06.04.1936
Neðri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

52. mál, skipun prestakalla

*Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Við 1. umr. þessa máls fylgdi flm. þess því úr hlaði og gerði ýtarlega grein fyrir tilgangi sínum með því, sem hann taldi aðallega vera þann, að spara ríkissjóði fé. Með því að fækka prestum eins og frv. gerir ráð fyrir taldi hv. flm., að sparast myndi á launagreiðslum til þeirra um 60 þús. króna.

Sú var tilætlun mþn., sem bjó frv. þetta til, að prestaköllunum yrði fækkað úr 108 niður í 60. Við hv. þm. A.-Húnv., sem skipum minni hl. n. að þessu sinni, höfum athugað frv. þetta bæði á síðasta þingi og nú, og hafa till. frá okkur legið fyrir á báðum þingunum. Það, sem við höfum fyrst og fremst tekið til athugunar, er það, hvort prestastéttin sé í raun og veru óþörf eða ekki, því að við erum þeirrar skoðunar, að hver sú starfsmannastétt í þjóðfélaginu, sem talizt getur óþörf, eigi að leggjast niður. Eins og kunnugt er, þá lagði mþn. í launamálum það til, að sýslumönnum og kennurum yrði líka fækkað. Hvað fækkun sýslumannanna snertir, þá hefir stj. þegar gefið svar við þeim till., þar sem hún hefir auglýst laust til umsóknar það sýslumannsembættið, sem að flestra dómi má helzt leggja niður. Kennurunum mun og erfitt að fækka fyrst um sinn, og er þá prestastéttin ein eftir. Við hv. þm. A.-Húnv. höfum ekki bundið okkur við nein sérstök „princip“ í þessu efni, heldur höfum við miðað till. okkar við óskir og þarfir þjóðarinnar, eftir því, sem okkur hefir frekast verið unnt, og þá að sjálfsögðu miðað við starfsvið prestanna.

Það er vitað, og því verður ekki með rökum á móti mælt, að frá alda öðli hefir prestastéttin borið uppi menningu þjóðarinnar; þó skal það viðurkennt, að nú í seinni tíð, eftir að menntamönnum tók að fjölga, hefir áhrifa þeirra gætt minna en áður. Í þessu sambandi ber og að athuga það, að nú nýlega er búið að fækka prestunum, og það svo mjög, að mþn. sú, sem málið hafði þá til meðferðar, sá sér ekki fært að fækka þeim meir en hún lagði þá til, þrátt fyrir góðan vilja. Við athugun málsins höfum við haft það fyrir augum að stækka prestaköllin, þó ekki svo, að fyrirsjáanlegt væri, að einhver hluti þeirra yrði prestsþjónustulaus, eða að hætta yrði á, að enginn prestur fengist í þau. Það er nú svo, að það má jafnan gera miklar kröfur til ungra manna, en þegar menn fara að eldast, má ekki gera sömu kröfur til þeirra, og því má ekki miða stærð prestakallanna við það, sem hugsanlegt er, að ungir menn fái afkastað. En það þarf ekki að fara í grafgötur til þess að sjá það, að það yrði miklum erfiðleikum bundið að þjóna sumum þeim prestaköllum, sem frv. gerir ráð fyrir, og það jafnvel fyrir unga menn.

Við athugun málsins höfum við í minni hl. komizt að þeirri niðurstöðu, að nokkuð mætti fækka prestunum frá því, sem nú er, og teljum við sanngjarnt, að þeim verði fækkað um 15. og kemur sú fækkun aðallega niður á þeim héruðum, sem beztar hafa samgöngur. Aftur höfum við ekki talið okkur fært að leggja til, að prestum yrði fækkað á Vestfjörðum, Austfjörðum og suðausturlandinu, þar sem samgöngur eru erfiðastar. Hinsvegar höfum við aftur lagt það til, að bætt verði við tveim prestum hér í Rvík, og verður ekki annað sagt en að þeirri fjölgun sé mjög í hóf stillt, þar sem söfnuðurinn hér greiðir í prestlaunasjóð sem svarar launum presta.

Þá leggjum við til í till. okkar, að á 17 stöðum, þar sem við teljum ekki fært að stækka prestaköllin, skuli prestarnir annast barnafræðsluna, og með því teljum við, að ná megi sama sparnaði og mþn. í launamálum gerir ráð fyrir að ná með fækkun prestanna. Enda ekki eins nauðsynlegt að hækka laun prestanna mjög mikið, ef prestaköllin eru hæfilega stór, því að þá verður ferðakostnaður þeirra minni og yfirleitt allur embættiskostnaður. Í till. okkar á þskj. 273 teljum við okkur fara eins langt og gerlegt er í fækkun prestanna, en við áskiljum okkur þrátt fyrir það rétt til þess að fylgja brtt., sem fram kunna að koma, jafnvel þó að þær miði að fjölgun presta frá því, sem við leggjum til, ef okkur við nánari athugun finnst slíkar till. eiga rétt á sér.

Þá skal ég með nokkrum orðum drepa á þá staði, þar sem við höfum lagt til, að prestum verði fækkað, og er þá fyrst, að við leggjum til, að Reynivallaprestakall, þar með talin Saurbæjarsókn á Kjalanesi, verði lagt undir Mosfellsprestakall. Verður tæplega annað sagt en að hér sé um nægilega stórt prestakall að ræða, enda þótt Þingvellir verði ekki látnir fylgja með.

Þá er næst, að við leggjum þá fækkun til í Borgarfjarðarsýslu, að Stafholtsprestakall verði lagt niður og því skipt á milli Reykholts- og Borgarprestakalla.

Í þriðja lagi leggjum við það til, að Miklaholtsprestakall í Hnappadalssýslu verði lagt niður og því skipt á milli Staðarstaðar og Staðarhrauns. Aftur gerum við enga till. til fækkunar þaðan og norður í Barðastrandarsýslu, en gerum aftur ráð fyrir, að prestarnir að Setbergi og Breiðabólsstað annist kennslu hver í sínu kalli.

Í Barðastrandarsýslu leggjum við til þá breyt., að Flateyjarprestakall verði lagt niður sem sérstakt prestakall og sameinað Brjánslækjar-prestakalli. Hvort þessi breyt. sé rétt, getur vel verið álitamál, því að samgöngur þarna eru mjög erfiðar, og má því vel vera, að réttara sé að hafa þá skiptingu, sem nú er, en gera prestunum aftur að skyldu að annast kennslu.

Þá leggjum við til, að Tröllatungusókn verði lögð niður, en Óspakseyrarsókn lögð undir Prestsbakka. Ennfremur leggjum við til, að Tjarnarprestakall í Húnavatnssýslu verði lagt undir Breiðabólsstað. — Sem dæmi þess, hve ósanngjarnlega stórar sóknirnar eiga að vera samkv. frv., má benda á það, að Vestur-Húnavatnssýsla á að veru eitt prestakall, að undanteknu því, að Stað í Hrútafirði á að vera þjónað frá Prestsbakka. Eru þó vegalengdir þarna mjög miklar, eins og kunnugt er.

Í Austur-Húnavatnssýslu er lagt til, að fækkað verði um eitt prestakall, sem sé, að Auðkúluprestakall verði ekki sjálfstætt prestakall, en að prestinum á Æsustöðum verði falið að þjóna þar, og er þetta gert með tilliti til þess, að brú komi á Blöndu skammt frá Æsustöðum.

Þá er lagt til, að Glaumbæjarprestakall í Skagafirði verði lagt niður, og ennfremur er sú breyt. lögð til í Skagafjarðarsýslu, að presturinn í Viðvík hafi aðsetur sitt á Hólum. Þá leggjum við og til, að Hvammsprestakall fái að halda sér, en að prestinum verði aftur gert að skyldu að kenna. Þetta eru fámennar sveitir, og ætti prestinum því að vera auðvelt að annast kennsluna í heimavistarskóla. Teljum við, að þetta myndi heppilegra en að leggja kallið undir Sauðárkrók, því að oft er ófært þar á milli á vetrum.

Þegar Skagafjarðarsýslu sleppir, er engin fækkun lögð til fyrr en kemur norður í Þingeyjarsýslu. Á svæðinu þar á milli hefir áður verið fækkað eins og hægt virðist vera. Hvað Þingeyjarsýslurnar snertir, þá fara till. okkar til breyt. þar mjög í svipaða átt og till. mþn. og flm. frv., og sama máli gegnir um Austurland. Eru breyt. þær, sem við leggjum til, að þarna verði gerðar, svo smávægilegar, að ég hirði ekki að nefna þær hér.

Í Skagafjarðarsýslu leggum við engar breyt. til. Aftur leggjum við til, að fækkað verði um tvo presta í Rangárvallasýslu og einn í Árnessýslu, og að Hrunaprestakalli verði skipt. Hinsvegar leggjum við til, að Þingvallaprestakall verði sjálfstætt prestakall áfram og að prestinum verði gert að skyldu að kenna. Jafnframt viljum við, að honum verði falið yfireftirlit á Þingvöllum að öðru leyti en því, sem tekur til hreppstjóra eða lögreglustjóra. M. ö. o., að presturinn verði þarna einskonar „representant“ gangvart útlendingum og fleirum, sem þangað koma. Það þyrfti því að velja hann með tilliti til þessa, og því gerum við ekki ráð fyrir, að hann verði kosinn, eins og aðrir prestar, heldur skipaður af stjórnarvöldunum, því að með þetta markmið fyrir augum þyrfti að taka tillit til margs fleira en söfnuðir almennt gera kröfu til.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða öllu frekar um till. okkar. Ég vænti, að flestir telji þær til bóta, því að vart muni unnt að hafa prestaköllin eins stór og frv. gerir ráð fyrir, enda sé ég ekki, að fært sé að ganga svo mjög gegn vilja þjóðarinnar eins og virðist gert í frv. Hin mesta fækkun presta, sem við teljum, að til mála geti komið, er að fækka þeim um 15 og láta svo 17 annast barnakennslu að meira eða minna leyti.