09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (2539)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Flm. (Ólafur Thors):

Með þessu frv. er farið fram á, að breytt verði l. um gjaldeyrisverzlun frá 9. jan. 1935 í þá átt, að útgerðarmönnum verði heimilt að ráðstafa þeim erlendum gjaldeyri, sem fæst fyrir útfluttar vörur þeirra, að því leyti sem þeir þurfa hann til greiðslu á vörum til útgerðarinnar. Það má náttúrlega færa mörg og sterk rök fyrir þessari breyt., og frv. getur þannig gefið tilefni til þess að ræða um hagsmuni sjávarútvegsmanna, og raunar framleiðenda yfirleitt. En mér þykir ekki ástæða til þess að gera það við þessa umr. málsins, svo nokkru nemi a. m. k. Ég ætla þess vegna alveg að leiða hjá mér að færa rök að versnandi ástæðum útvegsmanna, sem stafa sumpart af vaxandi álögum, sem enn hafa stóraukizt á þessu ári, og sumpart af þrengdum markaði og lækkandi verðlagi, en víkja beint að gjaldeyrishömlunum. Það er út af fyrir sig, þó ýms lagaákvæði og reglugerðir banni útvegsmönnum að kaupa vörur til útgerðarinnar þar, sem þær eru ódýrastar. Eru það þó þungar búsifjar, og orkar mjög tvímælis, hvað langt á að ganga inn á þá braut að koma upp innlendum iðnaði í skjóli hafta og banna og leggja þær kvaðir á atvinnuvegina að kaupa vörurnar dýrar en annars væri þörf á. Er þetta því varhugaverðara, sem þeir standa nú mjög höllum fæti, svo ekki er á bætandi. Í þessu frv. er þá líka farið fram á þá eina breyt. í þessum efnum, að útgerðarmönnum verði eftirleiðis leyft að nota þann hluta af sínum erlenda gjaldeyri, sem þeir þurfa til greiðslu á erlendum vörum til útgerðar sinnar, innan þeirra vébanda, sem gildandi l. og reglur setja um innflutninginn.

Mér er kunnugt um, að í þessu efni horfir til vandræða fyrir útveginum, vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið í gjaldeyrismálum. Síðan allur gjaldeyrir var dreginn undir umráð gjaldeyrisnefndar er búið að drepa allt erlent traust einstaklinganna. Mér er kunnugt um marga menn, sem áður gátu keypt gegn 6–9 mánaða víxli, eða jafnvel til lengri tíma, að þeir verða nú að sjá fyrir staðgreiðslu eða bankatrygginga í London. Ég hygg, að í stað þess að það var almenn regla að taka gildan samþykktan víxil kaupanda, sé það nú algild regla að heimta bankatryggingu. Er mér kunnugt um, að þannig er búið, sumpart fyrir aðgerðir gjaldeyrisnefndar og sumpart fyrir aðgerðir bankanna sjálfra, að drepa gersamlega niður traust einstaklinganna. Hafi verið farið fram á ábyrgð bankanna, er mér kunnugt um, að þeir hafa brugðizt mjög misjafnlega við, og hygg ég, að þeir séu mjög tregir til þess að taka á sig slíkar ábyrgðir, þó þeir beri fullt traust til aðilja. Enda má færa mörg skynsamleg rök fyrir þessari afstöðu bankanna. Það verður ekki talið ámælisvert, þó bankarnir vilji á krepputímum fara varlega í að taka á sig greiðslur til útlanda. Því enda þótt lántakandi geti sýnt fram á sterkar líkur fyrir, að hann geti sjálfur staðið straum af greiðslunni, getur slíkt alltaf brugðizt. Bankinn verður því að reikna með því, að til hans kasta geti komið, og vita sig alveg öruggan um að geta annazt greiðsluna, ef til kemur.

Á undanförnum árum hefir ekki til þessa komið meðan viðskiptin voru óhindruð í höndum einstaklinganna. En úr því svo er komið, að búið er að drepa allt þeirra traust og ekki er hægt að flytja inn nema með bankatryggingu, sem bankarnir skirrast við að taka á sig, eru engar aðrar útgöngudyr en breyta gjaldeyrislögunum í það horf, sem hér er farið fram á, ef ekki á að horfa auðum höndum á, að útvegurinn stöðvist. Ég skal að vísu viðurkenna, að ekki er örugg vissa um, að með þessu skapist nægilegt traust, en þó eru til þess nokkrar líkur, og a. m. k. sé ég ekki að svo komnu máli aðrar dyr opnar. En ef þetta nægir ekki, er ekki annað fyrir hendi en afnema öll höft og bönn, sem sjálfstæðismenn þó viðurkenna, að miklum vandkvæðum er bundið eins og sakir standa.

Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni nú, sem þó er mín skoðun, að útgerðarmenn hafi nú um nokkur ár verið rændir nokkrum hluta af andvirði gjaldeyrisins, enda heyrir það öllu frekar undir annað mál á dagskránni. En þetta mál þarf að leysa, og vænti ég góðra undirtekta hv. þdm.