08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

52. mál, skipun prestakalla

Thor Thors:

Ég get sagt sama og hv. þm. V.-Ísf., að ég hefi ekki hirt um að bera fram brtt. af því að ég hefi ekki átt von á, að frv. gengi fram á þessu þingi, og það virðist mjög óvíst, eftir þeim undirtektum, sem málið fær. En ég tel frv. sjálft ófært, a. m. k. hvað mínu kjördæmi viðkemur. Þau þrjú prestaköll, sem n. gerir ráð fyrir, að verði ákveðin á Snæfellsnesi, eru svo stór og erfið, að ekki er hægt að þjóna hverju þeirra af einum presti. T. d. Ólafsvíkurprestakall, sem ætlazt er til, að nái yfir Ingjaldshóls-, Ólafsvíkur-, Brimilsvalla- og Setbergssóknir. Það er algerlega ókleift einum presti að gegna öllum þessum sóknum. og sama má segja um Staðarstaðarprestakall, sem á að ná yfir Kolbeinsstaða-, Rauðamels-, Miklaholts-, Staðarstaðar-, Búða- og Hellnasóknir. Það er svo stórt prestakall, að það yrði a. m. k. mjög erfitt fyrir einn prest að gegna því, og eins og vegum er nú háttað á því svæði, nær því ókleift. Það má vera, þegar samgöngur eru komnar í betra horf, að þá væri þessi sameining möguleg, en það er ekki tímabært ennþá. Ef það er meiningin, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi, þá tel ég brtt. hv. minni hl. skynsamlegar, og ef á annað borð á að fækka prestum, þá er ég þeim samþykkur í mörgum atriðum. En þess vil ég geta um 10. lið, þar sem talað er um Staðarhraunsprestakall, og 11. þar, þar sem talað er um Staðarstað, að ég teldi það eðlilegra að láta Miklaholtsprestakall halda sér og láta prestinn búa í Miklaholti, og ef þetta mál nær fram að ganga til. 3. umr., þá mun ég bera fram brtt. um það.

Annars verð ég að segja það um mál þetta í heild, að ég er mjög vantrúaður á, að það hafi nokkurn verulegan sparnað í för með sér, og það er víst, að á næstu árum — á þeim árum, sem maður gerir ráð fyrir, að þrengingar ríkissjóðs verði talsverðar —, þá verður sparnaðurinn nær enginn. Ég er svo bjartsýnn, að ég vona, að svo greiðist úr fyrir málefnum ríkissjóðs og þjóðfélagsins, að þegar loks komi til þess, að sá sparnaður, sem af þesssu leiðir, verður einhver, þá gerði hann svo lítils virði, að nær engu muni fyrir fjárhag þess opinbera. Ég tel það líka einkennilegt af Alþingi að ráðast í þessa stórkostlegu prestafækkun, þar sem það hefir komið mjög greinilega fram, að þjóðin í heild óskar alls ekki eftir því. Það hafa komið fram mótmæli fjölda manna víðsvegar af landinu gegn þessari fækkun, og ég bygg, að flestir hv. þm. hafi orðið þess áskynja, þegar þeir hafa talað um þetta við kjósendur sína, að þeir geta fæstir hugsað til þess, að prestunum sé fækkað frá því, sem nú er. — Ég get því ekki fylgt þessu frv. að höfuðstefnu til, og ég er mótfallinn frv. eins og það liggur fyrir, en hinsvegar tel ég brtt. minni hl. n. hóflegar og gæti e. t. v. léð þeim fylgi mitt að nokkru leyti.