05.03.1936
Neðri deild: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2434)

52. mál, skipun prestakalla

Gísli Sveinsson:

Hv. 1. þm. Árn. var að benda mér á að lesa ræðu, sem ég á sínum tíma hélt um þingmannskosningu í Hafnarfirði. Hvað ræðu þá snertir, þá minnist ég þess ekki, að neitt sérstakt hafi komið fram í henni, sem athugavert væri. Ég mun þá, eins og jafnan, hafa haldið því einu fram, sem rétt var og lög stóðu til, og ekki sagt annað en það, sem ég get alstaðar staðið við. Annars hafði ég engin afskipti af því máli, nema sem þm., og að öðru leyti virðist mér, að það, sem ég hefi sagt þá, komi þessu máli lítið við.

Annars var það ætlun mín að nota þessar athugasemdarmínútur mínar til þess að beina nokkrum orðum að hv. 2. þm. N.-M. Hann vildi fá skýrslu um það frá mér, að trúmálalíf fólks væri betra þar, sem einn prestur hefir fáar kirkjur, heldur en þar, sem einn prestur hefir margar. Þetta er vitanlega hvorki á mínu færi eða hans að upplýsa með tölum. Hann heldur, hv. þm., að það sé hægt að vega og mæla trúarlíf fólksins, hvað það aukist, t. d. eftir hverja messu, sem það hlýðir á, alveg eins og hann vegur og mælir þyngd og færleik hrútanna, þegar hann er að flækjast um landið, sjálfum sér til vandræða og öðrum til leiðinda. Nei, hv. þm. getur ekki vænzt þess, að ég fari að mæla söfnuðina á sömu vog og hann mælir hrúta sína á. Enda þótt flestir bændur muni nú vera búnir að fá nóg af honum, þá heldur hann samt uppi flakki sínu ennþá að einhverju leyti, því að hann var að tala um, að hann hefði hlýtt á messur síðastl. sumar. Ég tel það gott, sérstaklega á annatímum, ef messur eru sóttar í litlum sóknum, og þær sóknir, sem hann talaði um, eru sýnilega mjög litlar. Hitt er svo annað mál, hve fjölmennt hefir verið á þeim samkomum, sem hann hafði og auglýsti, enda geri ég ráð fyrir, t. d. í þurrkum, að fólk hafi þótzt hafa öðrum hnöppum að hneppa heldur en að sækja og rækja það orðfar, sem hann er kunnur að.

Ég vil bæta því við, að eftir minni vitund hafa prestar ekki gengizt sérstaklega fyrir því að mótmæla þessum till. Það er gleðilegt, að þótt prestar hafi hér að nokkru dregið sig í hlé, er það almenningurinn í söfnuðunum, sem hefir gengizt fyrir mótmælunum. Hér er því um allt annað að ræða heldur en það, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, að prestarnir vildu halda í hæg brauð og hafa lítið að gera. En ef prestarnir sjálfir einnig mótmæla þessum till., þá sýnir það, að þeir eru ekki svo hrifnir af embættisaukanum og launaviðbótinni, að þeir vilji fórna fyrir hana sæmilegri sálusorgun. Líka hefir verið sýnt greinilega fram á það, að þessi launaviðbót verður næsta lítilfjörleg, þegar hún er borin saman við þann erfiðisauka, sem breyt. hefir í för með sér.