09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2541)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Flm. (Ólafur Thors):

Ég get að sumu leyti látið mér vel líka undirtektir hæstv. ráðh., þar sem hann lýsir yfir, að hann sé reiðubúinn að athuga málið og virðist skilja nauðsyn þess. En ég vík ekki frá því, sem ég sagði áðan, að það sé orðið almennt, a. m. k. um sumar vörutegundir, t. d. kol, að heimta bankatryggingu fyrir greiðslunni. Fyrir þremur vikum mun að vísu hafa verið hægt að kaupa kol án bankatryggingar, en þó því aðeins, að verðið væri hærra en ella. Mun einn farmur hafa verið seldur þannig. En jafnskjótt og þau kaup voru um garð gengin, kom skipun frá kolasölum í Englandi að selja ekki nema gegn bankatryggingu, og það nægir ekki íslenzkur banki, heldur verður banki í London að veita trygginguna. Svona var afturkastið snöggt. Ég held því, að það sé rétt, að engin kol sé hægt að fá án bankatryggingar.

Þá hefir heyrzt, að ríkisstj. sé búin að lofa að tryggja greiðslu fyrir olíu, og auk þess að kaupa af olíufélögunum 1½ millj. af innstæðum þeirra hér, gegn greiðslu í pundum á 22,15 þó þær séu vitanlega ekki þess virði. Það er ekki nema eðlilegt, þó olíusalarnir vilji hafa tryggingu fyrir erlendum gjaldeyri fyrir sína vöru, og því ekki annars úrkosta en láta hana í té. En það er alveg óskylt því, að breyta erlendri innieign, sem hér hefir frosið inni, í fast lán, með gengi fyrir ofan sannvirði. — Mér er einnig kunnugt um, að nú er ekki hægt að kaupa veiðarfæri hjá firmum, sem áður hafa verið reiðubúin að selja gegn allt að árs gjaldfresti, nema sett sé bankatrygging. Ég held því, að það sé rangt hjá bönkunum, að þetta sé ekki orðin almenn regla, eða rangt eftir bönkunum haft.

Ég skal fúslega viðurkenna, að það er erfitt að útvega gjaldeyri, einkum vegna greiðslutregðu fyrir útflutningsvörur, t. d. saltfiskinn. En hitt er víst, að ef útgerðarmenn hefðu haft gjaldeyri frjálsan, hefði ekki komið til jafnmikilla erfiðleika. — Mér skildist, að úrlausn hæstv. ráðh. væri að mestu leyti sama og okkar flm. frv., að öðru en því, að hann vill aðeins hafa heimild, þar sem við teljum heppilegra að hafa skyldu. Get ég ekki séð, að gjaldeyrisnefnd ætti að stafa neinn voði af því, þar sem það liggur í hlutarins eðli, að útgerðarmenn verða að færa rök að því, til hvers gjaldeyririnn er notaður, og sæta að öðru leyti þeim reglum, sem ráðh. setur.