08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2453)

52. mál, skipun prestakalla

*Þorbergur Þorleifsson:

Um skipun prestakalla í mínu kjördæmi er það að segja, að hún er samkv. núgildandi lögum eins og gert er ráð fyrir í brtt. hv. þm. Ak. og hv. þm. A.-Húnv. á þskj. 369, en í framkvæmdinni um margra ára skeið hefir það verið þannig, að prestur sá, sem þjónar Kálfafellsstaðar- og Einholtssóknum, hefir einnig haft Hofssókn, og það er eins og gert er ráð fyrir í frv. því, sem hér liggur fyrir. En Hofssókn er þannig sett að í raun og veru þyrfti þar að vera prestur, þótt þar sé fámenn sókn, því að eins og kunnugt er. þá eru stór vötn á báðar hliðar, sem oft eru ófær langan tíma árs. En þar sem þetta hefir verið svona í framkvæmdinni í mörg ár, vegna þess að enginn prestur hefir fengizt til þess að sækja um þetta prestakall, og mjög líklegt er, að svo megi verða í framtíðinni, þá verð ég fyrir mitt leyti að telja það mjög heppilega skipun á prestaköllum Austur-Skaftafellssýslu, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er mjög auðvelt fyrir þann prest, sem þjónar Bjarnanes- og Stafafellssóknum, að þjóna líka Brunnhólssókn, því að það er aðeins 10 km. ferð frá Bjarnanesi vestur í Brunnhólakirkju. En það er ástæða til að létta Einholtssókn af þeim presti, sem þjónar Kálfafellsstað og einnig í framkvæmdinni hefir haft Hofssókn í mörg ár. Þess vegna er ég andstæður þeim brtt., sem fyrir liggja frá hv. þm. Ak. og hv. þm. A.-Húnv. Ég tel, að þær séu ekki heppilegar, eins og nú standa sakir, því að enda þótt margir mæli með því að hafa prest í Öræfum, þá er reynslan sú, að það hefir ekki fengizt þangað prestur í mörg ár.

Það hefir verið gert ráð fyrir að láta presta í fámennum sóknum hafa einnig barnakennsluna með höndum. Ég tel það ekki heppilegt, því að það getur verið svo, að einn ágætur prestur hafi alls engan áhuga fyrir því að vera barnakennari, og svo það gagnstæða. Í Hofssókn er nú ungur maður barnakennari, og ég er viss um, að menn þar vildu ekki skipta og fá einhvern og einhvern prest til þess að segja börnunum til, því að þessi ungi maður er álitinn vera ágætur barnafræðari. Ég tek þetta sem dæmi um, að það geti ekki alltaf verið heppilegt, að prestar hafi slíkt með höndum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta viðvíkjandi Austur-Skaftafellssýslu og skal ekki gefa mig í þær umr., sem hér hafa orðið um málið almennt. En yfirleitt tel ég, að það sé til bóta að fækka prestum, a. m. k. á ýmsum stöðum. En þar sem ég er ekki svo kunnugur víða um land, þá get ég ekki um það sagt, hvort ekki megi víða betur á fara heldur en frv. gerir ráð fyrir, og er sjálfsagt að leiðrétta það, ef rök eru færð fyrir því, að það séu ekki heppilegar till., sem n. hefir komið fram með.