05.03.1936
Neðri deild: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

52. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég get ekki látið vera að segja nokkur orð við þessa umr. málsins, enda þótt ég ætlaði mér það ekki. En firrur þær, sem hv. þm. V.-Sk. sagði til þess að blekkja fólk, voru svo langt frá öllum veruleika, að ekki má láta ómótmælt. Hann hélt því fram, hv. þm., að fólkið vildi sækja kirkju, en messuföllin stöfuðu af ýmsum öðrum orsökum, svo sem óveðrum, fólksfæð á heimilunum o. fl. En nú vil ég benda hv. þm. á staðreyndir, sem tala sínu máli og verða ekki vefengdar. Það var einu sinni, að ég var beðinn að tala á samkomu, sem kvenfélag hélt til þess að safna fyrir altaristöflu, er gefa átti kirkjunni. Samkoma þessi var haldin á laugardegi og á prestssetri sveitarinnar. Hún var vel sótt, og eftir ræðu mína var farið að dansa. Nóttina eftir gisti ég hjá prestinum. Um morguninn spyr ég hann, hvar hann eigi nú að messa um daginn. „Og heima“, segir prestur. Spurði ég hann þá, hvers vegna samkoma þessi, sem, kona hans og kona hreppstjóra stóðu fyrir, hefði ekki verið haldin í sambandi við messuna og boðuð eftir messu á sunnudag. Því svaraði prestur svo: „Það hefði verið enn meir áberandi. því að þá hefði enginn komið, fyrr en svo seint, að ómögulegt hefði verið að messa.“ — Hverju heldur nú hv. þm. V.-Sk., að hafi verið að kenna þetta messufall?

Þá skal ég geta þess, að síðastl. sumar var ég við kirkju á þremur kirkjustöðum uppi í sveit. Á einum staðnum, þar sem 76 bæir voru í hreppnum, komu 23 menn til kirkjunnar, og þar af voru 5 Reykvíkingar, sem voru á ferðalagi. Á öðrum staðnum komu 18, en þar voru þó 18 bæir í sókninni. En til þriðju kirkjunnar, þar sem þó voru 36–38 bæir í sókninni, komu aðeins 9 sálir. Hvað segir hv. þm. V.-Sk. um þetta? Í þessum tilfellum voru sannarlega ekki óveður eða torfærur til þess að hamla fólkinu frá því að sækja kirkju. Að þessi tilfelli séu nokkur undantekning frá því, sem nú er almennt orðið um kirkjusókn í landinu, er ekki til að dreifa. Fólkið sækir yfirleitt ekki betur kirkju en þetta; það vita allir, sem hafa augun opin. Þrátt fyrir þessar staðreyndir, þá belgir hv. þm. V.-Sk. sig upp yfir þeim feikna trúaráhuga almennings og vill því fá sem flesta presta, einmitt til þess að fólkið fái leiða á þeim. Hann gætir þess ekki, hv. þm., að viðhorfið gegn prestunum er allmjög breytt frá því, sem áður var. Allir staðhættir hafa breytzt. Nú getur fólkið farið langar leiðir til kirknanna á bifreiðum yfir brúaðar ár, í stað þess, sem það þurfti áður að fara þær sömu leiðir ríðandi eða gangandi yfir óveguð héruð og lítt fær vatnsföll. Þá athugar hann það ekki heldur, að nú eru þeir tímar líka breyttir, þegar prestarnir báru höfuð og herðar yfir fjöldann og voru leiðtogar fólksins. Nú má kannske í hæsta lagi finna 10 presta slíka á landinn. Nei, skilrúmið, sem var á milli prestanna og almennings, er horfið. Nú eru það ekki prestarnir einir, sem geta skrifað bréf í sveitunum. Það getur allur almenningur eins vel og þeir.

Þá var hv. þm. að tala um vilja fólksins í sambandi við fundahöld víðsvegar um landið. Út af þeim ummælum hv. þm. get ég sagt honum það, að ég hefi setið fundi víðsvegar um landið og spurt fólkið að því, hvort það óskaði eftir fleiri prestum. Þannig hefi ég t. d. verið á fundum í Kirkjubæjarsóknum. Presturinn þar þjónar nú sóknum, sem áður voru 3 prestaköll, og ég ætla, að það sé með víðlendustu og erfiðustu prestaköllum á landinu. Ég spurði fólkið, hvort það óskaði eftir, að bætt væri þar við nýjum presti eða prestum í gömlu prestaköllin, og hvort það fyndi mun á prestsþjónustunni — sálusorguninni — nú, þegar prestur er einn, eða áður, meðan þeir voru þrír. En það var ekki einn einasti maður, sem óskaði þess eða fann neinn mun. Sömuleiðis var ég á fundi í Valþjófsstaðarsóknum og spurði hins sama; og það var eins, það var enginn, sem óskaði eftir fleiri prestum. Þetta virðist mér benda ótvírætt til þess, að eitthvað sé gruggugt um hinn almenna vilja fólksins um að fá fleiri presta, sem hv. þm. V.-Sk. hefir verið að hrópa með.

Hvað snertir vilja prestanna sjálfra í þessu efni, þá er það svo, að þeir eru ekki allir á einu máli um þetta; a. m. k. þekki ég presta, sem telja sig hafa of lítið að gera. Þeir vilja fá meira svigrúm, til þess að „forpokast“ síður. Að vísu þekki ég líka presta, sem vilja hafa það rólegt, — vilja hafa sem minnst að gera. En það mun þó yfirleitt vera vilji alls þorra hinna yngri presta, að hafa svo mikið að starfa, að þeir geti sæmilega lifað á því og gengið upp í starfi sínu.

Hv. þm. getur á engan hátt bent á það, að trúarlíf fólks í þeim söfnuðum. þar sem sameining prestakalla hefir farið fram, sé á nokkuð lægra eða lakara stigi en þar, sem mjög litlir söfnuðir halda sér ennþá. En eigi nokkur lifandi maður að trúa röksemdafærslu hv. þm., þá verður hann að geta það, og jafnframt verður hann að geta leitt rök að því, að trúarlíf þess fólks, þar sem einn prestur hefir 1 eða 2 kirkjur, sé betra en þar, sem einn prestur hefir kannske 5 kirkjur. Hann verður t. d. að geta leitt rök að því, að trúarlíf fólks í Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu, þar sem einn prestur hefir verið fyrir einn hrepp um langt skeið, sé betra en trúarlíf fólks hér í Reykjavík, þar sem fleiri þúsundir manna eru um einn prest. Ef hv. þm. er ekki nógu kunnugur á landinu til þess að þekkja staðhætti sem skyldi, þá skal ég fúslega nefna fyrir hann fleiri dæmi, þar sem einn prestur þarf ekki að messa yfir nema tæpum 100 sálum, og jafnframt skal ég nefna honum fleiri staði, þar sem einn prestur er fyrir fleiri þúsundir munna. — Hvað snertir mína persónulegu skoðun um þetta atriði, þá held ég, að trúarlíf fólks sé sízt betra í fámennu söfnuðunum en þeim fjölmennu. Geti hv. þm. ekki sannað þetta, sem ég nú hefi beint að honum, verður allur vaðall hans að teljast fimbulfamb eitt, sem aðeins á að vera til þess að slá ryki upp í augu fólksins.