06.04.1936
Neðri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

52. mál, skipun prestakalla

*Sigurður Einarsson:

Ég átti í fyrra sæti í launamálanefnd, sem hafði þessi mál til meðferðar, og í sambandi við þetta mál verð ég að segja það, að ég hefi enga trú á því, að það sé hægt að skipa þeim málum eins og gert er í frv. því, sem hv. 1. þm. Árn. flytur. Það eru sérstaklega tvö svæði á landinu, þar sem ómögulegt er að haga þessu eins og þar er gert ráð fyrir, en það er á Austurlandi og Vesturlandi. Ég ætla ekki að eyða tíma í þessar deilur um það, hvað prestastéttin kunni að vera fyrir menningu og trúarlíf í þessu landi, heldur ætla ég að taka praktísku hliðina og athuga í þessu sambandi, hvort það er yfirleitt hægt fyrir menn að komast yfir þetta starf með þeirri skipun prestakalla eins og gert er ráð fyrir á þskj. 70. Við skulum taka t. d. 13. tölul., þar sem gert er ráð fyrir hinu væntanlega Brjánslækjarprestakalli, en þar á presturinn að sitja á Brjánslæk og hafa Gufudals-, Múla-, Flateyjar-, Bránslækjar- og Hagasóknir. Það er svo að segja öll austanverð Barðastrandarsýsla, að viðbættri Flatey, og ef presturinn á að sitja á Brjánslæk, þá má það heita ógerningur fyrir hann að komast yfir prestakallið. Ef hann ætti t. d. að fara frá Brjánslæk til Gufudalskirkju. þá verður hann að fara upp á Þingmannaheiði, sem er hálf dagleið, og svo yfir í Vattarnes í Múlasveit, og þegar hann er kominn þangað, þá verður hann enn að fara yfir tvo bratta hálsa. Það er meira en dagleið fyrir hann að komast þetta að sumarlagi. Þessu prestakalli, eins og það er hugsað, yrði aðeins þjónað frá einum stað, og það er frá Flatey sjálfri. Það má fara á mótorbát úr Flatey, og er þá verið á fjórða tíma að fara í logni og blíðu úr Flatey og upp í Gufufjörð, því að þessir trillubátar eru ekki skjótari í förum en þetta. Ég hefi hugsað mér, ef út liti fyrir, að þetta frv. yrði samþ., að bera þá fram brtt. við 13. lið um það, að presturinn sé búsettur í Flatey, því að þá getur hann komizt þetta á sjó á hverja kirkju. Hinsvegar eru engar líkur til þess, ef hann er búsettur á Brjánslæk, að hann hafi tök á því, fremur en aðrir bændur, að halda sig með svo stóran mótorbát, að honum væri hægt að komast þetta á sjó, eins og hann yrði þó að gera. — Í nál. minni hl. er aftur á móti sanngjarnlegar að þessu farið. Núv. Flateyjarprestur hefir þjónað Haga- og Brjánslækjarsóknum, og þetta er kleift úr Flatey. En minni hl. gerir þó ráð fyrir, að presturinn sé búsettur á Brjánslæk, en þar er hann miklu verr settur til þess að gegna þessu embætti heldur en ef hann er búsettur í Flatey. Hann getur komizt að Haga, en hann er illa settur að komast út í Flatey frá Brjánslæk. — Þetta er eitt lítið dæmi þess, hvað ég held, að hv. flm. og þeir, sem að þessu standa, hafi litlu hugmynd gert sér um það, hvernig horfir við um þetta á útkjálkum, þar sem erfitt er með samgöngur. (JörB: Veit hv. þm., hvar ætlazt er til, að presturinn sé búsettur?). Er þess ekki getið þarna?

Þá skal ég taka t. d. Sauðlauksdalsprestakall, vestan til í Barðastrandarsýslu. Eins og það er hugsað í frv., þá tel ég það ofætlun einum manni að þjóna því, enda er það núv. Eyraprestakall, Patreksfjörður, Sauðlauksdalur og Stóri-Laugardalur. Það er svo erfitt umferðar eins og það er nú, að það er alls ekki — án þess að við sé bætt — nema á færi sæmilega frísks manns að gegna því. Einn duglegur prestur, sem hafði verið þar, kom hingað til þess að vera kennari hér. Hann hafði þjónað þar á annan tug ára með miklum dugnaði, en gafst þá upp við að vera prestur í þessu prestakalli. — Ég verð hinsvegar að segja, að þegar ég lít á brtt. minni hl., þá felli ég mig miklu betur við þær en frv., en ég gæti þó búizt við, að á öllum greiðfærum svæðum landsins mætti þoka þessu meira saman en þar er gert. En það, hversu greitt er að ferðast, gerir út um það, hvað prestaköllin mega vera stór. En á Austurlandi og Vesturlandi er lítið greiðara að ferðast nú í dag en fyrir 50 árum, en í öðrum héruðum er þessi aðstaða ósambærileg. Hvort sem mönnum líkar það vel eða illa, þá verða prestaköllin að vera þannig á hinum ógreiðfærari stöðum, að hægt sé að þjóna þeim. En hitt er annað mál, hvort menn vilja kosta þessu til. En þessu má ekki breyta þannig, að prestsþjónustan sé gerð að nokkurskonar sýndarleik með því, að prestunum sé ætlað að hafa of mikið.

Út af 3. brtt. minni hl. vil ég segja það, að ég held, að það sé mjög óheppilegt að kveða svo á með 1., að sóknarprestar skuli vera barnakennarar á vissum svæðum á landinu án sérstakra launa. Mér þykir þetta óviðfelldið og ekki heppilegt, nema þar sem svo semst um og aðrar ástæður gera það fært eða æskilegt, en að lögleiða það á vissum stöðum, tel ég vafasamt. Þingvallaprestur á bæði að vera kennari og umsjónarmaður Þingvalla. Ég efast um, að þetta sé rétt, en ég tel alls ekki rétt að lögleiða það. Presturinn á Hólum í Hjaltadal á að kenna eina námsgrein við bændaskólann á Hólum án sérstakra launa. Ég efast ekki um, að presturinn þar gæti gert þetta, en ég tel ekki rétt að lögleiða slíka kvöð á þennan eina mann, enda hefir því ekki verið haldið fram, að prestakallið sé lítið.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að mér fellur langtum betur við till. minni hl. í þessu máli, því að þær eru nær sanni um það, hvað hægt er að koma í framkvæmd, heldur en frv. sjálft. Ég er að vísu ekki kunnugur sjálfur nema í stöku prestaköllum, en þar, sem kynni mín ná til, sé ég enga möguleika á því, að prestar geti yfirleitt rækt svo stór prestaköll til yfirferðar sem þeim eru ætluð í frv. Ég vil t. d. minna á Staðarhólsprestakall, sem á að ná yfir Skarðs-. Staðarhóls-, Garpsdals-, Reykhóla- og Staðarsóknir. Þetta er feikna flæmi, ógreitt yfirferðar og bílasamgöngur engar. Og mér er óhætt að fullyrða, að sá, sem yrði prestur í því prestakalli, yrði aldrei mosavaxinn heima hjá sér, ef hann ætti að gegna öllum þeim skyldum, sem á slíkum mönnum hvíla, og þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar.

Það er að vísu rétt, að nokkurn sparnað myndi frv. hafa í för með sér, en þann sparnað má ekki kaupa svo dýru verði, að starfið sé annaðhvort gert ókleift eða svo erfitt, að enginn vilji taka það að sér. Í stað slíkra ráðstafana liggur nær að spyrja þjóðina sjálfa að því, hvort hún telji starf prestastéttarinnar þess virði, að því sé haldið áfram, og telji hún, að svo sé ekki, eiga afskipti ríkisins af þessum málum að bætta og áhugamennirnir sjálfir að annast sín safnaðarmál. En meðan löggjafarnir hafa ekki snúið sér til þjóðarinnar um þessi mál né þjóðin látið vilja sinn í ljós, tel ég þá skipun þessara mála, sem lögð er til í frv., vera ógerlega og óréttmæta.