06.03.1936
Neðri deild: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2476)

54. mál, vinnudeilur

*Héðinn Valdimarsson:

Út af frv. til l. um vinnudeilur, sem hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk. hafa borið fram og nú er til 1. umr., vil ég taka fram eftirfarandi fyrir hönd Alþfl.:

Alþýðuflokkurinn álítur ekki rétt né gerlegt að setja vinnulöggjöf, nema tryggt sé fyrirfram, að meiri hluti verkalýðsins og alþýðusamtakanna sé henni samþykkur.

Stjórn vinnuveitendafélag, Íslands hefir fyrir nokkru sent Alþýðusambandi Íslands tillögur, sem að efni til eru samskonar og frv. það, sem nú liggur hér fyrir. Stjórn Alþýðusambandsins ákvað að bera þessar tillögur nú þegar undir stjórnir verkalýðsfélaganna í Reykjavík og grenndinni. Sambandsþing verkalýðsfélaganna verður haldið næsta haust, og mun þá mál þetta verða tekið þar til athugunar. En Alþfl. mun greiða atkv. gegn því, að vinnulöggjöf verði sett fyrr en fyrir liggur álit sambandsþings um slíka löggjöf og sýnt er, að meiri hluti verkalýðsins sé henni fylgjandi, og að sjálfsögðu er óhugsandi, að alþýðusamtökin samþykki vinnulöggjöf, sem sé á annan hátt en þann, að bót sé að henni frá því ástandi, sem nú er, og alþýðusamtökin verði að fullu viðurkennd og réttindi þeirra í þjóðfélaginu. Alþfl. álítur það ranga aðferð að bera fram frv. eins og það, sem hér liggur fyrir frá hinu nýstofnaða og óreynda Vinnuveitendafélagi, án þess að alþýðusamtökin hafi lýst sig því fylgjandi. Það hefir sýnt sig alstaðar í lýðfrjálsum löndum, að vinnulöggjöf, sem ekki nýtur fylgis verkalýðsfélaganna, á sér enga rót í þjóðfélaginu, veldur miklum og óþörfum deilum og er aðeins til hins verra. Eins álítur flokkurinn það rangt að byggja upp vinnulöggjöf svo gersamlega eftir erlendri fyrirmynd sem gert er hér, án tillits til íslenzkra staðhátta og atvinnuhátta. Eðlilegur gangur þessa mál hefði verið sá, að ríkisstj. hefði látið rannsaka og undirbúa það milli þinga á þann hátt, sem fullnægt hefði getað kröfum alþýðusamtakanna. En Alþfl. hlýtur að beita sér gegn afgreiðslu þessa máls, eins og það er undirbúið, enda þótt flokkurinn álíti, að æskilegt væri að setja vel og rétt undirbúna löggjöf um vinnudeilur og réttindi og skyldur alþýðusamtakanna.