14.03.1936
Neðri deild: 24. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (2492)

55. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur m. fl.

*Jónas Guðmundsson:

Ég hefi borið fram brtt. á þskj. 142, við l. gr. frv., að því er snertir tekjur hreppstjóra í kauptúnum. Ég er kunnugri slíkum kauptúnum en sveitum landsins, og ég veit, að flestir af þessum kauptúnshreppstjórum, þ. e. í þeim kauptúnum, þar sem sýslumenn eru ekki búsettir, hafa mjög mikil störf með höndum, enda hefir þingið undanfarin ár viðurkennt þetta, með því að gera ýms stærstu kauptúnin að sérstökum lögreglustjóraumdæmum, sem fengju greiðslur úr ríkissjóði.

Sú hækkun, sem brtt. mín gerir ráð fyrir, að verði á launum þessar, hreppstjóra frá því, sem er farið fram á í frv., er sú, að ætlazt er til, að þessir hreppstjórar fái greidda 50 aura fyrir hvern íbúa í kauptúni með yfir 500 íbúa í viðbót við þau laun, sem hreppstjórum eru ákveðin í 1. gr. frv. Það munu vera um 10 kauptún á landinu, sem fall, undir þetta, og fjárhæðin, sem þarna er um að ræða, er um 3000 kr. í allt, því að hér verður að gæta þess, að þau kauptún, þar sem sýslumenn eru búsettir, falla ekki undir þetta, því að þar er starfsvið hreppstjóra miklu minna heldur en í þeim kauptúnum, þar sem sýslumenn eru ekki búsettir. — Að því er snertir hækkun á launum hreppstjóranna yfirleitt verð ég að segja það, að ég get fallizt á það með meiri hl. n., að þetta verði gert, vegna þess að bæði á þessu þingi og öll síðustu þing hafa legið fyrir tilmæli frá flestum sýslumönnum landsins um að fá aukið skrifstofufé, sérstaklega með tilliti til þess að geta gert betur við sína hreppstjóra eða þá, sem þeir hafa fyrir umboðsmenn hingað og þangað um víðlendar sýslur og taka mikil störf af sýslumönnunum. Ég lít því svo á, að hækkun á hreppstjóralaununum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, ætti að geta haft þær verkanir í för með sér, að ekki þyrfti að auka eins mikið skrifstofufé til hinna einstöku lögsagnarumdæma í landinu eins og útlit er fyrir, að nauðsynlegt sé að gera, ef ríkið ætlar sýslumönnum og lögreglustjórum að halda þessum málum í sæmilegu horfi.

Hirði ég svo ekki um að hafa fleiri orð um þetta, en ég gæti fært mörg fleiri rök fyrir því, að hreppstjórar í kauptúnum hafa miklu fleiri störf með höndum en hreppstjórar í sveitum, og stafar það af siglingum til kauptúnanna, innheimtu á ýmsum gjöldum, er stafa af fólksfjöldanum. o. fl., sem ekki er til að dreifa í sveitahreppunum.