09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2540)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í þessu frv. er farið fram á að losa útgerðarmenn undan þeirri skyldu að afhenda allan gjaldeyri samkv. l. frá 1935, eða þann hluta, sem varið yrði til kaupa á vörum til útgerðarinnar. Þegar það ákvæði var sett, að afhendu skyldi bönkunum allan gjaldeyri, var það gert til að fá allan gjaldeyri í einn stað og geta kontrollerað, að hann kæmi allur fram, en væri ekki ráðstafað á ólöglegan hátt. Það þarf ekki að eyða orðum að því, að tilgangurinn var á engan hátt sá, að skerða rétt útgerðarmanna til þess að flytja inn nauðsynlegar vörur fyrir atvinnureksturinn frá því, sem áður var. Allir munu vera sammála um nauðsyn þess að greiða fyrir innflutningi þeirra vara, sem þarf til framleiðslu á okkar útflutningsvörum. Hv. fyrri flm. frv. sagði, að mjög illa gengi að fá yfirfærslur, vegna þess hve bankarnir væru tregir að taka á sig þá hættu, sem slíkum skuldbindingum fylgja. Það mun vera rétt, eftir þeim svörum, sem bankarnir hafa gefið við fyrirspurnum nú fyrir nokkrum dögum, að þeir hafa sýnt tregðu á að veita bankatryggingar fyrir erlendum greiðslum og ekki viljað taka það upp sem almenna reglu, enda töldu bankarnir það ekki orðna, almenna kröfu, þó það hefði komið fyrir.

En nú er hægt að fara fleiri leiðir en þá, sem h. flm. bendir á. Og sú leið, sem mér dettur í hug, þó ég vilji ekki fullyrða, að ég hallist að henni að athuguðu máli, er sú, að heimila með berum orðum gjaldeyrisnefnd og bönkunum að leyfa útgerðarmönnum að ráðstafa nokkrum hluta af útflutningsvörum sínum. Þessi till. er frábrugðin frv. að því leyti, að á þann hátt er miklu auðveldara að passa, að allur gjaldeyririnn komi til skila. Þetta er einnig tryggar, en ef leyfið er almennt, því þá geta menn e. t. v. skotið sér undir hæpnar ráðstafanir með gjaldeyrinn. Ég vil því beina því til þeirrar n., sem um málið fjallar, að athuga það vel og tala við gjaldeyrisnefnd og bankana áður en hún skilar áliti, því þetta gripur svo mikið inn á þeirra svið, hvor leiðin sem tekin verður.

Að því er snertir það, sem hv. þm. sagði almennt um það, að gjaldeyrisnefnd og aðrir væru búnir að eyðileggja traust manna, þá býst ég við, að hv. þdm. sé kunnugt um þá erfiðleika, sem verið hafa á því að ná út greiðslum fyrir vörur í sumum löndum, sem við höfum þurft að selja til, auk þess sem sá gjaldeyrir hefir reynzt minni en reiknað var með.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum nú, en mun geyma frekari umr. til 2. umr.