08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

52. mál, skipun prestakalla

*Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Hv. þm. V.-Ísf. gaf þess í ræðu sinni áðan, að hann teldi till. minni hl. n. fráleitar að því er það snerti að ætla prestum einnig að annast barnafræðslu, og bar það fyrir, að ekki væri hægt að ætla þeim umferðakennslu. Ég er honum alveg sammála um þetta, enda tók ég það líka skýrt fram, þegar þetta mál var síðast til umr., að ég teldi það ekki koma til mála, að prestum væri ætluð umferðakennsla, og einmitt til að undirstrika þennan skilning nánar hefi ég hér á þskj. 309 borið fram brtt., þar sem upphaf þeirrar gr., sem um þetta fjallar, er orðað nokkuð á annan veg, sem sé þannig, að í staðinn fyrir orðin: „Sóknarprestar skulu jafnframt vera barnakennarar“ komi: Sóknarprestar skulu jafnframt, eftir því sem við verður komið, vera, barnakennarar. — Miðast þetta einkum við það, að ekki er hægt að ætlast til þess, að prestar hafi með höndum heimavistarkennslu, nema aðstaðan leyfi það. Frá því verður að ganga fyrst, og sé það fyrir hendi, þá tel ég sjálfsagt að leggja prestum þessa skyldu á herðar í þessum litlu sóknum.

Á þskj. 309 hefi ég einnig borið fram aðra litla brtt. við brtt. á þskj. 273, um það, að í Barðastrandarsýslu sitji presturinn í Flatey, í staðinn fyrir Brjánslæk. Ákvað ég þetta eftir að hafa átt tal við hv. 9. landsk., sem þarna hefir verið prestur og því nákunnugur öllum staðháttum. En nú sé ég, að þessi sami hv. þm. hefir borið fram sjálfstæða brtt. um þetta, svo að mín till. gæti þess vegna fallið niður.

Önnur brtt. á þessu sama þskj. er aðeins fram komin til þess að ráða bót á prentvillu í brtt. minni hl. n. á þskj. 237, en ég hefi nú síðan fundið aðra prentvillu og mun því taka þessa brtt. mína aftur til 3. umr., en leyfi mér jafnframt að bera fram skrifl. brtt. aðeins til að leiðrétta þessar prentvillur, þannig að í staðinn fyrir „Eydalir“ í 74. liðnum komi Kálfafellsstaður, og að „Sandfell“ í 75. lið falli niður, þar sem sú sókn hefir nú verið lögð niður.