08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2448)

52. mál, skipun prestakalla

*Ásgeir Ásgeirsson:

Hefði ég gert ráð fyrir, að þetta frv. gengi fram á þessu þingi, þá hefði ég borið fram brtt. þess efnis, að sum prestaköllin, sem hér er ætlazt til, að verði sameinuð, fengju að vera óbreytt áfram, og að sumstaðar yrði öðruvísi fellt saman í prestaköll en í frv. er gert ráð fyrir. En ég geri ekki ráð fyrir, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og mun þess vegna ekki að svo stöddu bera fram neinar brtt. við það. — Það er sýnt, að eins og samgöngum er háttað, muni svo fara í sumum þessum stóru prestaköllum, að prestur geti ekki þjónað því svo sem þörf krefur, og þarf ég ekki nú að rekja það nánar. Auk þess hefi ég ekki séð, að enn væri farið að bóla á launafrv., en þetta frv. verður ekki samþ., nema það fylgi með. Það sýnist vonlaust, að launafrv. komi fram á þessu þingi, en sjálfsagt, að þetta verði því samferða.

Ég geri ráð fyrir, að ég mundi fremur vera meðmæltur brtt. á þskj. 273, þótt ég fylgi þar ekki öllum atriðum, en mér finnst, að stj. ætti auðvelt með það á milli þinga að ná samkomulagi um þetta mál bæði við söfnuði og presta, og öll sanngirni virðist nurla með því, að nokkuð sé hægt að færa saman þar, sem samgönguskilyrði hafa batnað, en þau, sem engar samgöngubætur hafa orðið og háir fjallgarðar eða aðrar torfærur eru á milli sókna, Virðist engin leið til sameiningar.

3. brtt. hv. minni hl. launamn. er algerð fjarstæða. Það er ókleift að sameina barnakennslu og prestsverk, eins og þar er lagt til, enda er það víða svo í þessum sveitum, sem þar eru taldar, að þar er farkennsla, en hana gefa prestar sig ekki í, og auk þess er það svo, að barnakennslu hafa prestar aldrei annazt. Þeir höfðu um skeið á hendi eftirlit með barnakennslu, en þeir hafa aldrei verið kennarar. En prestar hafa oft verið unglingakennarar, og það er gott, og ég hygg, að það muni færast mjög í vöxt að stofna unglingaskóla, sem taka við börnunum, þegar þau eru búin að taka fullnaðarpróf, og á þeim grundvelli mætti vel athuga möguleika fyrir því að láta presta gegna kennslustörfum.

Ég býst við, að þótt þetta frv. yrði samþ. á þessu þingi, þá yrði hverfandi lítill sparnaður að því, kannske fáein þúsund. Ég hygg, að réttasta afgreiðsla málsins nú sé sú, að vísa því til stj., og geri ég það að aðaltill.