05.03.1936
Neðri deild: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2430)

52. mál, skipun prestakalla

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég held nærri því, að ég hafi ekki gert mér eins ljósa hugmynd um það og skyldi, hver nauðsyn er á því að hafa presta hjá sumum mönnum alltaf, til þess að þeir yrðu teknir til skrifta a. m. k. einu sinni á dag, ef það mætti verða þeim til sálubótar. (GSv: Er það meiningin, að hv. þm. ætli nú að fara að spila prest?). Ónei, ekki er það, en ég vildi aðeins benda hv. þm. á, hvað heyrir prestsstörfum til, þegar mikil nauðsyn er á, sem nú.

Hv. þm. V.-Sk. minntist á vangá, sem mþn. í launamálum hafði orðið á og ég skal viðurkenna, er hún byggði á því, að tvær messur færu fram í útvarpinu á helgum dögum. Þetta á sér að vísu ekki stað alla helga daga, en þó allténd suma helga daga. Út af þessu hefir svo hv. þm. gerzt mjög gamansamur og viljað þá gjarnan koma því á hendur okkar, að í þessu máli kenni fáfræði og fávizku, og þykist hann með þessu hafa fundið orðum sínum stað. Ég gæti náttúrlega goldið hv. þm. í sömu mynt og bent t. d. á ræðu, sem hann hélt hér fyrir nokkru og snerti að vísu ekki málefni, er hann ætti að dæma um, en var þó þannig vaxið, að hann sem dómari hefði getað þurft að dæma í því. Þar sýndi hv. þm. þann skilning, sem enginn leikmaður, sem kominn er til vits og ára og þekkir þau ákvæði, sem um er að ræða, hefði látið sér til hugar koma, hvað þá maður, sem búinn er að stunda sérfræðinám í 6 ár. (GSv: Hvað var þetta?). Það var viðvíkjandi framkvæmd kosningal. í þessu landi.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að ég mætti gjarnan taka sig til fyrirmyndar í þessu máli. Ég get lýst yfir því, að ég vil ætíð taka mér hverja þá fyrirmynd, sem til góðs má verða, og þegar hv. þm. sýnir í einhverju það, sem ég teldi til eftirbreytni, þá mun ég taka mér hann að fordæmi.

Hv. þm. sagðist hafa haft talsverð afskipti af þessu máli, og er það misskilningur, ef hann heldur, að ég hafi deilt á hann fyrir það. En hann sagðist hafa skipt um skoðun síðan hann fór að hafa afskipti af málinu, og er það þýðingarmesta atriðið. Skyldi það hafa verið af því, að hann byggði á of mikilli þekkingu í upphafi? — Má því vera, að hann eigi eftir að skipta enn um skoðun. Því get ég ekki annað en litið krítískum augum á afstöðu hans til málsins, áður en ég tek hann mér til fyrirmyndar. Hann fær mér það væntanlega til vorkunnar, þar sem fordæmið er á þá lund, sem kunnugt er orðið.

Hv. þm. segir, að engar sannanir séu fyrir því, að breyt. þessi sé til bóta fyrir kirkjulíf og störf presta. Þarna stöndum við báðir jafnt að vígi. Hann fullyrðir, að bezt sé að fækka ekki prestum og að það muni ekki verða til bóta. Hans spá í þessu efni er ekki annað en fullyrðing. Meðan ekki er fengin reynsla fyrir árangri breyt., getur hvorugur okkar fullyrt nokkuð. Hitt stend ég við, að mér þykja margar líkur benda til þess, að kirkjulíf verði hér betra, ef vel er að prestastéttinni búið, og ef guðshúsin verða veglegri og prýðilegri hús en nú er. En það er ekki skilningsleysi fólksins á nauðsyn þess, að þær byggingar séu sem prýðilegastar, sem takmarkar framkvæmdirnar í þessu efni, heldur getuleysið, og sama er að segja um laun presta.

Hv. þm. sagði, að prestastéttin væri verst launaða stéttin á landinu. Þetta er ekki til neins að bera á borð. Allir vita, að ýmsar stéttir eru miklu verr launaðar, jafnvel þótt þær verði að inna af hendi meira starf.

Þá minntist hv. þm. á það, að prestar hefðu verið sviptir launauppbót, sem þeim var veitt fyrir nokkrum árum. Hann tók það reyndar fram, að þetta hefði aðeins verið bráðabirgðalaunauppbót, og var gott að fá það fram, þótt ég byggist nú reyndar alltaf við, að hv. þm. myndi viðurkenna þetta. Ég vildi vissulega gjarnan búa betur að prestum en gert er, jafnvel betur en gert var með þessari bráðabirgðalaunauppbót. En hefir þá hv. þm. í huga, hver fjárhagsgeta þjóðarinnar er til að launa presta betur?

Þá drap hv. þm. á það sem sönnun þess, að við vildum ekki búa vel að prestastéttinni, að við legðum til, að ekki yrði lagt fram fé til bókasafna pretakalla. Ég held nú, þó að þessi bókasöfn séu að vísu mjög þýðingarmikil, að meira virði sé, að prestar geti verið sjálfráðir um bókakaup sín og geti eignazt bækurnar af eigin rammleik.

Hv. þm. minntist á ýmislegt fleira, sem ekki er ástæða til að tína upp, eins og t. d. messuföllin. En í því sambandi verð ég að segja, að enda þótt ég hafi heyrt það á ræðu hans, að hann situr ekki inni með allan vísdóm í þessu máli, þá datt mér þó aldrei í hug, að hann vissi ekki, hve margar vikur eru í árinu. — En framhjá því verður ekki komizt, eins og skýrslur prestanna sýna, að messuföll eiga sér stað, þó að sumt af því sé vitanlega af forföllum, en þær upplýsingar þurfti ekki að sækja til hans. Það kom ekki heldur fram hjá mér með einu orði, að ég gerði ráð fyrir því, að prestar færu allt í bifreið. Það vill nú svo vel til, að þrátt fyrir þessa fækkun presta yrði umdæmi þeirra ekki nema lítið brot af umdæmum lækna, sem er þó fjarri, að geti farið allra sinna ferða í bifreiðum, og ætla ég þó þeirra erindi til almennings sízt minna virði en erindi prestanna, þó að ég vilji ekki gera lítið úr því. Þá ber og þess að minnast, að messur í kaupstöðum hleypa fram meðaltali messna á hvern prest. Annars skiptir slíkt litlu máli.

Hann minntist enn á þessar fundasamþykktir um andmæli gegn fækkun presta. Mér þætti gaman að sjá atkvæðatölurnar um þessur ályktanir.

Annars mun ég ekki fjölyrða um þetta mál. Við höfum hvor sína skoðun í málinu. En þessi skoðanamunur hefði getað komið fullskýrt fram án þess að svona mikill völlur væri á hv. þm. Honum hefir a. m. k. orðið það á sjálfum allgreypilega, sem hann vildi telja öðrum til ámælis.