10.03.1936
Neðri deild: 20. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

66. mál, kjötsala innanlands

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Þetta frv. er svo að segja shlj. frv., er ég flutti á síðasta þingi, og fyrir því liggja öll þau sömu rök og því voru látin fylgja þá, bæði í langri grg. og framsöguræðu og öllum umr. frá minni hendi og annara, er studdu frv. þá.

Ég sé ekki ástæðu að endurtaka þessi rök hér, sízt af öllu þar sem ekki kom neitt fram á síðasta þingi, sem virtist hnekkja þeim rökum. Þó hafa mjög margir af þeim, sem eiga að búa við þessi lög, síðan látið í ljós við mig, að þeir væntu þess, að málinu verði haldið áfram þangað til það nær samþykki Alþingis.

Á þessu frv. er sá munur og frv. í fyrra, að hér er lagt til, að saman séu dregnar í eina grein tvær greinar í lögunum, sem gilda, 6. og 7. gr. Þetta stafar af því, að þessar greinar eru eiginlega að efni til ákaflega litlar fyrir sér, en hafa verið teygðar og lengdar talsvert með aukaatriðum, sem virðast betur eiga heima í reglugerð, með því að það er fyrirskipað, að reglugerð skuli samin til þess að staðfesta með nánari ákvæðum þau atriði, sem lögin eru um. Ég sá því ekki ástæðu til annars en að draga þessar greinar saman, af því að ég bar fram breyt. á lögunum hvort sem var.

Ég vil fastlega vænta þess, að þetta mál fái fljótari afgreiðslu gegnum þingið en í fyrra, því að það ber að láta þau mál fá hraða afgreiðslu, á hvern veg sem hún verður, sem eru um höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar. Þetta mál hefir svo mikla þýðingu fyrir landbúnaðinn, að það er sjálfsagt, að það fái þinglega og sem allra tafarminnsta afgreiðslu. — Ég vil svo óska eftir því, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.