06.03.1936
Neðri deild: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

54. mál, vinnudeilur

Flm. (Thor Thors):

Ég vil byrja með því að þakka hæstv. forsrh. fyrir það, hversu vingjarnlega hann tekur þessu máli að efni til. Hann tjáði sig — eins og hann raunar hefir áður gert opinberlega — fylgjandi því, að vinnulöggjöf sé sett hér á landi. Og hann sagði beinlínis um þetta frv., að sér litist þannig á það að efni til, að það væri líklegt til þess að ná samþykki allra aðilja. Það þarf ekki að fjölyrða um það frekar heldur en ég gerði í gær, að löggjöf um þetta efni er nauðsynleg okkar þjóðfélagi, alveg eins og löggjöf um fjöldamörg önnur efni, og það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að samtök vinnuveitenda annarsvegar og verkamanna hinsvegar eru nauðsynleg hverju þjóðfélagi og miða beinlínis til þess að draga úr deilumálum, ef viturlega er á málunum haldið af báðum aðiljum, þ. e. a. s. ef með völdin í þessum félagsskap fara menn, sem líta á nauðsyn þjóðfélagsins á hverjum tíma, en hafa þar engar öfgar í frammi.

En mér þótti leitt að heyra, að hæstv. forsrh. sá ekki, að þetta mál gæti náð fram að ganga á þessu þingi. Sama kom fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv. og hann talaði um, að ástæðan til þess væri m. a. sú, hvernig málið væri fram borið. Ég vil leyfa mér að minna á það, að þegar fyrstu sporið í þessu efni var stigið, þegar borið var fram frv. um sáttatilraunir í vinnudeilum árið 1925, þá var það borið fram af aðalandstæðingi þáv. ríkisstj., Tryggva Þórhallssyni, og var þá ekki um það spurt, hver bæri málið fram: það var aðeins lítið á það, að hér var flutt gott mál, og það náði því samþykki allra aðilja. Ég sé ekki annað en Alþingi sé þannig skipað nú, að það geti fyllilega rannsakað hugi þeirra aðilja, sem mest kemur þetta við. Við vitum, að innan þingsins eiga sæti flestir aðalleiðtogar alþýðusamtakanna í landinu, og á þeim veltur fyrst og fremst, hvernig fer um afgreiðslu þessa máls. Ég skal hinsvegar játa, eins og ég líka tók fram í gær, að það væri mjög æskilegt, að samkomulag næðist milli aðalaðiljanna um þessa löggjöf, til þess að hún kæmi að fullum notum. En ég fæ ekki betur séð en að slíku samkomulagi megi ná á meðan þetta þing situr. Og það ætti að vera þeim mun fljótlegra, þar sem þetta mál hefir talsvert verið undirbúið utan þings áður en það kom hér fram. Eins og hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Reykv. báðir gátu um, hefir vinnuveitendafélag Íslands fyrir löngu — ég held það hafi verið á síðastl. sumri — leitað til Alþýðusambands Íslands um samkomulag um vinnulöggjöf. Formaður vinnuveitendafélagsins talaði fyrst um þetta við formann Alþýðusambandsins, og tók hann málinu þá eigi illa, en vildi að sjálfsögðu ráðgast um það við samherja sína. Og upp úr síðustu áramótum, þar sem ekkert munnlegt svar hafði komið frá alþýðusamtökunum, var Alþýðusambandinu síðan skrifað af vinnuveitendafélaginu og beðið um svar við þessum till. þess, svo að hægt væri að koma þessu máli á framfæri á þessu þingi. Það dróst, að svarið kæmi. Loks 4. febr. — að mig minnir — kom bréf frá Alþýðusambandinu, þar sem það segir, að það geti ekki tekið afstöðu til þessa máls fyrr en það hafi borið það undir verkalýðsfélögin í Reykjavík og Hafnarfirði. Og svo var að skilja á bréfi þessu, að Alþýðusambandið gæti þetta innan skamms. En nú kemur hv. 2. þm. Reykv. með skriflega yfirlýsingu frá Alþýðusambandinu, þar sem það segist vilja lengja frestinn til þess að taka afstöðu í þessu máli, og taki ekki þá afstöðu fyrr en eftir að sambandsþing verklýðsfélaganna hefir komið saman í haust.

Ég tel, að samkomulag um þetta mál sé svo mikils virði, að rétt sé að fresta til hins ýtrasta að ná því. En hinsvegar, ef forráðamenn verklýðssamtakanna, sem sæti eiga hér á Alþ., eru þeirrar skoðunar, að vinnulöggjöf sé nauðsynleg, álít ég, að hægt sé að afgr. málið á þessu þingi. Í allshn. þessarar d. eiga sæti hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk., sem báðir eiga sæti í stj. Alþýðusambands Ísl. Ef þeir því hefðu hug á að leita samkomulags um að leiða þetta mál til lykta, þá væri þeim í lófa lagið að koma því fram á þessu þingi. Ég vil í lengstu lög vona, að samkomulag náist um friðsamlega og heillavænlega afgreiðslu málsins á þessu þingi. Engir hafa í raun og veru meiri hagsmuni af því, að þessum málum sé stillt til friðar og farsællegra lykta, heldur en einmitt þeir, sem með ríkisvaldið fara í þjóðfélaginu, því að allar langvinnar atvinnudeilur hljóta fyrr eða síðar að snúast gegn ríkisvaldinu. Það er ríkisvaldið, sem, þegar til vandræða horfir, verður að grípa í taumana og sjá um lausn deilna á einn eða annan hátt. Enda höfum við dæmi þess hér hjá okkur, að vinnudeilur hafa verið leystar á þann hátt, að ríkisvaldið sjálft hefir orðið að borga það, sem á milli greindi. En fáist ekki samkomulag um mál þetta nú á þessu Alþ., þá verður að hníga að því ráði að láta rannsaka þetta mál af milliþn. til næsta þings. Þykir mér miður, ef fara þarf þá leið. Sá dráttur, sem með því verður á löggjöf um þetta mál, getur orðið þjóðfélaginn hættulegur. En hálfur skaði er betri en allur. Og fáist ekki þetta mál leyst nú á þessu þingi, þá er rétta leiðin að skipa milliþn., sem rannsakar málið til næsta þings. Ég teldi rétt, að sú n. yrði að meiri hl. kosin af sameinuðu þingi, en þeim tveim aðalaðiljum, sem þetta mál tekur til, yrði gefinn kostur á að tilnefna sinn manninn hvorum í n.

Ræða hv. 2. þm. Reykv. var fyrirfram hugsuð og samin, enda hógvær að mestu. Þó vildi hann telja varhugavert að samþ. frv., sem hefði fengið þann undirbúning, sem þetta mál hefir fengið. Þetta frv. hefir fengið þann undirbúning, að rannsökuð hafa verið til hlítar ákvæði, sem gilda um þetta efni hjá nágrannaþjóðum okkar, og það, sem bezt hefir reynzt hjá hverri þeirra þjóða, hefir verið tekið upp í frv. þetta. Ég hygg, að sjaldan hafi verið lagt fyrir hæstv. Alþ. öllu rækilegar undirbúið frv. og nákvæmlegar heldur en einmitt þetta frv. Og ég efast ekki um, að ef hv. 2. þm. Reykv. hefði fundið í þessu frv. eitthvað það, sem hann gæti talið gegn hagsmunum verkalýðsins í landinu frekar en gegn hagsmunum vinnuveitenda, þá hefði hann ekki skort kjark til þess að minnast á það hér. Þessar umr. hafa einmitt glögglega sýnt, að frv. þetta er svo sanngjarnt og tekur sjónarmið þjóðfélagsins fram yfir allt annað, að ekki verður með rökum nokkuð gegn því fundið. Enda tók hæstv. forsrh. þetta fram í sinni ræðu.

Ég vona, að við nánari athugun þessa máls sjái stjórnarflokkarnir, að þetta frv. hefir það efni að flytja, að rétt er að lögfesta það sem fyrst, og jafnframt að þeir sjái, að dráttur á þessari löggjöf getur orðið hættulegur. Ég vænti því, að hv. allshn. þessarar d. geti tekið þetta mál til rækilegrar meðferðar og skilað áliti sínu á þann veg, að framgangur málsins sé vís á þessu þingi.