaflega einkennilegt, ef stjórn sjóðsins, sem er stjórn Útvegsbankans, — en vitanlegt er, að sú stofnun hefir mikil hlunnindi af sjóðnum — ef sú stjórn hefir ekkert um það að segja, hvernig l. um sjóðinn eru. Það má heita merkilega einkennilegt, et stjórn sjóðs, sem ekki hefir óþarfara takmark en þessi sjóður, lætur sig engu skipta, hvort sjóðurinn er aukinn og efldur eða ekki aukinn né efldur, eða kannske jafnvel rýrður og settur í fullkominn háska. Ég vil hinsvegar mega vænta þess, að sjóðsstjórnin sjái nauðsyn þessarar stofnunar og sýni það í því að gefa rökstutt álit og till. um þessi frv., sem gæti orðið mikill styrkur fyrir sjútvn. og þessa hv. d. að fara eftir.

Vil ég svo að lokum leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.