08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (2454)

52. mál, skipun prestakalla

*Eiríkur Einarsson:

Þegar ég ræddi um þetta málefni fyrir nokkrum dögum, þá gat ég þess, að ástæðan fyrir því, að ekki bæri að samþ. þetta frv., væri sú, að það vantaði vitneskju um það, hvort fólkið vildi, að prestum yrði fækkað eða ekki. Hv. 2. þm. N.-M. hafði orð á þessu, og mér virtist honum koma það spánskt fyrir sjónir, að ég skyldi taka þetta atriði með í reikninginn. Hv. þm. sagði, að það væri engu líkara en að ég vildi ekki greiða atkv. um nokkurt mál hér á Alþingi, nema ég vissi um þjóðarviljann í viðkomandi máli. Ég verð að segja, að ég vildi bara, að mér væri kunnugt um álit þjóðarinnar í sem flestum þingmálum.

Hv. þm. komst í mótsögn við sjálfan sig, þegar hann var að tala um þær áskoranir, sem lægju fyrir þinginu. Hann taldi lítið upp úr þeim leggjandi og taldi jafnvel, að þær gætu verið „uppagiteraðar“. En ef þær liggja almennt fyrir og fólkið hefir samþ. þær af frjálsum vilja, þá hafa þær vitanlega gildi gagnvart löggjafanum.

Annars get ég tekið það fram, að þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál, og þær brtt., sem fram koma í sambandi við það, hafa styrkt mig í þeirri trú, að ég geri rétt með því að vera á móti þessu máli. Umr. um þetta mál hafa annars verið lauslegar og á við og dreif, og sýnir það vel, að mál þetta er ekki nógu vel undirbúið. Og þegar hver hv. þm. á fætur öðrum rís upp til þess að láta í ljós óánægju sína yfir þeirri prestakallaskiptingu, sem frv. gerir ráð fyrir, þá er ekki hægt að draga aðra ályktun en að þetta mál sé ekki nægileg, vel undirbúið. Mér þykir rétt að benda á það, að á þeim slóðum, þar sem ég er kunnugastur, en það er fyrir austan heiði, gerir frv. ráð fyrir að fækka um þrjú prestaköll, og var þó áður búið að fækka um fjögur prestaköll í sama prófastsdæmi. Ef þetta yrði samþ., þá mundi ég hiklaust setja mig á móti því.

Annars finnst mér það skorta tilfinnanlega í þessu máli, að þeir menn, sem að þessu máli standa, geri sér fulla grein fyrir köllun og ætlunarverki prestanna. Ef þeir eiga ekki að gera annað en að skíra börn, gifta og grafa, þá mætti vel fela hreppstjórunum eða kennurunum störf þeirra. Ef prestarnir eiga ekki að vera sálusorgarar og hafa með höndum menningarstörf, sem eiga að hafa góð áhrif á hvert einasta heimili í prestakallinu, þá á ekki einungis að fækka þeim, heldur á að leggja þá alveg niður. Þá eru þeir óþörf stétt í þjóðfélaginu. En ef þeir hinsvegar eiga rétt á sér, þá verða þeir að geta komizt yfir störf sín hver í sínu umdæmi.

Viðvíkjandi brtt. hv. minni hl. n. um það, að fela prestum kennslu í ákveðnum prestaköllum, vil ég segja, að ég tel slíka ráðstöfun mjög hæpna. Þegar litið er á þessa till. í sambandi við breyt. á fræðslulögunum, sem liggja fyrir þinginu, þá sér maður, hvað skoðanirnar eru skiptar í þessum efnum og hver höndin uppi á móti annari. — Það þarf miklu meiri athugun á þessu máli heldur en ennþá hefir komið fram.

Að öllu þessu athuguðu tel ég ekki rétt að demba þessum lögum á almenning í landinu, að honum sjálfum fornspurðum. Þess vegna mun ég sætta mig bezt við þá niðurstöðu, sem fólst í áliti, sem kom fram frá hv. þm. V.-Ísf., um það, að afgr. málið ekki á þessu þingi, heldur bíða átekta og sjá, hvað setur.